Aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:40:13 (661)

1996-10-30 15:40:13# 121. lþ. 14.11 fundur 46. mál: #A aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:40]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. En það er rétt sem hér hefur komið fram að margir hafa haft áhyggjur af nýju lögunum, að þau gætu orðið til þess að hlutur kvenna yrði eitthvað skertur. Þegar lögin voru í vinnslu í þinginu fór ég fyrir tilviljun inn í þá nefnd sem um það fjallaði og þá var einmitt spurt um hvort t.d. Jafnréttisráð kæmi að kynningu laganna fyrir forstöðumönnum ríkisstofnana. Það var fullyrt í nefndinni að Jafnréttisráð hlyti að koma að þessari kynningu. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að ráðherrann upplýsi hér hvort það verður gert vegna þess að ég veit að Jafnréttisráð hefur tvisvar sent fjmrn. bréf og beðið um að fá að koma að kynningunni. Mér skilst að því hafi ekki verið svarað. Það er búið að kynna þessi nýju lög fyrir stjórnendum hjá ríkinu og Jafnréttisráð hefur ekki fengið að koma að þessari viðkvæmu kynningu gagnvart stöðu jafnréttismála og þeirri umbun sem forstöðumenn ríkisstofnana geta notað núna. Það væri því ágætt ef ráðherrann hæstv. gæti upplýst það hér hvort þessi kynning sé einungis að hefjast og hvort Jafnréttisráð fái þá ekki að koma nánar að málinu.