Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 13:44:43 (703)

1996-10-31 13:44:43# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[13:44]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það birtist leiðari í Alþýðublaðinu í gær og þó að félagi minn Steingrímur J. Sigfússon sé glöggur maður á öllum sviðum, þá hygg ég að honum hafi skotist að því er varðar höfund þeirrar greinar. Ég þóttist kenna fingraför hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar á þessum leiðara. Þar er talað um að mikil söguleg tíðindi séu fram undan í íslenskum stjórnmálum. Ég held að það sé útilokað annað en að taka undir það að merkileg tíðindi séu uppi og þau hafa komið fram í umræðunum í dag. Það sem er merkilegast við umræðurnar í dag er sá kafli í ræðu hæstv. utanrrh. sem fjallar um framtíðarþróun ESB og ríkjaráðstefnuna. Þar er allt gert sem hægt er til að fegra ESB, til að draga úr ótta manna við ESB, til að breyta afstöðu þjóðarinnar til ESB og sérstaklega til að breyta afstöðu framsóknarmanna til ESB, en Framsfl. gekk sem kunnugt er til kosninga við næstsíðustu kosningar undir kjörorðinu X-B en ekki EB. Nú á að breyta því. Nú er þetta greinilega allt önnur ella að mati núverandi formanns Framsfl. Og sú ræða sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti hér áðan var auðvitað einkar athyglisverð og köld kveðja til fyrrv. formanns Framsfl. sem nú hefur eins og kunnugt er aðsetur utan í Arnarhólnum í stofnun sem heitir Seðlabankinn. Þetta er merkilegt, hæstv. forseti.

Hvað er það í ræðu hæstv. utanrrh. sem ástæða er til að líta á sérstaklega? Það er í fyrsta lagi að hann leggur á það áherslu að nú kveði við annan tón að því er varðar framtíðarþróun Evrópusambandsins. Nú séu menn ekki lengur að tala um að þetta verði ofurríki, Bandaríki Evrópu, heldur verði hér um að ræða ríkjabandalag. Þessi ofurríkishugsun var mjög ofarlega af hálfu framsóknarmanna í umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma. Nú er formaður Framsfl. að segja við framsóknarmennina sína: Verið þið róleg, þetta er búið, þetta er ekki hættulegt lengur, þetta er liðin tíð. Að þessu leytinu til hefur Evrópusambandið batnað.

Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra, og leggur á það áherslu, að það hafi fengist mjög greinargóðar upplýsingar frá Evrópusambandinu og gengið til EES. Þar segir að meira að segja hafi ESB fallist á þá ósk EFTA-ríkjanna að fá öll gögn, eins og það er nefnt á bls. 3 í skýrslu hæstv. utanrrh., frá ráðstefnunni eftir að fulltrúar aðildarríkjanna hafa rætt efni þeirra á fundum sínum. Það er með öðrum orðum verið að segja: Já, við fáum öll gögn. Mínir kæru landsmenn og mínir sérstaklega kæru framsóknarmenn, það er ekkert að óttast í þessum efnum. Það verður engu haldið leyndu fyrir ykkur. Við fáum öll gögn, náðarsamlegast frá Brussel.

Í þriðja lagi, sem er í rauninni athyglisverðast, er það sem hæstv. utanrrh. segir og gefur í skyn að í undirbúningi séu breytingar á sjávarútvegsstefnunni. Hann segir: Þar eru menn einnig að velta hlutunum fyrir sér og þar með er búið að gera Evrópusambandið þannig í augum þeirra sem taka mark á formanni Framsfl., sem eru margir eins og eðlilegt er, að það sé allt í besta lagi með það. Það er ekki sama ástæða til að hafa áhyggjur af því og áður. Þessi tími er breyttur og auðvitað fagna þeir þessu, hv. þm. Alþfl., vegna þess að þeir voru sannarlega búnir að mála sig út í horn í þessum Evrópusambandsmálum. Þeir voru búnir að mála sig svoleiðis út í horn að fyrir nokkrum dögum eða vikum sögðu talsmenn Alþfl.: Sameinum jafnaðarmenn í landinu endilega og gleymum Evrópusambandinu. Þeir vissu að þeir komust ekkert áfram með þetta mál. En allt í einu gerist það að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. réttir þeim spottann og þeir grípa hann og segja: Hér er að verða til nýtt bandalag á miðjunni í íslenskum stjórnmálum með þeim hætti að Alþfl. og Framsfl. nái saman að því er varðar þessi Evrópusambandsmál. Nú er það sem sagt ekki bara það að framsóknarformaðurinn hafi sagt að það megi kannski taka upp veiðileyfagjald um miðja næstu öld ef svo ólíklega fari að sjávarútvegurinn græði þá mjög mikið, og þar með er hann orðinn hjartaprins Morgunblaðsins á eftir hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni sem er að yfirgefa sviðið eins og kunnugt er, heldur eru það líka Evrópusambandsmálin. Og hvað þýðir þetta, hæstv. forseti? Þetta þýðir að Evrópusambandsmálin eru komin á dagskrá í íslenskum stjórnmálum. Það var alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að á meðan kratarnir voru einir með þetta mál, þá var málið ekki á dagskrá nema sem akademískt umræðuefni. En þegar hæstv. utanrrh. tekur undir málið eins og hann gerir í dag þá er Evrópusambandsmálið komið á dagskrá í íslenskum stjórnmálum og þá er nauðsynlegt fyrir þá sem vilja skoða það mál, bæði með og móti eins og gengur, að fara að tygja sig til vegferðar og pólitískrar baráttu. Það er rétt sem leiðari Alþýðublaðsins segir í gær, og greinilega er skrifaður af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að hér eru tvímælalaust ákveðin kaflaskil uppi.

