Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:55:08 (642)

1996-10-30 14:55:08# 121. lþ. 14.7 fundur 77. mál: #A sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru eins og vænta mátti tiltölulega almenns eðlis. Ég held að það sé hins vegar full ástæða til þess að undirstrika það hér að rekstur slökkviliða er á hendi sveitarfélaganna og hæstv. ráðuneyti heilbrigðismála hefur ekkert með þau að gera. Þannig birtist þetta mál eilítið með þeim hætti að hæstv. ráðuneyti heilbrigðismála er að setja slökkvilið þessara sveitarfélaga upp við vegg og segja sem svo: Ef þið lækkið ekki þær tölur sem eru í núgildandi samningum um sjúkraflutningana, sem núna eru samtals á höfuðborgarsvæðinu öllu og þar með töldum Hafnarfirði 140 millj. kr., þá bjóðum við þetta út, þá tökum við þetta af ykkur. Og það hefur veruleg áhrif á rekstur slökkviliðanna. Það gefur auga leið eins og hæstv. ráðherra réttilega kom hér inn á og er að finna í fyrirspurn minni. Það sér hver heilvita maður að skynsamlegast er auðvitað að þessi tvö þjónustufyrirtæki, rekstur slökkviliða og sjúkraflutninga, og hæstv. ráðherra komst ágætlega að orði í svari sínu hér áðan um hagræði af því. Allar hugmyndir um að fara aðrar leiðir í því sambandi eru því glapræði og ég vara mjög eindregið við slíkum hugmyndum. Ég vara einnig við því að hæstv. ráðuneyti stilli sveitarfélögum upp við vegg með þessum hætti. Það á vitaskuld að ná samningum um áframhaldandi fyrirkomulag þessara mála sem hefur gengið býsna vel. Þjónustan hefur verið gegnum heilt örugg og trygg, tiltölulega ódýr þó ævinlega megi þar betur gera og stundum er nú ástæða til þess að láta kyrrt liggja þegar hlutir eru í þokkalegu lagi þannig að ég bið hæstv. ráðherra að fara sér hægt í þessu máli.