Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:23:08 (686)

1996-10-31 11:23:08# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa skýra yfirlýsingu um að þetta mál verður fært hingað inn í þingið. Ég er honum sammála um að það er rétt að hefja þá umræðu á vettvangi utanrmn. þingsins áður en kemur beinlínis til kasta þingheims alls. Mér þykir líka vænt um þann afdráttarlausa stuðning sem kemur fram gagnvart þjóðum Eystrasaltsins í þessum efnum.

Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta, herra forseti, að það hefur orðið afstöðubreyting á afstöðu hægri manna vegna þess að hér áttum við umræðu, ég og hv. þm. Geir Hilmar Haarde, í fyrra þar sem hann tók ekki undir málflutning minn og Sjálfstfl. gerði það ekki varðandi inngöngu Eystrasaltsþjóðanna í NATO. Hins vegar er það svo að upphefðin kemur stundum að utan. Nú hafa hægri menn í Norðurlandaráði samþykkt að það eigi að hvetja til inngöngu Eystrasaltsþjóðanna, ekki bara í NATO heldur líka í Evrópusambandið. Hv. þm. Geir Hilmar Haarde sagði í umræðunni í fyrra við mig: Það á ekki að blanda þessum málum saman. Nú hefur hann sjálfur staðið fyrir blöndun á staðnum á vettvangi Norðurlandaráðs og vill koma þeim ekki bara inn í NATO heldur líka Evrópusambandið. Herra forseti, ég vildi gjarnan vera fluga á vegg þegar hv. þm. útskýrir fyrir hæstv. forsrh. rökin fyrir því að það sé nauðsynlegt fyrir evrópskar smáþjóðir að ganga í Evrópusambandið.