Þetta segir okkur líka það, hæstv. forseti, og það gerist alltaf með Framsókn á miðju kjörtímabili, að Framsfl. reynir alltaf að leita sér að bandamanni í öðrum flokki en þeim sem eru með honum í ríkisstjórn, til öryggis ef svo færi að Framsókn gæti ekki verið með íhaldinu eftir næstu kosningar. Bandamaðurinn sem nú á að finna er Alþfl. Það er alveg augljóst mál. Það er verið að segja við Sjálfstfl.: Þið skuluð ekki vera allt of vond við okkur því að við getum bara treyst á kratana næst. Þetta er venjan hjá Framsókn. Þegar hún er í hægri stjórn þá hallar hún sér yfirleitt á þennan veg þegar komið er fram á mitt kjörtímabil. Þegar Framsókn er í vinstri stjórn þá hallar hún sér yfirleitt til hægri þegar komið er fram á mitt kjörtímabil. Þetta er eðli Framsóknar og að mörgu leyti styrkur hennar, en um leið auðvitað pólitískur veikleiki og sýnir ístöðuleysi hennar. En Framsókn er eins og kunnugt er ævinlega meðaltal af umhverfinu, ræður engum úrslitum og tekur meðaltal af því sem er í kringum hana. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hann er sérfræðingur í Framsfl.) Hv. þm. sem hér stendur er prýðilega vel að sér í Framsfl., enda var hann í honum einu sinni en þá á mjög ungum aldri.

Þetta vildi ég draga hér fram, hæstv. forseti. Það er bersýnilegt að þetta er að gerast. Og á sama tíma hefur forusta Alþfl. loksins uppgötvað það, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, eftir langan feril sem formaður Alþfl., þegar hann er að hætta, að því er best verður séð, eru menn að bjóða sig fram í hrönnum til að verða eftirmenn hans. Ég frétti af því í dag að það standi til eitthvað af slíku. En loksins þegar hann er að hætta áttar hann sig á því að Sjálfstfl. er ekki náttúrulegur bandamaður Alþfl. Það er vissulega tími til kominn, nokkuð seint að vísu, því að 1987 tók hv. þm. Sjálfstfl. fram yfir vinstri flokkana. Það gerði hann 1991 og það gerði hann 1995. Með öðrum orðum: Alla sína formannstíð hefur hann ævinlega tekið Sjálfstfl. fram yfir vinstra samstarf ef hann hefur átt kost á því. Í raun og veru hefur hann ævinlega gert það vegna þess að hann vildi frekar halda áfram með íhaldinu en að mynda vinstri stjórn. Það hefur ævinlega verið svo.

Núna allt í einu um það bil sem hann er að hætta, þá lítur hann yfir farinn veg með brotinn skjöld og segir: Þetta var allt vitlaust hjá mér. Hinn náttúrulegi bandamaður minn (Gripið fram í.) er Halldór Ásgrímsson, hv. formaður Framsfl. Ja, ég geri ráð fyrir að þeir framsóknarmenn segi: Betra seint en aldrei. (ÖS: Er þetta afbrýðissemi?) Betra seint en aldrei. En þetta er ákaflega athyglisverð niðurstaða í þeirri stöðu sem nú er uppi í íslenskum stjórnmálum þegar annar leiðtogi Alþfl. í fjölmennasta kjördæmi landsins segir aftur á móti í ræðu sinni hér í dag að hann líti á alþýðubandalagsmenn sem vænlegustu bandamennina að því er varðar framkvæmd jafnaðarstefnunnar. Það er fróðlegt og það er til umhugsunar. Það er í rauninni allt annað en það sem hv. þm. er að segja þegar hann lítur yfir farinn veg og eftir samskipti hans við íhaldið núna eiginlega allan hans tíma af því að hann leit á sig alltaf sem viðreisnarkrata. Nú er hann allt í einu farinn að líta á sig sem framsóknarkrata. Það er það nýja að því er mér skilst á leiðara hans í Alþýðublaðinu í gær og á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. (ÖS: Þetta var mjög skáldlegt ...) Og auk þess er hv. þm. Össur Skarphéðinsson erfðagóss, en það hefur margur látið eftir sig minna erfðagóss en hann, verð ég að segja, þrátt fyrir allt.

