Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:19:50 (706)

1996-10-31 14:19:50# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:19]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil bæta við mína fyrri ræðu nokkrum orðum í tengslum við norrænt samstarf. Það hefur verið lýst eftir því í umræðunni að menn tjái sig um þau mál og ýmsu hefur verið haldið fram í því sambandi sem ég er ósammála.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að skipulagsbreytingar í Norðurlandaráði á síðasta ári hefðu misheppnast. Ég tel að það sé allt of snemmt að kveða upp slíkan dóm yfir þeim breytingum sem þar voru gerðar. Það er ekki komin nein slík reynsla á þær breytingar að hægt sé að fullyrða að þær hafi verið mikil mistök eins og þingmaðurinn gerði. Skipulagsbreytingarnar voru afleiðingar þess að þrjú ríkjanna voru komin inn í Evrópusambandið og það var alveg nauðsynlegt að hugsa upp á nýtt viðfangsefni og skipulag ráðsins, hinnar norrænu samvinnu, á þeim grundvelli og í ljósi þessara breytinga. Það er grundvallarbreyting í þessu sambandi að mál eru nú tekin fyrir á pólitískari hátt en verið hefur. Hinir flokkspólitísku hópar í ráðinu hafa fengið mun meiri völd og áhrif til útnefninga í trúnaðarstöður en sömuleiðis til að fjalla um þær tillögur og þau málefni sem fyrir ráðið koma.

Þetta lýsir sér afskaplega vel t.d. í meðferð tillögu sem hér hefur verið margrædd í þessum umræðum og kemur frá okkur í hægri hópnum í Norðurlandaráði um stækkun NATO og öryggismál á Norðurlöndum og á nágrannasvæðunum, nærsvæðunum. Þessi tillaga fær auðvitað pólitíska meðferð í flokkahópunum. Það eru mér reyndar nokkur vonbrigði t.d. hvernig jafnaðarmenn hafa brugðist við henni, a.m.k. enn sem komið er. Hún hefur hins vegar ekki fengið endanlega umfjöllun og þó hún komi til umfjöllunar á þinginu nú eftir hálfan mánuð, er ekki ljóst hvort hún verður endanlega afgreidd þar eða ekki. Meiri líkur eru á því að mínum dómi að hún muni verða til áframhaldandi meðferðar. Þetta sem hér er verið að ræða um er gott dæmi um mál sem er auðvitað hápólitískt í eðli sínu, öryggismálin, öryggismál Norðurlandanna, stækkun NATO, hugsanleg aðild nýrra landa að NATO, hugsanleg aðild jafnvel Svíþjóðar og Finnlands að NATO. Þetta er hápólitískt mál. En það er til marks um hvernig ráðið hefur breyst að það skuli núna hafa þrek og getu til að takast á við slík mál. Vissulega má halda því fram að það sé ákveðið þroskamerki í samstarfi sem þessu þegar hægt er að taka fyrir slík mál en ekki bara einhver yfirborðskennd kurteisismál eða sjálfsagða hluti eins og ráðið hefur löngum verið gagnrýnt fyrir að gera.

Það er því að mínum dómi allt of snemmt að kveða upp þann úrskurð að skipulagsbreytingarnar í ráðinu í fyrra hafi mistekist og það er alveg ljóst að ráðsins bíða mörg og mikilvæg verkefni sem og norrænnar samvinnu á öðrum sviðum í tengslum við allar hinar norrænu stofnanir sem hafa haldið velli eftir að gerð var á þeim ítarleg hagkvæmnisrannsókn í fyrra. Þannig að ég tel þessu til viðbótar að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að það hefur tekist að stýra þessu samstarfi inn í þó þennan farveg í staðinn fyrir að þetta mundi allt kvoðna niður. Í ljósi þess að hin löndin eru gengin í Evrópusambandið og athygli þeirra og kraftar beinast nú í miklu meira mæli þangað heldur en áður er auðvitað nauðsynlegt að hafa á okkar norræna vettvangi farveg fyrir mikilvæg málefni. Það er nauðsynlegt að tryggja að þar sé ekki um tvöföldun að ræða fyrir hin ríkin og jafnframt að við höfum þar farveg og möguleika til að fylgjast með því sem fram fer á evrópskum vettvangi í gegnum okkar samstarf við þau lönd norræn sem þar eru aðilar.

Þessu langaði mig að koma hér á framfæri, virðulegi forseti. Ég hygg að það sé ekki mikill ágreiningur um mikilvægi hins norræna samstarfs á hinu háa Alþingi en vissulega skiptar skoðanir um ágæti þeirra breytinga sem gerðar hafa verið. Það er hins vegar líka þannig frá þeim gengið að ef skipulagið sem samþykkt var og nú hefur tekið gildi, breytt nefndaskipulag og fleira í þeim dúr, gengur ekki eins og menn hafa gert sér vonir um þá er núna mun umfangsminna að breyta aftur til. Það þarf ekki að gera sambærilegar breytingar á stjórnarskrá þessa samstarfs, þ.e. Helsinki-sáttmálanum, heldur er núna hægt að breyta vinnureglum ráðsins sjálfs sem gerir þetta allt miklu sveigjanlegra og þægilegra í vöfum og þar með auðveldara til að bregðast við nýjum og breyttum aðstæðum.