Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:40:06 (688)

1996-10-31 11:40:06# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þykir margt merkilegt í þeirri ræðu sem ég hef hér flutt og er ánægjulegt til þess að vita að hún er til þess fallin að vekja umræður. Það er alveg rétt hjá honum að ég tel þýðingu Atlantshafsbandalagsins vera afar mikla, bæði fyrir Ísland og alla framþróun Evrópu almennt. En það sem mér finnst hins vegar merkilegt er að það virðist engin breyting vera í afstöðu þingmannsins eða Alþb. þrátt fyrir þær gífurlegu breytingar sem þarna eiga sér stað. Það er rétt.

Ég er afar ánægður með það sem er að gerast innan Atlantshafsbandalagsins og þá þróun sem þar á sér stað. Ég er ekkert einn um það. Það eru öll ríki Austur-Evrópu. Rússar hafa vissar áhyggjur af þróuninni í Atlantshafsbandalaginu en fylgjast þó þar með af áhuga og það liggur alveg ljóst fyrir þó að það sé rétt að afstaða Bandaríkjamanna í sambandi við frið á Balkanskaganum hafi skipt mjög miklu máli og reyndar skipt sköpun, þá hefði sá friður aldrei komist á án Atlantshafsbandalagsins. Ég fullyrði það að sú þróun sem nú á sér stað í Austur-Evrópu hefði aldrei farið af stað án Atlantshafsbandalagsins. Þetta eru staðreyndir málsins sem Eystrasaltsríkin m.a. halda fram og öll Austur-Evrópa. Sem betur fer er ekki sá sem ber ábyrgð á utanríkismálum fyrir hönd Íslands um þessar mundir í þeirri ríkisstjórn sem nú situr einn um þessar skoðanir.

Það er ýmislegt fleira sem ég vildi koma inn á, og þá sérstaklega Scengen. Ég fæ kannski að gera það í síðara svari mínu.