Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:29:06 (634)

1996-10-30 14:29:06# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör og hv. þingmönnum fyrir þeirra þátttöku í þessu sérstaka máli.

Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að hann taldi að þessi aðgerð ein og sér hefði haft áhrif á leigukvótaverð og verð á aflaheimildum vegna þess að kerfin væru einfaldari og gegnsærri með þessu móti. Það er samt staðreynd, þó svo að þessu sé haldið fram af hæstv. sjútvrh., að kvótaverð hækkaði upp í 700 kr. og hefur aldrei verið hærra en einmitt nú. Leigukvótaverð hefur reyndar lækkað niður í 67 kr. eins og það er í dag og er samt allt of hátt. Það hefur farið upp í 95 kr. eða svo.

Það er aftur á móti ljóst að leigukvótaverð mun hækka mjög verulega í desember og þá fyrst og fremst vegna þess að útgerðir munu kaupa sér leigukvóta fyrir næsta almanaksár til þess að ná inn kostnaði til að mæta hagnaði fyrirtækja í sjávarútvegi á yfirstandandi ári þannig. Ég held þess vegna að menn geti ekki hlakkað yfir því að þetta ofurháa kvótaverð sé á einhverri niðurleið vegna þessara aðgerða. Það er mikill misskilningur.

Því miður virðist það vera svo að þessi aðgerð verði ekki tekin til baka og að sjálfsögðu er búið að ganga frá því með lögmætum hætti hvernig þetta verður. En ég tel þó að með auknum aflaheimildum á næsta fiskveiðiári ætti að vera möguleiki á að taka upp að nýju svipað fyrirkomulag, þó breytt á þann hátt að það sé hugsað fyrir landróðraskip og fiskvinnslur í landi en ekki fullvinnsluskip eða línuveiðiskip sem eru í útilegum. Það er með ýmsu móti hægt að lagfæra þetta kerfi þannig að það þjóni þjóðinni sem best.