Aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:43:23 (663)

1996-10-30 15:43:23# 121. lþ. 14.11 fundur 46. mál: #A aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:43]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að ætlum við að vinna á því launamisrétti sem er til staðar þá þurfum við að vera með markvissar og fjölþættar aðgerðir í gangi til þess. Kjarni fyrirspurnar minnar var í rauninni sá hvort það tækifæri, sem nú býðst þegar verið er að kynna ný starfsmannalög, hefði verið nýtt til þess að fara með forstöðumönnum ríkisstofnana yfir framkvæmdaáætlun ríkisins í jafnréttismálum. Hefur tækifærið verið nýtt til að benda þeim á þá möguleika sem liggja í nýjum lögum til þess að breyta um áherslur til samræmis við framkvæmdaáætlunina? Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom hér nákvæmlega að kjarna þess máls, þ.e. bæði áhyggjum Jafnréttisráðs og annarra af því að þetta tækifæri verði ekki nýtt sem skyldi. En nú er einstakt tækifæri til þess að taka forstöðumenn í ákveðinn skóla, ekki bara í starfsmannalögunum heldur líka í þeim ákvæðum framkvæmdaáætlunarinnar sem snúa að starfsmannamálum ríkisins sem er A-kafli áætlunarinnar og hlýtur að vera að stórum hluta til á ábyrgð fjmrn. Þess vegna ítreka ég fyrirspurnina og óska eftir því að ráðherrann svari því og þá jafnframt þeirri fyrirspurn Sivjar hvort tækifærið hafi verið nýtt sem skyldi og hvort það er þá möguleiki að kippa því í liðinn ef svo er ekki.