Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:15:15 (731)

1996-10-31 16:15:15# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég byrja á því að taka fram að ég lít ekki svo á að hér á landi viðgangist barnaþrælkun og þar af leiðandi séum við ekki í sama vanda og sumar aðrar þjóðir, fyrst og fremst í þriðja heiminum þar sem viðgengst ofboðsleg barnaþrælkun. Vera kann að í Suður-Evrópu megi líka finna dæmi þess að börnum sé ofboðið með vinnu en ég held að það sé ekki hér. Ég legg ríka áherslu á það að ég held að það sé mjög mikilvægt að börn venjist vinnu og líti á hana sem sjálfsagðan hlut af tilverunni. Vinnugleði er hluti af hamingjunni og ég held að það sé mjög mikilvægt að börn og ungmenni venjist vinnu. Hún verður auðvitað að vera með þeim hætti að hún komi ekki niður á námi þeirra en hún verður líka að vera með þeim hætti að þeim stafi ekki hætta af vinnunni í sjálfu sér.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, 14. þm. Reykv., spurði hvort einhverjar kannanir væru til um vinnuþátttöku barna og ungmenna. Sú eina könnun sem ég þekki var unnin á vegum þess starfsfólks sem ég fékk til þessa verks, þ.e. reyna að kanna það hvernig við gætum fullgilt tilskipunina því að hún kynni að hafa í för með sér verulegar þjóðfélagsbreytingar. Nefndin gerði talsvert ítarlega könnun á vinnuþátttöku barna og ungmenna á Íslandi og hún er til í félmrn. og ég mun hlutast til um að hv. félmn. verði hún tiltæk til að glöggva sig á. Vinnuþátttaka barna og ungmenna hefur minnkað mjög verulega á undanförnum árum. Á höfuðborgarsvæðinu er fyrst og fremst unglingavinna. Úti um land er þetta vinna að framleiðslustörfum í miklu meira mæli.

Ýmislegt fróðlegt kemur fram í könnuninni. Ég vitna í þetta eftir minni. Hér á höfuðborgarsvæðinu höfðu t.d. 4% unnið í fiski. Á landsbyggðinni var þetta með allt öðrum hætti. Ef ég man rétt hafði a.m.k. helmingur komið að fiskvinnslu. Þetta kann að vera ein skýringin á því þrátt fyrir verulegt atvinnuleysi á undanförnum árum hve erfitt hefur verið að fá fólk til fiskvinnslu og þá er ég að tala um ungt einhleypt fólk hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu sem þykir ekki tiltækilegt eða sæmandi að bregða sér út fyrir bæjarmörkin til að vinna í fiski. Ég hef dálitla reynslu af þessu úr félmrn. því að mér ofbauð að svo margir væru á atvinnuleysisskrá en samt vantaði fólk og ég hef tvisvar reynt að auglýsa til þess að benda fólki á þegar hefur vantað fólk sárlega í fiskvinnslu. Hér er 4% atvinnuleysi í Reykjavík í september en þrátt fyrir það urðum við að flytja inn marga tugi Pólverja til þess að vinna í fiski. Ég held að það sé vegna þess að fólkið hefur ekki reynslu af þessu, hefur ekki kynnst þessu, heldur að þetta sé eitthvað mjög slæmt eða óvarlegt. Það er aftur ekki reynsla okkar dreifbýlismanna af því að unglingar hafa þar vanist þessum störfum. Það er mjög athyglisvert námskeið sem ég beitti mér fyrir í félagi við Samband fiskvinnslustöðva og var starfrækt í Hafnarfirði fyrir skemmstu fyrir atvinnulaust fólk að þjálfa það í fiskvinnslu. Tveir þriðju af þeim sem fóru á námskeiðið fengu vinnu meðan á námskeiðinu stóð í fiskvinnslufyrirtækjum og eftir því sem ég veit best duga þeir vel á vinnustöðum sínum.

Það er alveg rétt og það er viljandi gert að túlkun á þessari tilskipun er rúm. Mér fannst eðlilegt að leita eftir því og vildi leita eftir því að reyna að túlka hana sem rýmst þó án þess að gerast brotlegur við stóru mömmu í Brussel og reyna að komast þannig frá málinu að ekki hefði í för með sér stórkostlegar breytingar á þjóðfélaginu eða röskun á högum fjölskyldna vegna þess að við verðum að athuga að þeir unglingar sem eru að vinna, vinna fyrir kaupi. Þeir eiga þátt í fjölskyldutekjunum og ef þeir gengju atvinnulausir eða án tekna yrðu foreldrarnir að leggja þeim til vasapeninga. Þetta hefur líka þau áhrif að eitthvað þurfa þau við að vera. Það þyrfti þá að verja meiri peningum til tómstundastarfs. Ekki er hægt að láta þá ganga iðjulausa og sjálfala. Það þarf þá að skaffa þeim eitthvað við að vera ef þeir eru ekki að vinna hóflega.

Ég lít svo á að unglingar eigi ekki að vinna á börum. Ég tel að það sé ómynd og ósiður sem hér hefur tíðkast eins og bent hefur verið á að unglingar skuli vera að vinna á börum. Þar komum við t.d. að einu dæmi um næturvinnuna. Samkvæmt frv. er ekki heimilt að vinna nema í undantekningartilfellum á nóttunni og þá þegar af þeirri ástæðu er vinna fólks innan 18 ára ekki heimil við afgreiðslustörf á börum. Nú er ég ekki mjög tíður gestur á veitingahúsum en mér finnst út af fyrir sig umhugsunarefni hvort það er nokkuð góð eða heppileg vinna fyrir ungmenni að vera glasabörn á veitingahúsum.

