Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:24:03 (724)

1996-10-31 15:24:03# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins nokkrar athugasemdir við það sem komið hefur fram. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði athugasemdir við upphaf ræðu minnar þegar ég sagði að þjóðin hafi horfið endanlega frá hlutleysisstefnu í alþjóðamálum þegar við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum.

Nú var það svo að við fengum utanríkismál í okkar hendur 1918 þótt Danir færu með þau fyrir okkar hönd fyrst í stað. En ég minni á að Íslendingar vildu ekki ganga í Þjóðarbandalagið og báru því við að landið væri hlutlaust. Þótt það væri skoðun annarra að það samrýmdist í sjálfu sér hlutleysisstefnunni lögðu Íslendingar svo mikið upp úr henni að þeir vildu standa utan allra slíkra bandalaga. Með inngöngunni í Sameinuðu þjóðirnar fyrir 50 árum varð því hér hugarfarsbreyting og að því leytinu til var þjóðin í sínum huga að hverfa frá hlutleysisstefnunni í alþjóðamálum, þótt ég geti verið sammála því að ýmislegt sem á eftir kom skiptir þar meira máli í sambandi við fráhvarf frá hlutleysisstefnunni, eins og inngangan í Atlantshafsbandalagið og ýmislegt fleira.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að að því er varðar stækkun NATO, er mjög mikilvægt að ekki komi upp nýtt járntjald og þess vegna skipta samskiptin við Rússland miklu máli. Þótt það sé ljóst að Rússland hefur ekkert neitunarvald gagnvart Atlantshafsbandalaginu þá getur þessi stækkun ekki farið farsællega fram nema með nánu samstarfi við Rússa og fyrir því er vilji af hálfu Rússa að auka mjög samskiptin við Atlantshafsbandalagið. Það má segja að það sé verulegur áhugi víða í Rússlandi að ganga hreinlega í Atlantshafsbandalagið. En það er hins vegar ljóst að í Rússlandi var NATO slík grýla í allri opinberri umræðu að þjóðin hefur ekki enn þá áttað sig á öllum þeim blekkingum sem haldið var fram í sambandi við Atlantshafsbandalagið á sínum tíma. Það mun taka nokkurn tíma að menn átti sig á sannleikanum í því sambandi.

Ég varð var við það hjá hv. 8. þm. Reykv., Svavari Gestssyni, að honum þótti ýmislegt af því sem ég sagði um Evrópumál vera afar athyglisvert og ekkert nema gott um það. En ég tel það vera skyldu mína að reyna að draga upp þá mynd sem við sjáum á því sem er að gerast í Evrópu. Ég tók hins vegar skýrt fram að aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. Ég get ekki talað hér fyrir hönd annarra ríkisstjórna, þeirra sem munu koma. Ég tala fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar sem ég sit í. En mér finnst það oft vera hjá þeim alþýðubandalagsmönnum að þeir eru að leita sér að óvini. Þeim finnst vera mjög mikilvægt að eiga einhverja óvini. NATO er búið að vera óvinur þeirra mjög lengi, maður hélt nú að það væri að hverfa, og þeim finnst afar mikilvægt að lýsa Evrópusambandinu með einhverjum allt öðrum hætti en ástæða er til. Það er ekki einu sinni verið að bjóða okkur að ganga í þetta Evrópusamband. Er einhver ástæða til þess að fjandskapaast við það? Eigum við ekki að reyna að hafa vinsamleg samskipti við þá granna okkar sem þarna eru og leita eftir vinsamlegum samskiptum á öllum sviðum? Það höfum við gert innan Atlantshafsbandalagsins. Ef menn hefðu haldið uppi þeirri stefnu sem Alþb. hefur alltaf haft alla tíð, að fjandskapast við Atlantshafsbandalagið, ætli staða Íslands meðal þjóða heimsins væri sú sama og hún er? Og halda menn að það þjóni hagsmunum Íslendinga að vera sérstaklega að fjandskapast við Evrópusambandið eins og mér heyrist að hv. þm. vilji? Fyrir hvern og til hvers?

