Launajafnrétti

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:27:40 (656)

1996-10-30 15:27:40# 121. lþ. 14.10 fundur 45. mál: #A launajafnrétti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:27]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að taka þátt í þessari umræðu vegna starfsmatsins og útskýra aðeins nánar að það er rétt sem hæstv. fjmrh. kom inn á áðan að ríkisstjórnin er búin að samþykkja að fara út í kynhlutlaust starfsmat sem tilraunaverkefni. Ég stýri einmitt nefnd sem er að skoða það verkefni. Það er nýbúið að ráða starfsmann í fullt starf við að koma þessu verkefni áfram og það verða einnig tveir starfsmenn sem koma að þessu í hálfu starfi frá Reykjavíkurborg og Jafnréttisráði. Þarna eru fulltrúar bæði frá launþegasamtökunum og frá atvinnurekendum.

Það sem er hins vegar sorglegt í þessu máli er að VSÍ hefur ekki viljað koma með fulltrúa í þetta starf og er það nokkurt áhyggjuefni.

Sérstaklega áhugavert var fyrir okkur að hlusta nýlega á Anitu Harriman sem kom hingað frá Svíþjóð og er sérfræðingur í starfsmati. Þar virðist það vera svo að samtök atvinnurekenda eru mjög jákvæð gagnvart starfsmati en þannig er því ekki farið hér á landi, því miður.