Aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:31:56 (659)

1996-10-30 15:31:56# 121. lþ. 14.11 fundur 46. mál: #A aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég ber fram um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna hefur ákveðna skörun við þá fyrirspurn sem var á dagskrá en mér þótti þó henta að skipta þessu í tvennt og taka málin fyrir hvort í sinni fyrirspurninni. En sú fyrirspurn sem ég vil bera fram til hæstv. ráðherrans snýr einmitt einnig að hinum nýju starfsmannalögum þar sem forstöðumönnun stofnana eru færð ný og aukin völd varðandi starfsmannastefnu hvað varðar auglýsingar starfa, setningu erindisbréfa, vinnutíma, þar með talda yfirvinnu, og sveigjanlegan vinnutíma. Það varðar ekki síst það sem hér var getið um áðan að með nýjum lögum geta forstöðumenn ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum öðrum en embættismönnum laun til viðbótar grunnlaunum. Öllum þessum ákvæðum, þ.e. auglýsingu starfa, erindisbréfum, vinnutíma og laun til viðbótar grunnlaunum, má beita til að jafna aðstæður og kjör kynjanna í stofnunum hins opinbera. Einkum er þar litið til ákvæðisins um viðbótarlaunin og það vald sem forstöðumönnum er fært í þeim efnum. Menn hljóta að líta til þess ákvæðis sérstaklega, ekki síst með það mikla launamisrétti í huga sem er margstaðfest.

Í þáltill. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna á árabilinu frá 1993--1997 kemur fram í þeim kafla sem snýr að fjmrn. að því er gert að skipuleggja sérstök námskeið fyrir stjórnendur hjá hinu opinbera þar sem lögð verði áhersla á jafnrétti og samskipti kynjanna. Ráðherra gat áðan um að námskeið væru í gangi og ég spyr hæstv. fjmrh. hvernig forstöðumönnum opinberra stofnana hefur verið kynnt þessi þáltill. um framkvæmdaáætlun og hvort þau námskeið sem þar er getið um fyrir stjórnendur hafa verið haldin. Í A-hluta þeirrar þáltill., sem er sérstaklega um starfsmannamál ríkisins, eru nefnd ýmis þau atriði sem lúta valdi forstöðumanna samkvæmt nýjum lögum um réttindi og skyldur og því spyr ég hæstv. fjmrh. hvort tækifærið hafi verið nýtt og farið hafi verið sérstaklega yfir þessa þætti úr framkvæmdaáætluninni með forstöðumönnum eða stjórnendum stofnana þegar ný lög um réttindi og skyldur voru kynnt og þá hvernig nýta mætti nýja löggjöf til að jafna stöðu kynjanna.