Símatorg

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:13:21 (677)

1996-10-30 16:13:21# 121. lþ. 14.15 fundur 95. mál: #A Símatorg# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:13]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin þó að ég hafi orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með þau svör sem hann bar fram hér. Ég samþykki það ekki að það sé óaðskiljanlegur hluti af þjónustu símans að innheimta fyrir þessa þjónustu. Ég geri ekki athugasemdir við það að menn bjóði þessa þjónustu en ég geri athugasemdir við það að ríkisfyrirtæki í eigu okkar landsmanna allra sé að innheimta fyrir þessa þjónustu sem er í mörgum tilvikum klám og einnig hafa komið upp raddir um að stundað sé vændi í gegnum Símatorgið þó maður geti náttúrlega ekki staðhæft það eða sannað. Það er því fullkomlega óeðlilegt að innheimtumenn Pósts og síma gangi um með harðar aðgerðir og gangi að fólki fyrir að hafa notfært sér þessa vafasömu þjónustu og ég tel það ekki vera hlutverk ríkisfyrirtækis að standa í slíkum innheimtuaðgerðum. Þeir ættu að sinna öðrum verkefnum.

Ég vona að hæstv. samgrh. taki á þessu máli og sjái til þess að menn sem vilja kaupa sér þessa þjónustu greiði fyrir hana með sínum greiðslukortum ef því er að skipta. Það er eðlilegur máti. Ég mun koma inn á þetta mál sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á varðandi skuldir þeirra sem hafa lent í að sími þeirra hefur verið misnotaður á þennan hátt í næstu fyrirspurn því ég er með aðra fyrirspurn hér á eftir um aðgang að Símatorginu og takmörkun hans.