Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 13:32:08 (702)

1996-10-31 13:32:08# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[13:32]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Í morgun kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að norræn samvinna væri einn af grundvallarþáttum í íslenskum utanríkismálum. Norræn samvinna hefur verið afar mikilvæg bæði í alþjóðasamstarfi sem og hér innan lands og þá sérstaklega í mennta-, menningar- og félagsmálum. Það kom einnig fram í morgun að hugsanlega væri norrænt samstarf að veikjast. Þetta kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég er ekki alveg sammála því. Það er alla vega ekki hægt að kveða svo skýrt að enn sem komið er. En ég hef haft vissar áhyggjur af því hvernig skipulagsbreytingarnar hafa komið út gagnvart norrænu samstarfi. Það má segja að núna sé að ganga yfir ákveðið breytingaskeið í því samstarfi vegna nýrra starfshátta og of snemmt að skera úr um hvernig þau mál þróast. Hins vegar er ljóst að það er afar mikilvægt fyrir okkur að standa vel að Norðurlandasamstarfinu vegna þess hve norrænt samstarf er okkur mikilvægt.

Mig langar að gera að umræðuefni hér nýjan flöt sem hefur þróast á norrænum vettvangi eða í hinu norræna samstarfi, en það er sá flötur sem kemur upp þegar við horfum til þess að þrjú norræn ríki eru nú orðin aðilar að Evrópusambandinu. Með náinni samvinnu við þau norrænu ríki sem eru í Evrópusambandinu getum við Íslendingar komið okkar sjónarmiðum varðandi þróun Evrópusambandsins á framfæri. Norræn samvinna er því mjög mikilvæg, ekki bara ef horft er til Norðurlandanna heldur einnig þegar Evrópusambandið er haft í huga vegna þess að Finnland, Svíþjóð og Danmörk eru þar inni. Sumir álíta að vænlegt sé að loka sendiráðum á Norðurlöndunum. Þannig mætti spara einhverjar fjárhæðir. Að mínu viti væri slíkt mjög misráðið. Nær væri að styrkja sendiráð í þeim norrænu löndum sem eru aðilar að Evrópusambandinu. Þannig gætum við fylgst betur með þróun mála í sambandinu og haft einhver áhrif. Í stað þess að draga saman í utanríkisþjónustu okkar á Norðurlöndunum, velti ég þeirri spurningu upp hvort ekki væri nær að skoða það að opna sendiráð í Finnlandi. Finnar eru í Evrópusambandinu sem og á jaðri EES-svæðisins eins og við Íslendingar. Þeir eru á jaðarsvæði. Þeir eru ekki í beinni samkeppni við okkur í sjávarútvegsmálum eins og fjölmargar aðrar Evrópuþjóðir og gætu því verið vænlegur samstarfsaðili fyrir okkur. Finnar eru einnig mjög tengdir Eystrasaltsríkjunum en þar eru miklir og mikilvægir markaðir að opnast sem við verðum að keppa á eins og aðrir. Það er því margt sem mælir frekar með því að styrkja sambönd okkar á Norðurlöndunum í stað þess að draga úr þeim.

Einnig er að sjálfsögðu rétt að hlúa tímabundið að utanríkisþjónustu okkar í því landi sem á hverjum tíma fer með formennsku í Evrópusambandinu.

Herra forseti. Utanríkismál hafa oft valdið ágreiningi hér innan lands sem erlendis. Eitt slíkt dæmi er aðild okkar að NATO sem skipti þjóðinni um tíma í tvær andstæðar fylkingar. Í dag er það mál ekki hitamál eins og áður fyrr og flestir sammála um það að aðild að NATO sé hornsteinn í varnarstefnu okkar Íslendinga.

Aðild að EES-samningnum, sem í dag er milli Íslands, Noregs og Liechtensteins annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar, var annað hitamál í íslenskri utanríkispólitík. Það skipti einnig þjóðinni í andstæðar fylkingar og vil ég gera Evrópumálin hér að aðalumræðuefni þar sem ég tel mjög eðlilegt að við Íslendingar ræðum þau, sérstaklega í ljósi þess hve mikið er að gerast í Evrópu, í okkar nágrannalöndum.

