Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:10:14 (705)

1996-10-31 14:10:14# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:10]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni áðan gafst ekki tími til að fjalla í nema um eitt mál, samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og þá þróun sem fram undan er varðandi opnun bandalagsins til austurs og hvað unnt er að gera hvað varðar annars vegar opnun Atlantshafsbandalagsins og samrunaferilinn í Evrópu til að treysta öryggi í álfunni og tryggja þar með líka að vinaþjóðir okkar við Eystrasalt verði ekki útundan í þeirri þróun og að niðurstaðan verði sú að öryggi þeirra verði betur tryggt en á horfist. Það er óhjákvæmilegt þegar þessi mál eru rædd, í tilefni af skýrslu eða ræðu utanrrh., að fara nokkrum orðum um annað meginmál þ.e. Ísland í Evrópu. Það er athyglisvert að í ræðu utanrrh. eru þeim málum gerð nokkur skil, einkum í kaflanum sem fjallar um framtíðarþróun Evrópusambandsins og ríkjaráðstefnuna. Þar er vakin athygli á ýmsum tillögum sem uppi eru og munu breyta bandalaginu bæði varðandi innra starf sem og að bandalagið er og verður að mati hæstv. utanrrh. bandalag þjóðríkja en ekki bandaríki eða sambandsríki.

Það er vakin athygli á tillögum sem Bretar hafa sett fram um breytingar á sjávarútvegsstefnunni og áður hefur hæstv. utanrrh. vakið athygli á peningamálastefnunni, þeirri þróun sem nú liggur fyrir að verður, þ.e. sameiginlegum gjaldmiðli, seðlabanka og samræmdri peningamálastefnu. Hæstv. utanrrh. er með öðrum orðum að gera grein fyrir því að Evrópusambandið er í örri þróun bæði inn á við og út á við og að þróun mála þar kann að hafa úrslitaáhrif á íslenska þjóðarhagsmuni. Að því leyti er óhætt að segja að kveði við allt annan tón í umfjöllun hæstv. utanrrh. um Evrópumálin en við heyrum þá sjaldan hæstv. forsrh. lætur þessi mál til sín taka vegna þess að þá eru málin gjarnan afgreidd með fljótaskrift og orðfæri sem satt að segja er sjaldgæft að sé beitt í umræðu um stórmál samtímans.

Nefnum eitt mál til sögunnar, sameiginlegan gjaldmiðil og peningamálaþróunina. Því sem næst öll ríki, lýðræðisríki Evrópu sem ekki eru þegar orðin aðilar að Evrópusambandinu, leita eftir inngöngu fyrir utan Ísland og Noreg að sjálfsögðu, sem hefur þegar tekið afstöðu til málsins og fellt það. Í allri þessari umræðu er orðið ljóst að efasemdaraddir um að staðið verði við sameiginlegan gjaldmiðil eða að þessu verði slegið á frest eru þagnaðar. Menn gefa sér að af þessu verði. Það er t.d. athyglisvert að í umræðu meðal jafnaðarmannaflokkanna í Evrópu hafa menn tekið eindregna og afdráttarlausa afstöðu með með því að halda fast við þá mælikvarða sem Maastricht-sáttmálinn leggur á frammistöðu ríkja í ríkisfjármálum og á jákvæð áhrif peningamálastefnunnar og sameiginlegs gjaldmiðils í heild að því er varðar efnahagsstefnu, stöðugleika og tækifæri til þess að reyna að vinna gegn atvinnuleysi. Í nýlegum gögnum er t.d. vakin á því athygli af hálfu verklýðshreyfingarinnar í Vestur-Evrópu að hún styðji hvort tveggja, þessa aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum og peningamálasamruna og vekur athygli á því að samræmd peningamálastefna og einn gjaldmiðill þýði að þjóðríkin þurfi ekki lengur að kosta jafnmiklu til til þess að verja gengisstefnu sína og sjálfstæðan gjaldmiðil eins og hingað til hefur gerst. Vonir standi til að með sameiginlegri peningamálastefnu takist að lækka enn frekar vaxtastigið í álfunni sem muni hvetja til aukinnar fjárfestingar og atvinnusköpunar. Samræmdur gjaldmiðill muni tryggja stóraukið öryggi á peningamörkuðum, ekki aðeins losa menn við allan þann fylgikostnað sem hingað til hefur fylgt gjaldeyrisbreytingum heldur einnig skerða mjög tækifæri spekúlanta á gjaldeyrismörkuðum til að vinna gegn stöðugleika á grundvelli gjaldmiðla þjóðríkja og að sameiginlegur gjaldeyrisforði innan Evrópusambandsins muni styrkja stórlega svæðið í heild sinni.

