Símatorg

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:10:16 (675)

1996-10-30 16:10:16# 121. lþ. 14.15 fundur 95. mál: #A Símatorg# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er þinglegt að biðja um að hv. þm. leiki fyrir mig spóluna í einrúmi.

Einkenni símatorgsþjónustu er í meginatriðum að veita ýmsa svörunarþjónustu gegnum síma, hvort heldur um er að ræða ráðgjöf eða spilun af segulböndum. Í henni er lagður virðisauki ofan á venjulega símaþjónustu sem rennur til viðkomandi símatorgsfyrirtækis og Póst- og símamálastofnunar, sem sér um innheimtu vegna þjónustunnar. Eðli málsins samkvæmt er hlutverk Póst- og símamálastofnunar við innheimtu vegna símatorgsþjónustu óaðskiljanlegur þáttur í þeirri þjónustu sem skilgreind er í reglugerð um símatorgsþjónustu og því verður það að teljast eðlilegt að stofnunin annist þessa innheimtu.

Aðrar mögulegar leiðir til innheimtu vegna þjónustu sem veitt er gegnum síma er að innheimta gjald fyrir þjónustu gegnum greiðslukortareikning viðkomandi en slíkar leiðir eru vel þekktar, í sambandi við sölustarfsemi sjónvarpsmarkaðar svo að dæmi sé tekið. Innheimta vegna hinnar margvísulegu þjónustu sem í boði er á Símatorginu er sem sagt óaðskiljanlegur hluti af símatorgsþjónustunni og því er það skoðun mín að hún verði naumast skilin frá símatorgsþjónustu Póst- og símamálastofnunar.

Ég vil bæta því við að ég hef orðið var við að sumir sem ekki eru ánægðir með, hvað á ég að segja, þá bleiku rödd sem hljómar kannski frá Hafnarfirði, þá geta þeir leitað út fyrir landsteinana og talað við þekkilegt fólk í öðrum álfum sem auðvitað er dýrara heldur en að hringja hér innsveitis.