Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:00:47 (719)

1996-10-31 15:00:47# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þessi umræða um utanríkismál hefur um margt verið merkileg og farið víða. Ég ætla að feta í fótspor Kristínar Ástgeirsdóttur að hluta til og nefna það að mér finnst óþarfi að umræðan snúist fyrst og fremst um það sem snýr að okkur Íslendingum. Það er ágætt að fara víðar um og litast um í veröldinni og draga e.t.v. af því ákveðna lærdóma og sannarlega finnst mér fulllangt gengið í umræðum um utanríkismál þegar menn eru beinlínis komnir inn í naflann á sér. Mér finnst hins vegar að þessi umræða hafi sýnt okkur að það sem einu sinni var hægt að hólfa af sem utanríkismál er orðið svo samofið flestum þáttum íslensks þjóðlífs að umræða um utanríkismál verður eins konar eldhúsdagur hér á Alþingi.

En þó að umræðan hafi farið víða þá sakna ég þess, herra forseti, að hér hafi verið rætt um þá hagsmuni okkar Íslendinga sem tengjast fiskveiðum, úthafsveiðum okkar á undanförnum árum, möguleikum okkar þar og að það hafi komið nægilega vel fram hvað þar er á döfinni. Það kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að úthafsveiðar hafi fært þjóðarbúinu verulegar tekjur og það hefur komið fram að af þeim hagvaxtarauka sem við höfum notið hér, og munum njóta í ár, sé a.m.k. 1--1,5% frá úthafsveiðunum komið eða rúmir 10 milljarðar. Það munar um minna og því er ástæða til að hafa þessa hluti með í umræðunni. Alla vega ættu þeir ekki að gleymast.

Það sem mig langar til að víkja að er í fyrsta lagi það sem hér kemur fram um veiðarnar á Flæmingjagrunni og þá ákvörðun NAFO að beita áfram sóknarstýringu við rækjuveiðar. Undir það var tekið í ræðu utanrrh. að gegndarlausar veiðar og endalaus sóknaraukning muni leiða til ófarnaðar og það þekkjum við. Almennt séð getum við vissulega tekið undir það en í því tilfelli sem þarna um ræðir, þ.e. veiðar á Flæmingjagrunni, þá liggur ekki fyrir að um gegndarlausar veiðar sé að ræða, þ.e. gegndarlausar veiðar sem nú þegar hafi leitt til ofveiði. Þvert á móti sýna kannanir þess fiskifræðings íslensks sem þarna hefur lengst verið að störfum og verið með hvað nákvæmastar mælingar og kannanir á þessu að miðin á Flæmingjagrunni, rækjumiðin, eru sem betur fer í ágætu standi, þannig að þess vegna ættum við að geta borið höfuðið hátt og mætt á NAFO-fundi með okkar kröfur og hugmyndir um veiðar á svæðinu alveg skýrar.

Það hefur líka komið í ljós að enda þótt NAFO-þjóðirnar vilji sóknarstýringu þá eru þær ekki með hámarkskvóta á svæðinu. Það segir okkur e.t.v. að þeir hafi ekki svo miklar áhyggjur af því sjálfir hversu mikið er veitt. Það er ekki hámarkskvóti. Þeir vilja hins vegar stýra þessu með fjölda skipa og e.t.v. hafa þannig áhrif á það hversu mikið aðrar þjóðir veiða. Á það kannski sérstaklega við um okkur Íslendinga sem höfum sýnt það á þessu svæði, eins og annars staðar þar sem við höfum mætt til leiks, að okkar sjómenn ráða að því er virðist yfir mestri tækni og reynslu til þess að geta gert best. Því tel ég að í þeim hugmyndum sem þarna er fjallað um sé tilraun til þess að halda okkar í skefjum frekar en að um sé að ræða áhyggjur af veiðistjórn á svæðinu eða sóknaraukningunni. Ég held að við verðum að skoða það sem þarna er að gerast í því ljósi að það eru engir aðrir sem berjast fyrir okkar hagsmunum, það verðum við að gera sjálf. Og ef við verðum að gera það með því að sýna festu og einbeitni í þessu samstarfi þá gerum við það. En ég er ekki alveg viss um að þær hugmyndir, sem stjórnvöld hafa hvað það varðar að breyta því frv. sem fyrir lá í fyrra um úthafsveiðar og aftur hefur verið kynnt núna í þá veru að hægt sé að taka upp stjórnun íslenskra fiskiskipa á þessu svæði nákvæmlega með tilliti til aðstæðna, séu besta leiðin. En það hefur komið fram áður í máli mínu um það frv.

