Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:36:13 (709)

1996-10-31 14:36:13# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:36]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á þeim sögulegu tíðindum að einn fremsti leiðtogi Alþfl. hefur lýst því yfir að hann líti á okkur alþýðubandalagsmenn sem jafnaðarmenn. Það eru mikil tíðindi. Yfirleitt höfum við verið taldir í besta falli einræðissósíalistar. Þegar var verið að krýna erfðaprinsinn fyrir flokksþing Alþfl., hv. þm. Sighvat Björgvinsson, þá var sagt: ,,Hann heldur á lofti hugmyndum lýðræðisjafnaðarstefnunnar`` sem var bersýnilega skot á einhvern sem gerir það þá ekki í forustu Alþfl., sem ég þekki ekki. Þannig að ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir vinsamleg ummæli í minn garð og minna vandamanna á þessum tímamótum. Ég tek því vel sem hann segir.

Ég vil líka segja varðandi utanríkismálin að það er alveg rétt að þar hefur mjög margt breyst í hinu almenna umhverfi utanríkismálanna. Það hafa mjög margir sagt í þessum ræðustól og það hef ég sagt hvað eftir annað á undanförnum. En mér hefur hins vegar fundist að talsmenn Framsfl. og Sjálfstfl. og yfirleitt Alþfl. vildu ekki taka þátt í þróun þeirrar umræðu. Ég skil hv. þm. þannig að hann sé í raun og veru að bjóða til hennar. Og ég skildi hv. þm. Geir H. Haarde þannig í morgun að hann væri tilbúinn að taka á hinni almennu umræðu um utanríkismálin með nýjum hætti á vegum Alþingis og ég fagna því. Vegna þess að, með fullri virðingu fyrir öllum þeim mönnum sem hafa setið í stól utanrrh., það er viðburður að þaðan komi frumleg hugsun, hæstv. forseti.