Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:20:55 (685)

1996-10-31 11:20:55# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram af tilefni orða hv. þm. að það er enginn ágreiningur í ríkisstjórninni að því er varðar aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu. Ríkisstjórnin styður aðild þessara ríkja að bandalaginu. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þau ríki sem hafa sótt um aðild eru misjafnlega í stakk búin á þessari stundu að fá aðild. Og það liggur nokkuð ljóst fyrir að ekki munu öll þau ríki sem hafa sótt um aðildina koma inn í sama vetfangi. Endanleg ákvörðun um þetta mál verður væntanlega ekki tekin fyrr en á leiðtogafundi NATO sem gæti orðið síðsumars á næsta ári. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ræða þessi mál á Alþingi. Með hvaða hætti það verður nákvæmlega gert er rétt að ræða í utanrmn. þingsins og ég tel nauðsynlegt að ræða stöðu þessara mála fyrst þar áður en frekari umræða fer fram á Alþingi. En það er rétt að þegar kemur að staðfestingu á stækkun NATO þá eru það þjóðþingin sem þar ráða og Íslendingar hafa þar neitunarvald. En það er vandmeðfarið að beita neitunarvaldi. Það er mikilvægt að við veitum Eystrasaltsþjóðunum það liðsinni sem við getum og það hefur mikið verið rætt um það á vettvangi Norðurlandasamstarfsins. Málið hefur verið á dagskrá utanríkisráðherra Norðurlandanna á mörgum fundum og það eru fyrirhugaðir fleiri fundir um það hvernig við getum best stuðlað að auknu öryggi Eystrasaltsríkjanna. Málið er því vissulega á dagskrá og það er fullur stuðningur við það af hálfu ríkisstjórnarinnar en við verðum að sjálfsögðu í þessu máli eins og öðrum að sýna fullt raunsæi.