Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 15:24:11 (747)

1996-11-04 15:24:11# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á og efna til þessarar umræðu um jafnréttismál á Alþingi. Mér er sérstök ánægja að fá að fara um það nokkrum orðum. Hv. þm. spurði mig 10 spurninga. Ég hygg að á 12 mínútum muni nú vefjast fyrir mér að gefa fullnægjandi svör við þeim öllum en ég mun reyna eftir því sem tími leyfir að fjalla um þær. Fyrst ætla ég að svara þeirri spurningu hv. þm. um hvort pólitískur vilji væri fyrir hendi. Ég held ég geti fullyrt að svo sé hjá ríkisstjórninni.

Síðan spurði hún um úttekt á áhrifum jafnréttislaganna og mati á því hvernig þurfi að styrkja þau og hvort að fyrirhuguð væri heildarendurskoðun á jafnréttislögum. Fyrstu jafnréttislögin voru sett hér á landi 1976 og lögin hafa verið endurskoðuð nokkrum sinnum og eru núgildandi lög frá 1991. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. eru réttindi kvenna vel tryggð í lögum hér á landi. Og eins og hún gat réttilega um höfum við fengið viðurkenningu fyrir að vera í fararbroddi þjóða að þessu leyti. Þannig af þeirri ástæðu er ef til vill ekki brýnt að fara í heildarendurskoðun á lögunum þó að sjálfsögðu hljóti það alltaf að vera til skoðunar.

Hvað varðar úttekt á jafnréttislögunum og mati á því hvernig þurfi að styrkja þau gæti slíkt hljómað vel í tilefni af 20 ára afmæli laganna en ef til vill gæti það orðið til þess að ég sæti frekar með hendur í skauti. Ég held meginatriðið sé nú að reyna að gera framkvæmdaáætlun í málaflokknum. Ég held að það sé meira atriði en að standa í úttektum. En núgildandi áætlun rennur sitt skeið um áramótin 1997/1998 og það þarf að vinna að nýrri jafnréttisáætlun fyrir þann tíma og hún þyrfti helst að liggja fyrir áður en þing hefst á næsta hausti. Viðfangsefni okkar á næstu missirum hlýtur að vera að reyna að gera jafnrétti kynjanna raunverulegt, þ.e. að lagalegt jafnrétti á að vera tryggt. Jafnrétti er hins vegar ekki praktíserað nægilega vel og það er meginatriðið.

Hv. þm. spurði eftir ummælum mínum um svokallaða jákvæða mismunun sem ég viðhafði á jafnréttisþingi og ef til vill víðar. Ambagan ,,jákvæð mismunun`` fer í taugarnar á mér. Mér fyndist nær að tala um forgang eins og mér finnst þessi rassbaga sé túlkuð. Ég er þeirrar skoðunar að konur séu jafnhæfar körlum og bæði kynin eigi að fá að njóta verðleika sinna. Ef um hæfan einstakling er að ræða að öllu leyti þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að velja einstakling af því kyni sem er í minni hluta á viðkomandi vinnustað. Ég held að það sé til bóta og það sé varasamt að einskorða vinnustaði við annað kynið. Ég get t.d. vel séð fyrir mér karl í stöðu hjúkrunarforstjóra. Og ég get vel séð fyrir mér að konur stjórni t.d. stóriðjufyrirtækjum. (Gripið fram í: Er þetta ekki fullmikið frjálslyndi?) Nei, þetta er ekki fullmikið frjálslyndi. Ég tel að þetta séu eðlilegir og sjálfsagðir hlutir.

Þingmaðurinn spurði um hvernig ég hugsaði mér að fylgja eftir samþykktum jafnréttisþings. Það vill nú svo illa til að ég hef ekki haft tækifæri til þess að skoða þessar samþykktir nákvæmlega í endanlegu formi. Ég veit svona hér um bil hvað var ályktað en það er ekki búið að afhenda mér þær í endanlegu formi. Mér skilst að sé fundur á morgun þar sem gengið verði frá þessum tillögum. Kannski er þegar búið að ganga frá tillögunum. Þar verður ákveðið hvernig verður staðið að dreifingu þeirra þannig að ég hef þessar samþykktir ekki í endanlegu formi. Ég veit hins vegar að þarna var m.a. ályktað um að atvinnurekendur, samtök launafólks, stjórnmálaflokkarnir á Alþingi og ríkisstjórin yrðu hvött til dáða í jafnréttismálum og það er mjög vel. En það er náttúrlega ekki á valdi stjórnvalda einna að lagfæra allt í jafnréttismálum. Ég held að meginatriði sé hugarfarið. Meginatriðið er hugarfarsbreyting sem vissulega þarf að vera í sumum þáttum til að árangur náist. Og það eru ekki einungis atvinnurekendur, samtök launafólks, stjórnmálaflokkar og stjórnvöld --- ég vil nefna sérstaklega sveitarstjórnir sem reyndar hafa tekið á jafnréttismálum sums staðar af myndarskap og það er þakklætisvert.