Þetta er í sjálfu sér, hæstv. forseti, nokkurt umhugsunarefni, á þeim tímum þegar við ættum að vera að ræða um utanríkismál með allt öðrum hætti heldur en að sumu leyti hefur verið gert í dag að mínu mati. Ég tel að sú umræða sem fór fram, ég hygg að að hafi verið í fyrra eða hittiðfyrra og hv. 15. þm. Reykv. vitnaði aðeins til, hafi kannski verið vísir að því að við ættum að skoða það að Alþingi taki nokkra forustu í þessum málum, utanríkismálum, vegna þess að vissulega er það rétt að þarna stöndum við frammi fyrir kaflaskilum, nýjum tímum á þessu sviði. Auðvitað drögum við misjafnar ályktanir af þessum nýju tímum og aðstæðum sem uppi eru, en ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að utanríkismálin klufu þjóðina í pólitískri afstöðu um áratuga skeið og það er kostur á því að ná nýrri samstöðu um stefnu í utanríkismálum ef menn leggja í það vinnu hér í þessari stofnun. Og mér fannst það merkilegt sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv., formanni utanrmn., þegar hann ræddi það mjög opið hér áðan að utanrmn. tæki á tilteknum þætti utanríkismálanna, þ.e. spurningunni um Atlantshafsbandalagið og stækkun þess til austurs og stöðu þess almennt í hinum stóra heimi. Ég tel að þetta séu nákvæmlega rétt viðbrögð hjá hv. formanni utanrmn. andspænis því vandamáli sem hér er uppi sem bersýnilegt er að stjórnarflokkarnir hafa dálítið mismunandi áherslur í og þá verð ég að segja það fyrir mitt leyti að ég tek heldur undir með þeim sem vilja fara varlega en hinum sem vilja ganga of hratt fram í þessu efni.

Ég hefði viljað fá umræðu í þessari stofnun t.d. um Norðurlöndin og Norðurlandaráð. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi það áðan og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég hef áhyggjur af þróun mála á vettvangi Norðurlandaráðs. Mér finnst Norðurlandasamstarfið orðið veikt og ég held að við eigum að horfast í augu við að það er það og reyna að gera eitthvað til að laga það. Mér finnst skipulagsbreytingin í Norðurlandaráði ekki hafa breytt mjög miklu eða ekki bætt mjög mikið.

Í öðru lagi tel ég að við ættum að ræða stöðu okkar gagnvart heimskautssamstarfinu, vestnorræna samstarfinu. Við eigum að ræða betur um stöðu okkar gagnvart Stofnun um öryggi og samvinnu í Evrópu. Við eigum að ræða um Atlantshafsbandalagið mjög rækilega. Við eigum að ræða um það hvernig er best að leggja Atlantshafsbandalagið í núverandi mynd niður og kannski getur það runnið í endurnýjun lífdaganna og tekið að sér mikilvæg verkefni til þess að treysta frið og öryggi í heiminum á heimsvísu eins og við alþýðubandalagsmenn höfum jafnan lagt mikla áherslu á. Við eigum að ræða um Evrópusambandið. Við eigum að ræða um utanríkisþjónustuna. Þjónar það hagsmunum Íslendinga að vera með eina sjö eða átta sendiherra hér á Íslandi en tólf erlendis? Mér skilst að hæstv. utanrrh. hafi verið að skipa 18., 19. eða 20. sendiherrann í gær. Við þurfum að fara yfir þessa hluti. Þarf það endilega að vera þannig að utanríkisþjónustan sé nákvæmlega eins alltaf um aldur og ævi? Er hugsanlegt að breyta henni með mjög róttækum hætti? Þora menn t.d. að hugsa þá hugsun til enda að það verði t.d. eitt sendiráð á Norðurlöndum eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi fyrir allmörgum árum og kannski færri sendiráð í Evrópu en fleiri annars staðar? Þora menn að hugsa þessa hugsun og vinna hana? Ég er alveg sannfærður um að þó að það kunni að vera og sé vafalaust góður vilji í utanrrn. til að taka á þessum málum, þá leysast þau aldrei, endurnýjun í utanríkisþjónustunni sjálfri verður aldrei öðruvísi en að Alþingi taki á þessu máli og skapi heildstætt bakland fyrir róttækar ákvarðanir. Það gengur aldrei öðruvísi. Ég skora á hæstv. utanrrh. að beita sér með þeim hætti.