Það sem ég geri í minni ræðu er að reyna að lýsa því sem við sjáum að er sannast og réttast af því sem þar er að gerast og við teljum það skyldu okkar að leiða það inn í umræðuna. Hv. þm. heldur því fram, að með því að segja svona frá þessu sé verið að setja umræðuna hér alveg í nýtt ljós, af því við leyfum okkur að halda því fram að ekki sé um stórhættulegt bandalag að ræða, eins og ég skildi hann. Herra forseti. Ég skil ekki svona málflutning og mér finnst þeir útúrsnúningar sem þeir alþýðubandalagsmenn temja sér í sambandi við þessi mál ekki vera sæmandi.

[15:30]

Að því er varðar samstarfið við Norðurlöndin þá er rétt að það er á miklum tímamótum. Það skiptir t.d. máli í sambandi við samstarf Norðurlandanna hvort vegabréfasambandið helst áfram, það hefur verið mikill grunnur. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt því fram að farið hefði verið af stað í því máli einn fyrir alla og allir fyrir einn. Það er nokkuð til í því. En það náði ekki lengra en svo að aldrei datt nokkrum manni í hug að ef Norðurlöndunum byðist það að fá ásættanlega kosti hjá Evrópusambandinu þá gátum við Íslendingar eða Norðmenn ekki gert ráð fyrir því að Svíar, Danir eða Finnar hættu við, samkomulagið gekk ekki út á það. Það gekk út á að verða samferða í því að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir allar þjóðir. Sú niðurstaða er að fást. Þá stöndum frammi fyrir því hvort við ætlum að taka þeirri ásættanlegu niðurstöðu. Ef við viljum það ekki getum við ekki ætlast til þess að hinar þjóðirnar taki þessari niðurstöðu. Hver maður hlýtur að sjá að samkomulagið gekk ekki út á það þótt einhverjum henti að reyna að túlka það með þeim hætti.

Það er alveg rétt að það er niðurskurður á norrænu fjárlögunum og það er áhyggjuefni. Við Íslendingar höfum staðið gegn því og reyndar Danir, Norðmenn og Finnar líka. Það hefur verið hart deilt í þeim efnum en Norðurlandasamstarfið er byggt upp með þeim hætti að þar verður að ná samkomulagi og við verðum að ná þeirri niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Svíar eru þeir sem leggja mest af mörkum og því höfum við orðið að taka tillit til sjónarmiða þeirra. Hins vegar hefur verið reynt að draga úr því eins og nokkur kostur er. Ég er þeirrar skoðunar og get verið því sammála að við ættum að senda þau skilaboð inn í norræna samvinnu að auka heldur það fjármagn sem þar er til ráðstöfunar til að leggja áherslu á þýðingu samstarfsins. Ég er í sjálfu sér ekkert hræddur um að norrænt samstarf sé að liðast í sundur. Það er að taka miklum breytingum. Það hlaut að taka miklum breytingum en engin ástæða er til annars en að ætla að Norðurlöndin muni halda fast saman á ýmsum sviðum í framtíðinni og örva samstarf sitt. Það hefur komið mér á óvart í reynd sem utanrrh. hversu vel utanríkisráðherrar Norðurlandanna rækta samstarfið. Þeir halda marga fundi og það er oft þannig að ráðherrar geta ekki komist á fundi vegna annarra anna. En í þann tíma sem ég hef verið utanrrh. hefur það aðeins einu sinni gerst að einn utanrrh. mætti ekki og það var sá íslenski vegna þess að hann var í opinberri heimsókn með forseta Íslands í Kína. Að öðru leyti hafa ráðherrarnir mætt á hvern einasta fund og þeir eru orðnir margir. Mér finnst það sýna áhuga á norræna samstarfinu og mér finnst ekki vera hægt að halda því fram að t.d. Finnar, Danir og Svíar, sem eru afar uppteknir í Evrópusamstarfinu, sinni ekki þessu samstarfi.

