Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:49:44 (641)

1996-10-30 14:49:44# 121. lþ. 14.7 fundur 77. mál: #A sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við fyrstu spurningunni er þetta svar: Meginástæða fyrir því að samningum um sjúkraflutninga var sagt upp var sú að úttekt óháðs aðila sýndi að unnt væri að fá fram talsvert hagræði með sameiningu þjónustunnar og að ríkið nyti ekki sem skyldi hagræðis af samstarfi við sveitarfélögin sem fæst með samrekstri sjúkraflutninga og slökkviliðs. Markmið samstarfs sem þessa hlýtur að vera að tryggja örugga þjónustu en jafnframt þurfa báðir aðilar að hafa hag af samstarfinu. Tilkoma Neyðarlínunnar hlýtur einnig að hafa áhrif á samning aðilanna þar sem neyðarsímsvörun er samræmd og því lækkar kostnaður við Slökkvilið Reykjavíkur. Fyrirkomulag sjúkraflutninga er mismunandi um landið og eru þeir aðallega í höndum heilsugæslustöðva, rauðakrossdeilda, lögreglu eða slökkviliða eða í samvinnu heilsugæslustöðva og Rauða krossins.

Árið 1992 var nefnd falið að kanna tilhögun sjúkraflutninga og gera tillögur þar um enda lá fyrir að kostnaður við þjónustuna fór vaxandi. Nefndin skilaði bráðabirgða\-áliti árið 1994. Nefndin lagði til að hafnar yrðu viðræður við Rauða kross Íslands um að taka að sér alla sjúkraflutninga í landinu en óformlegt tilboð Rauða krossins var talsvert hærra en ráðuneytið taldi sér fært að greiða fyrir flutningana. Nefndin yfirfór tilboðið og var síðan óháðri verkfræðistofu falið að gera verklýsingu yfir sjúkraflutninga. Í skýrslu verkfræðistofunnar kom fram að ná mætti verulegri hagræðingu í sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu með samvinnu og sameiningu þjónustunnar á svæðinu. Samningum við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ var sagt upp í lok árs 1994 og mitt ár 1995 en voru endurnýjaðir í árslok 1995 til eins árs. Jafnframt var Rauða krossinum tilkynnt að ekki væri unnt að ganga til samninga um sjúkraflutninga á landinu öllu að svo stöddu. Sjúkraflutningaráði var falið að vinna að því að skilgreina betur kröfur varðandi sjúkraflutninga, fjölda, staðsetningu bíla, búnaðar og viðbragðsflýti og menntun sjúkraflutningamanna og liggur skýrsla fyrir um það og reyndar búið að gera samning um menntun sjúkraflutningamanna. Ráðið leggur til að sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðini verði sameinaðir undir eina stjórn og er unnið að því.

Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda var: Telur ráðherra að núverandi samhæfing slökkvistarfs og sjúkraflutninga í þessum sveitarfélögum sé óheppileg? Nei, það tel ég ekki þótt fleiri leiðir komi til greina. Sjúkraflutningar á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru að jafnaði tæplega 40 á dag, útköll slökkviliðs eru verulega færri. Með samrekstri sjúkraflutninga og slökkviliðs er unnt að halda uppi mun öflugri og öruggari slökkviliðsþjónustu en ella og kostnaður er minni. Nú nýtur ríkið enn að óverulegu leyti hagnaðarins af þessum samrekstri. Sjúkraflutningar geta fallið vel að starfsemi þar sem vakt er allan sólarhringinn, samanber starfsemi slökkviliða. Sjúkraflutningar geta einnig fallið vel að starfsemi lögreglu eins og þegar hefur sýnt sig því lögregla annast sjúkraflutninga víða. Aðalkosturinn við að reka saman lögreglu og sjúkraflutninga er sá að ríkið sjálft nýtur þess ávinnings sem hlýst af samrekstri sjúkraflutninga með annarri starfsemi sem ríkið greiðir.

Þriðja spurning hv. fyrirspyrjanda er hvort ráðherra áformi að bjóða út þjónustu sjúkraflutninga á upptökusvæðum Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbæjar. Ef svo er, hvort útboðið verði opið. Á grundvelli skýrslu sjúkraflutningaráðs hefur verið unnin kröfu- og útboðslýsing fyrir sjúkraflutninga á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í fyrsta sinn hafa því verið skilgreindar frambærilegar kröfur til sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu sem munu leiða til stórbættrar þjónustu við íbúa þessa svæðis. Í kröfu- og útboðslýsingunni er gengið út frá því að sjúkraflutningar á Stór-Reykjavíkursvæðinu lúti einni stjórnstöð og þjónustusvæðið verði eitt. Tekið skal fram að fjármögnun og rekstur sjúkrabifreiðanna sjálfra er ekki hluti þessara lýsinga. Á grundvelli fyrirliggjandi kröfu- og útboðslýsingar eru hafnar viðræður við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ um að koma sameiginlega að samningi um sjúkraflutninga á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Takist samningaviðræður við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ ekki á næstu vikum kemur til greina að kanna þá möguleika að fela öðrum aðilum að annast flutninga eða bjóða þá út. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort útboð verður opið eða lokað ef til þess kemur.