[14:15]

Með öðrum orðum er verið að halda því fram að aðdragandinn að sameiginlegri peningastefnu, aðhaldssemi í ríkisfjármálum, muni síðan leiða til aukins stöðugleika og lægri vaxta, öflugri stjórntækja til að vinna gegn atvinnuleysi. Það er niðurstaða af hálfu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar í þessum löndum. Þá er ég að vitna til sambands verkalýðsfélaga í Vestur-Evrópu og ég er að vitna til sambands verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum sem komist hafa að þessum niðurstöðum.

Hvað er að segja um Ísland í þessu efni? Við búum þegar við u.þ.b. 3% vaxtamun. Hver verður geta okkar með svo veigalítinn þjóðríkisgjaldmiðil byggðan á stöðu fiskmarkaða þegar við lítum fram í tímann? Verður þessi vaxtamunur enn þá meiri? Hvað um stöðugleikann? Hæstv. utanrrh. hefur einfaldlega vakið athygli á því að þetta er stórmál sem við verðum að leggja vinnu í að rannsaka, þ.e. hvaða áhrif það hafi til lengdar, bæði jákvætt og neikvætt. Annars vegar er að vega og meta stöðugleikaáhrifin og styrkleikann en hins vegar að við mundum afsala okkur því vopni að geta beitt gengisfellingum til þess að tryggja rekstrargrundvöll sveiflukenndra atvinnuvega sem byggja á ástandi fiskstofna og verðlagi á erlendum mörkuðum. Hvort vegur meira, trú okkar á að festa í sessi stöðugleikann eða ótti okkar við að falla aftur í gamla far hins sveiflukennda verstöðvahagkerfis? Það eina sem hægt er um þetta að segja er þetta: Sú stefna sem hæstv. forsrh. hefur gerst talsmaður fyrir, þ.e. að þetta komi okkur ekki við, að Evrópumál séu ekki á dagskrá og að það séu fjarstæðukenndar kröfur að ætlast til þess af núverandi ríkisstjórn að hún vinni heimavinnuna sína, að hún beiti stjórnkerfinu til þess að rannsaka kosti og galla aðildar og líka þess að standa fyrir utan, þetta sjónarmið, þessi málflutningur er svo sannarlega sá eini málflutningur um Evrópusambandsmál sem ekki er haldbær, sem ekki verða færð rök fyrir, sem ekki stenst og sem er raunverulega ekki í samræmi við íslenska þjóðarhagsmuni.

Ég vek athygli á því að fyrir kosningar deildu menn um hvort ríkjaráðstefnunni yrði lokið á yfirstandandi kjörtímabili. Hæstv. forsrh. hélt því gjarnan fram að svo yrði ekki. Það mundi ekkert reyna á þessi mál fyrr en eftir árið 1999. Nú vitum við betur. Ríkjaráðstefnan byrjaði á tilsettum tíma. Það er enginn sem vefengir að henni mun ljúka innan skamms. Sex mánuðum eftir það munu hefjast samningar við ríkin sem fremst standa í biðröðinni og í framhaldi af því við önnur ríki Mið- og Austur-Evrópu. Þetta mál er því að sjálfsögðu til ákvörðunar á þessu kjörtímabili og það sem sagt var við íslenska kjósendur um að svo væri ekki er rangt.

Ágreiningurinn á þessu stigi málsins er fyrst og fremst bara um eitt: Ætla íslensk stjórnvöld að taka alvarlega þá skyldu sína að leggja af stað með þessa vinnu, þessa rannsókn á kostum og göllum eða ætla þau að halda áfram að láta eins og þetta mikilvæga mál komi sér ekki við og sýna þannig með öllu af sér óábyrga hegðun?