Endurskoðun siglingalaga

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:03:36 (672)

1996-10-30 16:03:36# 121. lþ. 14.14 fundur 88. mál: #A endurskoðun siglingalaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:03]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svör. Þau byggjast náttúrlega á greinargerð, væntanlega nefndarformanns, um störf nefndarinnar. Ég vildi aðeins beina fáeinum orðum til samgrh. og biðja hann um að beita sér fyrir að í fyrsta lagi taki nefndin alvarlega á því máli sem snýr að hinni svokölluðu hlutlægu ábyrgð útgerðarmanns þannig að án tillits til þess hvort um sök sé að ræða eða ekki sé sjómaðurinn tvímælalaust tryggður. Skaðinn og slysið er nákvæmlega það sama hvort sem hægt er að færa sök yfir á einhvern aðila eða ekki. Það er of langt gengið, hæstv. samgrh., að þessi ákvæði skuli vera með þeim hætti á því herrans ári 1996 því að sjómenn slasast mest allra stétta hér á landi sem í of mörgum tilvikum leiðir til varanlegrar örorku.

Um það, sem hæstv. ráðherra kom aðeins inn á, væntanlega greinargerð frá nefndarformanni, að mikið hafi verið rætt um hvernig ætti að fara með tryggingamálin og ekki væri óeðlilegt að þetta kæmi fram í kjarasamningum, þá leitar þetta auðvitað til þess farvegs þegar sjómenn fengu hjartaáfall til sjós og létust þess vegna. Þá voru engar bætur. En í kjarasamningum hins vegar náðist það fram að eftirlifandi aðstandendum þeirra fjölskyldumanna og einstaklinga sem lenda í slíku er bættur skaðinn með u.þ.b. 600 þús. kr. Það náðist fram í kjarasamningum. Þá voru menn einnig sammála um það í kjarasamningum fyrir mörgum árum að hækka þá fjárhæð sem nefnd er í siglingalögum um 10%. Það réttlætir ekki að fulltrúar útgerðarinnar í þessari nefnd geti haldið því fram að það eigi að gera þessa kjarasamninga með þeim hætti að taka þetta frá löggjafanum. Ég tel að löggjafinn eigi að sýna sjómannastéttinni skilning og þá umbun að tryggja þá svo sómasamlegt sé og án tillits til þess hvort hægt sé að koma sök á einhvern eða ekki. Þeir eiga ávallt að fara bættir frá borði og ég heiti á hæstv. samgrh. að vinna svo að málum og beina sínum kröftum til nefndarinnar að svo verði.