Skiparatsjár

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:41:30 (638)

1996-10-30 14:41:30# 121. lþ. 14.5 fundur 65. mál: #A skiparatsjár# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóð svör, en um leið verð ég auðvitað að láta í ljósi mikil vonbrigði með það að ekki skuli hafa fengist fjármagn til að ljúka þessari framkvæmd. Sannleikurinn er sá, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að uppsetning skiparatsjánna var hugsuð sem hluti af þessari miklu mannvirkjagerð og ég lít þannig á að meðan þessu er ekki lokið að fullu, sé ekki búið að uppfylla það að koma upp þessu ratsjárkerfi við norðanvert landið.

Við skulum ekki gleyma því að þegar þessar umræður fóru fram, voru þær á margan hátt bæði mjög harðar og sársaukafullar og það fór ekkert á milli mála hvaða fyrirheit voru gefin á þessum tíma. Í mínum huga réði það að vísu ekki úrslitum hvort skiparatsjárnar kæmu eða ekki. En það var alveg ljóst mál að þegar þessi ákvörðun var tekin, þá var hún tekin í heild sinni. Þess vegna eru það auðvitað á vissan hátt brigð af hálfu Atlantshafsbandalagsins, Mannvirkjasjóðsins, og eftir atvikum stjórnvalda í Bandaríkjunum ef ekki er efnt að koma upp þessum skiparatsjám. Ég veit að íslensk stjórnvöld hafa reynt að fylgja þessu eftir eins og mögulega hefur verið kostur á og það er enginn að efast um vilja núv. eða hæstv. fyrrv. utanrrh. En það breytir ekki því að ekki er búið að ljúka því sem ætlunin var að ljúka og þau fyrirheit sem gefin voru fyrir tíu árum hafa ekki verið efnd og það er mjög þýðingarmikið. Það er mjög leitt til þess að vita að vinaríki okkar skuli hafa staðið þannig að málum að ljúka ekki þessari uppsetningu á svo mikilvægu mannvirki sem þarna er.

Nú getur vel verið að hægt sé að finna á þessu einfaldari og betri lausnir en ætlunin var í upphafi og þá verður auðvitað að leita þeirra leiða. En það breytir því ekki að við Íslendingar verðum, eins og hæstv. utanrrh. sagði áðan, að halda þessu máli áfram uns við ljúkum því þar sem því er óneitanlega ekki lokið.