Það er annað sem ég vildi gjarnan að kæmi fram hjá ráðherranum vegna þess að hann vék í sinni ræðu að hugsanlegum samningum um þorskveiðar okkar í Barentshafi og það er hið svokallaða verndarsvæði við Svalbarða. Hvað hefur utanrrn. unnið fyrir íslenska hagsmuni á því svæði? Norðmenn eru einhliða farnir að úthluta þar veiðiheimildum á grundvelli meintrar reynslu okkar og annarra þjóða, reynslu, sem skapaðist við það í rauninni að okkur var bægt með ýmsum aðferðum af svæðinu, þ.e. reynslu sem ekkert mark er takandi á. Það væri fróðlegt að vita hvað ráðuneytið hefur gert til þess að gæta íslenskra hagsmuna á þessu svæði og hvað er þá fyrirhugað og hvort ofríki Norðmanna á hinu svokallaða verndarsvæði hafi með einhverjum hætti komið inn í þær viðræður sem í gangi hafa verið um þorskveiðar okkar í Barentshafi. Ég held að það sé nauðsynlegt að við skoðum það í samhengi og það komi fram í þessum umræðum einnig.

Svo vildi ég að lokum, vegna þess að hæstv. ráðherra vék að hinum sérstaka starfshópi sem nú vinnur að undirbúningi till. til þál. um hvalveiðar, gjarnan ef ráðherrann gæti greint frá því hvað þegar hefur verið gert til þess að kanna hver áhrif upptaka hvalveiða gæti haft á viðskiptahagsmuni okkar Íslendinga. Slík könnun hlýtur að fara fram og e.t.v. er hún í gangi, e.t.v. er hún búin, en ég held að það sé nauðsynlegt að þinginu sé gerð grein fyrir því hvernig að þessu er unnið og hvað út úr því er þá komið vegna þess að það hvort við tökum upp hvalveiðar skiptir verulegu máli varðandi okkar hagsmuni og það að við tökum upp hvalveiðar að nýju mun óhjákvæmkvæmilega hafa áhrif á utanríkismál okkar Íslendinga og á þær áherslur sem við munum þurfa að leggja á næstu missirum eftir að það verður gert.

Það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi varðandi það að við þyrftum e.t.v. að velja og hafna í því hvar við leggjum okkar áherslur í utanríkismálunum fannst mér mjög athyglisvert og ég mundi gjarnan vilja heyra ráðherrann fjalla nokkuð um það. Það er ljóst að þetta svið sem við enn þá flokkum undir utanríkismál verður æ umfangsmeira og það er jafnframt ljóst að á síðustu árum hefur staða Íslands í hinu alþjóðlega samhengi breyst það mikið að við verðum að taka til endurmats ýmsar þær áherslur sem við höfum áður lagt. Við þurfum líka að taka tillit til þess að þeir sem eitt sinn tóku að sér að gæta okkar hagsmuna gera það ekki lengur. Og af því að hér hefur Norðurlandaráð og Norðurlandasamstarfið nokkuð komið til umræðu, þá er það ekki einu sinni svo að Ísland geti verið ein af þeim röddum því að þær tala ekki lengur einu máli, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þess vegna steðjar að okkur nú ýmiss konar --- kannski ekki vandi en alla vega ný viðhorf og viðfangsefni í utanríkismálunum og fyllsta ástæða til þess að reifa málin með þeim hætti sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði fyrr í dag, þ.e. þurfum við ekki að forgangsraða, að meta öðruvísi en við höfum gert hvar við leggjum áherslurnar? Eigum við möguleika á því einhvers staðar að eiga frumkvæði eða erum við komin í þá stöðu að við hrekjumst undan eftir því hvar er bankað á dyrnar hverju sinni hvað varðar íslenska hagsmuni? Eða hvernig lítur ráðherrann á þessi mál?