Með aðild okkar Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu urðum við hluti af innri markaði Evrópusambandsins. Til að innri markaðurinn geti þróast verða ríki EES að taka við tilskipunum frá ESB um fjölmörg mál. Reglur verða að vera sambærilegar eða eins milli landa. Þetta þekkjum við þingmenn afar vel vegna þess hvernig okkar störfum er fyrir komið hér gagnvart tilskipunum Evrópusambandsins. Með samstarfi í svokallaðri þingmannanefnd EES geta EES-ríkin haft áhrif á hvernig tilskipanir Evrópusambandsins verða teknar upp á svæðinu. Áhrifin eru þó mjög takmörkuð. EES-ríki getur neitað að taka við tilskipun frá Evrópusambandinu, en slíkt hefur enn sem komið er ekki komið fyrir. Ef eitthvert EES-ríkja tæki upp á því að hafna alfarið tilskipun Evrópusambandsins, þá mundi viðkomandi tilskipun ekki ganga í gildi á hinum EES-löndunum. Enginn veit nákvæmlega hvaða afleiðingar það mundi hafa í för með sér að neita að taka við tilskipunum ESB, EES-samningurinn væri þá í uppnámi. Talsverð umræða hefur átt sér stað í Noregi einmitt um þetta mál og þessa stöðu og þá aðallega vegna tilskipana um aukefni í matvæli.

Það má segja að framkvæmd EES-samningsins hafi gengið almennt vel fyrir sig. Sárafáir eru þess fylgjandi í dag að Ísland segi honum upp og slíti sig frá samstarfi við Evrópusambandið. Á sínum tíma voru miklar deilur hér innan lands um hvort Ísland ætti að gerast aðili að EES eða ekki. Andstæðingar samningsins töldu að með honum yrði stórfelld hætta á því að útlendingar þyrptust hingað til lands, tækju vinnu af Íslendingum, keyptu upp hlunnindajarðir o.s.frv. Þrátt fyrir að við gerðumst aðilar hefur þróunin alls ekki verið með framangreindum hætti.

Kostirnir við að vera aðili að EES eru aðallega þeir að þannig erum við hluti af innri markaði ESB og þróun hér verður í takt við þróun í nágrannaríkjum okkar. Það að sjávarútvegsmál eru ekki hluti af EES-samningnum er lykilatriði fyrir okkur Íslendinga. Við erum ekki aðilar að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og það er almennt viðurkennt að hún, hin sameiginlega sjávarútvegsstefna, sé óásættanleg fyrir okkur, einnig það hve Evrópusambandið er í raun ólýðræðislega uppbyggt og óskiljanlegt fyrir borgarana.

Við núverandi aðstæður eru yfirgnæfandi líkur á því að Íslendingar yrðu að gangast undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu við inngöngu. Við mundum ekki fá neina undanþágu. Stefna sambandsins í sjávarútvegsmálum útheimtir það að við yrðum að deila fiskimiðunum okkar með öðrum Evrópusambandsþjóðum. Þó má segja að það sé líklegt að við fengjum svo til allan kvótann í okkar lögsögu vegna sögulegrar veiðireynslu. Evrópusambandið mundi ákveða aflakvótana hér á landi og slík ákvörðun mundi trúlega taka mið af vísindalegri ráðgjöf eins og við Íslendingar höfum reyndar verið að gera hin seinni ár. Það má því segja að breytingin yrði í raun ekki svo ýkjamikil nema að því leyti að við réðum því ekki sjálf hver kvótinn yrði heldur Evrópusambandið. Slíkt fyrirkomulag er ekki æskilegt fyrir þjóð sem er jafnháð fiskimiðum og við Íslendingar. Það er okkur nauðsynlegt sem þjóð að hafa yfirráð yfir grundvallarafkomunni. Vegna þess hve við erum háð fiskveiðum þyrfti það að vera eftir einhverju meiri háttar að slægjast fyrir þjóðina til að réttlæta inngöngu í Evrópusambandið með því að taka þá áhættu að missa yfirráð yfir okkar lögsögu. Það verður að segjast eins og er að við núverandi ástæður er ekki neitt sem er svo mikilvægt innan sambandsins að það sé réttlætanlegt fyrir okkur að taka slíka áhættu.

