Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:45:26 (728)

1996-10-31 15:45:26# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 frá 1980, með síðari breytingum.

Frá Evrópusambandinu barst tilskipun nr. 94/33. Tilskipunin fjallaði um vinnu barna og ungmenna yngri en 18 ára.

Meginreglan er sú að vinna barna á skólaskyldualdri er bönnuð eða leggja skal bann við vinnu barna yngri en 15 ára. Nokkrar undantekningar eru á þessu og settar voru mjög þröngar skorður við vinnu ungmenna innan 18 ára. Þetta er út af fyrir sig mjög skiljanlegt frá sjónarmiði ESB. Það hefur ríkt mikið atvinnuleysi og æskilegt að rýma til á vinnumarkaði. Ég sá viss tormerki á að við gætum undirgengist tilskipunina eins og okkur ber að gera samkvæmt EES-samningnum. Hún hefði í för með sér verulegar þjóðfélagsbreytingar ef hún væri tekin og túlkuð af fullri hörku. Ég skipaði því nefnd 22. sept. 1995 til að vinna að undirbúningi þess að Íslendingar geti framfylgt tilskipuninni og þó gefið íslenskum unglingum áfram möguleika á atvinnuþátttöku. Nefndin hélt 19 fundi og skilaði mér skýrslu. Í skýrslunni kemur fram að atvinnuþátttaka barna og ungmenna er talsvert mikil í íslensku þjóðfélagi. Að vísu hefur hún farið minnkandi á síðari árum.

Á grundvelli þessarar skýrslu var frv. samið. Eftir föngum er reynt að laga þetta að íslenskum aðstæðum og draga úr öfgafullum túlkunum sem hægt er að leggja í tilskipunina. Þá er reynt að taka tillit til fleiri alþjóðasamninga, t.d. samnings Sameinuðu þjóðanna frá 1989 um réttindi barnsins. Ísland fullgilti þann samning 1992. Í öðru lagi að þessu frv. samþykktu getur Ísland undirgengist skuldbindingar samkvæmt 7. gr. félagsmálasáttmála Evrópu en sá samningur var fullgiltur fyrir 20 árum. Í þriðja lagi eru skapaðar forsendur fyrir að hægt verði að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu.

Herra forseti. Ég vil nefna nokkur atriði í frv. sem prentað er á þskj. 92. Þar segir svo að ákvæði gildi um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Ákvæði kaflans gilda ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir skamman tíma og að því er varðar heimilisaðstoð á einkaheimilum eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg ungmennum.

Ungmenni merkir í lögum þessum einstakling undir 18 ára aldri. Barn merkir í lögum þessum einstakling sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Unglingur merkir í lögum þessum einstakling sem er minnst 15 ára að aldri en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.

Í 2. gr. frv. segir að börn megi ekki ráða til vinnu en heimilt er að víkja frá meginreglunni í tilteknum tilvikum. Unglinga er hins vegar heimilt að ráða til vinnu með takmörkunum sem greindar eru á þskj. og það er heimilt að víkja frá þessu ákvæði þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga. Í stuttu máli sagt er frv. um virkan vinnutíma barna --- og virkur vinnutími er sá sem er unninn, ekki kaffitímar eða matartímar. Þá er vinnutími barna takmarkaður með eftirfarandi hætti:

a. Átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.

b. Tvær klukkustundir á skóladegi og 12 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Daglegur vinnutími má þó aldrei vera lengri en sjö klukkustundir. Þó má daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri vera átta klukkustundir.

c. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma sem skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri má þó vera átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.

d. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu af léttara tagi sem unnin er af börnum sem eru ekki lengur í skyldunámi.

Virkur vinnutími unglinga er takmarkaður við átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku og hefur reyndar margur unglingurinn á umliðnum áratugum unnið lengri vinnudag á Íslandi.

Herra forseti. Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar í sérstökum tilvikum eða ef réttmætar ástæður leyfa.

Óheimilt er að láta börn að vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6 og óheimilt að láta unglinga vinna á tímabilinu 22 til kl. 6. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Unglingar skulu fá minnst 12 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring og á hverju sjö daga tímabili skulu börn og unglingar fá minnst tveggja daga hvíldartímabil. Læt ég svo lokið að greina frá efni þessa frv.

Það er rúm túlkun á efni þessarar tilskipunar sem birtist í þessu frv. Ég vil, herra forseti, taka fram að það er ekki umdeilt að vinna má ekki koma niður á námi og það er ekki umdeilt að hættuleg störf henta ekki börnum eða unglingum. Ég tel hins vegar að nauðsynlegt sé að venja börn og unglinga við vinnu. Það er einn brýnasti hluti uppeldis og menntunar og nám er að sjálfsögðu vinna og í mörgum tilfellum erfið vinna.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði frv. þessu vísað til hv. félmn.