Skiparatsjár

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:43:50 (639)

1996-10-30 14:43:50# 121. lþ. 14.5 fundur 65. mál: #A skiparatsjár# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram, höfum við í utnrrn. haldið þessu máli vakandi og munum halda því vakandi. Það verður hins vegar ekki komist hjá því að breyttar aðstæður á hverjum tíma leiða til breytts mats á stöðunni sem er það sem hefur gerst hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. En það er rétt að þegar þessi ákvörðun var tekin lágu fyrir skýrar yfirlýsingar um að þetta yrði gert. Hins vegar var ekki sótt eftir fjármögnun fyrir þessum tiltekna hluta verksins fyrr en árið 1992 og í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru upp komnar, taldi Mannvirkjasjóðurinn önnur verkefni brýnni en að fjármagna þetta verkefni.

Við munum áfram sækja á um að þetta verði framkvæmt og ég vonast eftir því að það muni takast. Við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því að með þeirri stækkun sem nú er fyrirhuguð á Atlantshafsbandalaginu, er ljóst að mörg verkefni bíða víða í Evrópu og þess vegna verður sótt hart á um ýmsar framkvæmdir úr þessum sjóði. Það er jafnframt rétt að taka fram að Ísland á ekki formlega aðild að Mannvirkjasjóðnum. Það var ekki gengið til samstarfs í þeim sjóði í upphafi og fyrir nokkrum árum þegar það mál var endurskoðað var ákveðið að gera það ekki. En það er vissulega til athugunar og ætti að vera til athugunar á hverjum tíma og það er verið að fara yfir það í utanrrn. hvort Ísland eigi ekki að taka þátt í starfsemi þessa sjóðs með formlegum hætti. Það þýðir þá að við þurfum jafnframt að láta nokkuð af mörkum til starfseminnar.