Það var spurt hver ætti að hafa eftirlit með þessu. Ég hef ekki áform um að setja upp einhverjar eftirlitssveitir. Ég geri ráð fyrir því að Vinnueftirlitið líti eftir því ef um verulega misbresti yrði að ræða, lögreglan í einhverjum tilfellum. Mér skilst að lögreglan fylgist t.d. með veitingahúsum en ég hef ekki á prjónunum að setja upp einhverjar sérsveitir til þess að framfylgja yfirvinnubanni eða þess háttar.

Hv. 14. þm. Reykv. spurði um skýringar á 5. gr. Ég skil hana með sama hætti og hv. þm., þ.e. að skóli plús vinna megi verða sjö klukkustundir. En það ber að hafa það í huga að í frv. er alltaf talað um virkan vinnutíma, þ.e. frímínúturnar eru taldar frá. Þá er stundafjöldi í skólanum, sem er væntanlega 40 eða 45 mínútur, lagður saman eða frímínúturnar eru dregnar frá. Síðan það sem virkur kennslutími er plús vinnutíminn.

Spurt var um vinnutímatilskipunina sem er önnur hlið á málinu. Ég hef ekki viljað fara fram með frv. um það mál og það er vegna þess að mér finnst það vera kjarasamningaatriði enda er heimilt að gera það að kjarasamningaatriði. Það er mjög eðlilegt að svo sé. Það er ekki boðlegt að leggja bann eða taka yfirvinnu af fólki öðruvísi en lífskjör þess séu þá tryggð með einhverjum öðrum hætti og það gerist ekki nema í gegnum frjálsa samninga. Ég hef fylgst með því að aðilar vinnumarkaðarins eru að ræða þetta í góðu og leita lausna á málinu. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að menn breyti launastrúktúrnum á Íslandi, þ.e. að hækka grunnlaunin og reyna að draga úr hinu ofboðslega vægi yfirvinnunnar. Það er fjölskylduvænt og þarf ekki að koma niður á framleiðni fyrirtækjanna. Ég held að á mörgum sviðum gæti óþreytt fólk náð sömu afköstum á skemmri vinnutíma eins og er með núverandi mjög löngum vinnutíma. Mjög stór hópur þjóðarinnar vinnur á lágum töxtum og á lágu grunnkaupi og má ekki við því að missa yfirvinnuna nema því aðeins að grunnkaupið hækki. Þetta ætti að koma í einn stað niður fyrir fyrirtækin og ég veit um eitt borgarfyrirtæki sem hefur farið út í mjög athyglisverða tilraun. Þar eiga menn að afkasta ákveðnu verki og þeir gera það á miklu styttri tíma en meðan unnið var eftir klukkunni og menn voru að sigta á það að fá sér yfirvinnu. Ég held að það sé leið sem við eigum að athuga mjög vel og ég vonast eftir því að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um þetta atriði. Eins og menn vita hlutast ég ekki til um málefni vinnumarkaðarins nema alveg út úr neyð og ég vonast til að þurfa ekki að leggja fram frv. um þetta atriði. En það gæti rekið að því ef aðilar vinnumarkaðarins koma sér ekki saman að við höfum ekki frið fyrir Evrópusambandinu öðruvísi en að setja lög.

Spurt var um sjálfræðisaldur og mér er kunnugt um að dómsmrn. hefur þetta mál til meðferðar og fyrirspurn var send til félmrn. um hver afstaða ráðuneytisins væri til hækkunar sjálfræðisaldurs. Við unnum nokkuð í þessu og ég kannaði málið og velti því töluvert fyrir mér og svar okkar var það að við töldum að nauðsynlegt væri að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Það var svar okkar.

Herra forseti. Haft var orð á því að það væru frávik og undantekningar sem skilið væri eftir til reglugerðarsmíði og það var gert með vilja. Það er einn þátturinn í því að túlka ekki tilskipunina af fyllstu hörku. Ég mun a.m.k. meðan ég er með reglugerðarvald reyna að sneiða hjá því að fara út í sparðatíning í þessu efni. Ég tel nefnilega að vinna barna og unglinga hjá okkur hafi verið í lagi og ekki sé brýn nauðsyn neinna grundvallarbreytinga.

Spurt var um fjölskyldufyrirtæki. Orðið fjölskyldufyrirtæki er ekki til í íslensku lagamáli. Nefndin sem vann að málinu velti þessu fyrir sér. Í enska textanum á tilskipuninni segir ,,family undertaking`` og þeir leituðu til Evrópusambandsins um hvernig ætti að þýða þetta, hvaða fyrirtæki væri átt við. En samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá Evrópusambandinu er aðildarríkjunum látið það eftir að gefa orðinu inntak. Ég endurtek: Aðildarríkjunum er látið það eftir að gefa orðinu inntak. Nefndin sem samdi frv. hallaðist að þeirri skoðun að hér væri eðlilegt að nota vanhæfnisreglur stjórnsýslulaga og þannig er þetta fundið.

Varðandi það af hverju fólk eigi frekar að fá að vinna hjá fjölskyldufyrirtækjum geri ég ráð fyrir því að hugsunin sé sú þegar menn eru í einni fjölskyldu tilheyri þeir frekar hver öðrum en ella og verkstjóri eða fjölskyldufaðir sýni fremur umhyggju en óskyldur.

Varðandi grunnskólann og sjómannalögin er það á gráu svæði en þetta frv. á að tryggja að fullnægja tilskipuninni nr. 94/33.