Hér hefur verið heilmikið rætt um málefni Eystrasaltsríkjanna og er mikið fjallað um þau mál á vettvangi norrænu utanríkisráðherranna. Við höfum líka haldið um það fundi með samstarfsbræðrum okkar hjá Eystrasaltsþjóðunum og því verður haldið áfram. Ég tel afar mikilvægt að við komum fram sem einn aðili í því máli hvernig við tryggjum öryggismál Eystrasaltsríkjanna í framtíðinni. Við höfum verið að reyna að samræma sjónarmiðin og við höfum líka rætt þau mál við aðrar þjóðir og munum halda því áfram. Meðal annars er fyrirhugað að ræða það nánar við Bandaríkin.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði um áherslur í utanríkismálum og hvort við gætum átt þar eitthvert frumkvæði. Það hefur margoft gerst að Íslendingar hafa sýnt frumkvæði í utanríkismálum. Að undanförnu höfum við lagt mikla áherslu á viðskiptamál. Við höfum lagt mikla áherslu á Norðurskautsráðið og stofnun þess og málefni. Við leggjum mikla áherslu á samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og höfum alltaf gert. Við höfum alltaf reynt að rækta vel samstarfið við Evrópusambandið og skýra þar mál okkar. Auðvitað reynum við að forgangsraða á hverjum tíma og sýna frumkvæði þegar kostur gefst til þess.

Norræna samstarfið er að ganga í gegnum mikið breytingaskeið. Það á líka við um norræna samstarfið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þannig að það er til margra átta að líta. Út af fyrir sig er alveg rétt að alltaf er hætt við því þegar við erum með svo fámenna þjónustu eins og raun ber vitni að við höfum nóg með að fylgjast með og missum e.t.v. af ýmsu. Missum af því að sinna hagsmunamálum okkar nægilega vel og sýna það frumkvæði sem okkur ber þannig að ég tek undir að ástæða er til að fylgjast þar með. Við getum því miður ekki sinnt þessu með alveg sama hætti og ýmsar aðrar þjóðir af skiljanlegum ástæðum. Okkur er t.d. ómögulegt að sinna Evrópusamstarfinu af jafnmiklum krafti og Norðmenn gera vegna þess að þeir hafa sett í það gífurlega fjármuni og mannafla. En til þess að vega upp á móti þessu reynum við að nýta okkur norræna samstarfið og samstarf við aðrar þjóðir til að missa ekki af mikilvægum atriðum. Að því leytinu til er norræna samstarfið okkur gífurlega mikilvægt því við fáum svo mikið frá bræðraþjóðum okkar í gegnum starf þeirra. Við erum því á vissan hátt þiggjendur á því sviði en engin ástæða er til að skammast sín fyrir það því þar njótum við fullrar virðingar.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka umræðuna. Hún hefur verið um margt mjög fróðleg og ég ætla ekki að blanda mér í þær sameiningarumræður sem hér hafa verið. Mér hefur fundist heldur mikill tími fara í það að reyna að sameina ákveðna flokka úr ræðustól á Alþingi og hélt satt best að segja að þessar viðræður væru á einhverju öðru stigi. En það er eins og þetta séu upphafssamningaviðræður sem fara hér fram í dag. Það eru ný tíðindi fyrir mig. Ég hélt að það væru stöðugir fundir um sameiningu þessara flokka miðað við það sem maður heyrir í fjölmiðlum. Svo uppgötvar maður það bara allt í einu að þær eru að hefjast hér á Alþingi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði áherslu á það að þetta yrði að vera á jafnréttisgrundvelli og menn yrðu að bera virðingu hver fyrir öðrum og áður en það gerðist gæti engin sameining átt sér stað. Ég skil það svo að menn séu svona að öðlast virðingu hver fyrir öðrum og að reyna að finna jafnrétti sín á milli. Þegar það verður loks búið, hvenær sem það verður nú á þessari öld eða næstu, þá hefjist viðræðurnar.