[15:30]

Fjallað er um launamuninn og það liggur ljóst fyrir samkvæmt fleiri en einni könnun að launamunur hér á landi er um 10--14% sem ekki verður skýrður fyllilega nema þá með því að hann sé kynbundinn. Það var reyndar upplýst á jafnréttisþingi að svipaður launamunur er í löndunum í kringum okkur. Þetta er því ekkert séríslenskt vandamál og þarna er við ramman reip að draga. Ég vil nefna að nefnd undir forustu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefur unnið að tillögum um kynhlutlaust starfsmat. Ég held að það sé mjög mikilvæg vinna og það er grundvallarvinna í þessu sambandi. Nefndin skilaði tillögum sínum til mín. Ég fór með þær í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að hrinda þessum tillögum í framkvæmd eða vinna að því að þær kæmust í framkvæmd. Það er búið að ráða starfsmann í fullt starf í félmrn. eftir auglýsingu og starfsmaðurinn heitir Margrét Erlendsdóttir. Hún er komin í fullt starf við að vinna að þessu verkefni og síðan fær hún liðsauka frá Reykjavíkurborg. Þetta er hugsað þannig að starfsmat verði gert í tveimur ríkisstofnunum, í einni stofnun Reykjavíkurborgar eða fyrirtæki og í einu fyrirtæki úr einka- eða samvinnugeiranum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vel sé að þessu staðið, vandað og trúverðugt, og ég vænti þess að af þessu starfi verði búinn til grundvöllur sem gæti orðið til að eyða þessum hvimleiða og ósiðlega kynbundna launamun.

Það er hvatt til þess að vinna gegn atvinnuleysi og þá sérstaklega atvinnuleysi meðal kvenna. Ég tel að við höfum verið í því undanfarið. Það er enn þá meira atvinnuleysi hjá konum en körlum. Það er reyndar rétt að hafa það í huga þegar maður athugar atvinnuleysistölur að konur í hlutastörfum sem eru á atvinnuleysisskránni, þ.e. fólk á hlutabótum er á atvinnuleysisskrá, er óaðgreint talið með á atvinnuleysisskrá, og á hlutabótum eru miklu fleiri konur en karlar. Í september minnir mig að það hafi verið um 900 manns sem tóku hlutabætur og eru inni í atvinnuleysistölunum. Þar af voru rúmlega hundrað karlar sem tóku við þessum hlutabótum.

Jafnréttisþing hvatti til þess að í næstu kjarasamningum verði sérstaklega hugað að því að eyða kynbundnum launamun og það eru orð í tíma töluð. Atvinnuleysi er meðal kvenna í dreifbýli og í haust var haldin á vegum FAO í boði landbrn. alþjóðleg ráðstefna á Akureyri um aðstæður kvenna í dreifbýli. Þar kom ýmislegt athyglisvert í ljós sem við gætum gert okkur mat úr við gerð nýrrar jafnréttisáætlunar til þess að bæta stöðu sveitakvenna. Ég hafði þá ánægju að geta farið norður og setið hluta af þessum fundi og átt kvöldstund með því fólki sem þarna var, hafði móttöku fyrir ráðstefnuna, og ég hygg að það sé hægt að nota ýmislegt sem fram kom á þessari ráðstefnu til framdráttar málefninu.

Lánasjóður kvenna hér á landi var m.a. kynntur á þessu þingi og við bindum að sjálfsögðu nokkrar vonir við hann ásamt átaksverkefnum á vegum sveitarfélaga sem gætu dregið úr atvinnuleysi kvenna. Félmrn. hefur í sama tilgangi haldið námskeið til þess að kynna heimaþjónustu félagsmálastofnunar og Reykjavíkurborgar fyrir karla og konur. Þetta er í samvinnu við Sókn og hefur tekist með ágætum. Nú er ljósið farið að blikka en ég á margt ósagt, herra forseti.

Megintilgangur þessara námskeiða er að gera þátttakendum grein fyrir hversu fjölbreytt heimaþjónustan er og hvetja þá til að skrá sig til starfa. (Forseti hringir.) --- Ég er ekki búinn að svara nema u.þ.b. helmingnum af spurningunum en ég verð að sjálfsögðu að hlýða herra forseta og biðjast afsökunar á því að hafa ekki svarað fleiru. Ég mun hins vegar nota síðari ræðutíma minn til að fara yfir það sem ég á ósvarað.