Að vísu er rétt að benda á að það getur líka verið áhætta fólgin í því að vera utan Evrópusambandsins. Aðstæður gætu breyst þannig að sambandið segði upp tollasamningum við okkur og hækkaði tolla á fiski eða ákvæði að minnka það fiskmagn sem þeir kaupa. Þá værum við í slæmum málum en slík þróun er þó ósennileg.

Margoft hefur komið fram að það sé mjög ólíklegt að við fáum undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, en samt hafa komið fram þær raddir að við ættum að drífa okkur inn í sambandið til þess að geta haft áhrif á endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem á að ljúka fyrir árið 2003. Við mundum geta haft áhrif á hana til góðs þannig að hún mundi henta okkur betur. Án okkar aðstoðar mundu fiskveiðiþjóðir eins og Spánverjar einar sjá um endurskoðunina. Um þetta er það að segja að þótt við gengjum inn á forsendum Evrópusambandsins nú er mjög ólíklegt að við mundum hafa þrátt fyrir það veruleg áhrif á endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Mér er minnisstætt í sumar þegar ég var á ferð úti í Brussel og átti þar viðræður við aðila um sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins að það var mat nokkurra sem ég talaði við að við mundum ekki geta haft mikil áhrif á endurskoðun slíkrar stefnu. Það var sagt: Þið yrðuð eins og fluga á hundsskotti, áhrifin yrðu afar lítil.

Það tæki okkur líka nokkurn tíma að komast vel inn í stofnana- og stjórnmálakerfi Evrópusambandsins að því viðbættu að við erum lítil eða öllu heldur fámenn þjóð, en þær hafa minna vægi en stærri þjóðir. Það er því ekki forsvaranlegt að mínu mati að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að hafa áhrif á sjávarútvegsstefnuna þar sem mjög ólíklegt er að við gætum það.

Gallinn við EES-samninginn er að flestra mati sá að við tökum við tilskipunum Evrópusambandsins án þess að geta haft áhrif á aðdraganda þeirra. Í þessu sambandi skal minnt á það að við höfum ekki hingað til hafnað neinni tilskipun Evrópusambandsins.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að núverandi stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum gagnvart Evrópusambandinu er skynsamleg. Það er rétt að hafa sem nánust samskipti við Evrópusambandið án þess þó að ganga í það. Einnig er rétt að við verðum að fylgjast náið með hvernig endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar í Evrópusambandinu gengur fyrir sig. Nú stendur yfir ríkjaráðstefna Evrópusambandsins og þar höfum við talsverðra hagsmuna að gæta. Ég vil minnast hér á Vestur-Evrópusambandið en það eru að sjálfsögðu okkar hagsmunir að það haldi sjálfstæði sínu. Ríkjaráðstefnan á m.a. að gera sambandinu mögulegt að taka inn ný Austur- og Mið-Evrópuríki og það er að sjálfsögðu líka mikið hagsmunamál fyrir okkur af því að þau ríki verða þá aðilar að okkar markaði, innri markaði EES og ESB.

Það yrði mjög jákvætt ef niðurstaða ríkjaráðstefnunnar mundi leiða til þess að Evrópusambandið yrði lýðræðislegra og ákvarðanatakan innan þess yrði íbúunum skiljanlegri heldur en í dag. Hins vegar er það mitt mat að vænlegast sé að bíða og sjá hvernig ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins lyktar og hvernig mál innan sambandsins þróast í kjölfar hennar. Á þessari stundu er sú þróun mjög óljós. Ég tel því að það sé hárrétt að bíða og sjá og tek undir þau orð utanrrh. sem hann viðhafði um Evrópusambandið hér í morgun.