Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 15:36:55 (748)

1996-11-04 15:36:55# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Jafnrétti er ekki það að vera eins, heldur þvert á móti rétturinn til að fá að vera öðruvísi en njóta samt fyllstu mannréttinda. Jafnrétti er því mannréttindi og það er þannig sem við eigum líka að fjalla um það misrétti sem menn eru beittir eða verða fyrir vegna kynferðis.

Við stærum okkur af því að hjá okkur sé öllum formlegum skilyrðum fullnægt, að í lögum okkar og skráðum reglum sé ekki hægt að benda á að kynjunum sé mismunað. Samt er það svo að möguleikar kynjanna eru hreint ekki þeir sömu á öllum sviðum. Það sem helst brennur á er launamisréttið sem er mælanlegt og svo sú tilfinning að þrátt fyrir þetta bókstafsjafnrétti standi konur höllum fæti á ýmsum sviðum vegna vanahugsunar eða eigum við e.t.v. að kalla það leifar af eldri menningu. Menningu sem gerði ráð fyrir því að börnin væru á ábyrgð konunnar, heimilin einnig og þar með velferð fjölskyldunnar. Þessari menningu er t.d. viðhaldið af stjórnvöldum með því hvernig skipað er í nefndir á vegum hins opinbera og jafnvel hæstv. jafnréttisráðherra gerir sig sekan um það að skipa nefndir sem eru eingöngu skipaðar körlum. Alltaf koma fram sömu munstrin hvort sem stjórnvald skipar eða kynin velja sér viðfangsefni. Konurnar velja eða veljast af þeim sem snúa að heimilum, fjölskyldu, börnum og velferð þeirra. Þar virðist þeirra fyrsta skylda liggja enn. Auk þessa eru þær svo að reyna að tileinka sér allt það sem karlarnir hafa verið að fást við.

Ef það er fjölskylduábyrgðin sem gerir það að verkum að konur eru almennt ekki taldar hæfar til að gegna æðstu embættum eða vera verðugar sömu launa, þá hljótum við að beina augum okkar að þeirri fjölskyldustefnu sem rekin hefur verið í okkar samfélagi. Ég er ekki að segja, herra forseti, að þetta sé meðvitað. En ef þetta er enn hluti af okkar menningu og okkur þar með nánast ósjálfrátt, þá þurfum við að bregðast við þar sem vandinn liggur. Þess vegna er opinber fjölskyldustefna sem vinnur meðvitað í því að gera bæði kynin ábyrg fyrir frumþörfum sínum og báða foreldra ábyrga fyrir börnunum, líklega það virkasta sem við getum gert til að vinna að jafnrétti kynjanna og tryggja þannig að mannréttindi séu virt.

Aðstæður á vinnumarkaði hafa líka mjög mikil áhrif á aðstæður fjölskyldunnar og möguleika beggja foreldra til að koma jafnt að umönnun og uppeldi barnanna. Í íslensku atvinnulífi virðist slaki og lág laun vera regla fremur en undantekning ef marka má þær mælingar sem fram hafa farið á framleiðni í íslenskum fyrirtækjum. Það hefur aftur í för með sér að vinnudagur er langur og verður að vera langur ef takast á að uppfylla hinar efnislegu kröfur sem gerðar eru til einstaklinga og fjölskyldna í íslenska velferðarsamfélaginu. Þess vegna eru líka samningar sem snúast um fyrirkomulag vinnunnar afar mikilvægir.

Ég tel að þetta séu þau atriði sem við verðum að einbeita okkur sérstaklega að á næstunni, fjölskyldustefna, og sem lið í henni kjarasamninga sem snúast um breytingar í fyrirtækjunum sjálfum sem geta leitt til sveigjanlegs vinnutíma og aukinnar framleiðni sem gefur þá kost á styttri vinnutíma á betri kjörum.

Það má líka læra strax af starfsmati sveitarfélaganna og bæta þannig kjör umönnunarstéttanna og til þess stendur a.m.k. vilji einhverra stéttarfélaga á almenna markaðnum. Og það er mikilvægt að þær niðurstöður, sem fást af þeirri tilraun sem hér var getið um, um kynhlutlaust starfsmat, verði nýttar til að breyta ríkjandi ástandi. Eitt af því sem væri strax virk aðgerð væri að bæta launakjör kennara á öllum skólastigum.

En það er, herra forseti, nánast orðinn kækur að samþykkja framkvæmdaáætlanir um jafnrétti en gleyma að fara eftir þeim, að láta hjá líða að nýta þau tækifæri sem reglulega gefast til að hafa áhrif á þróunina, eða að breyta lögum og reglum en fylgja þeim ekki eftir, eða að gleyma að skapa skilyrði svo unnt sé að fara eftir þeim. Það er margreynt að það nægir ekki að setja lög um sömu laun ef orsakir launamismunar eru látnar óhreyfðar.

Umræðan um stöðu karla í þessu samhengi hefur farið vaxandi. Sem betur fer hafa líka karlarnir sjálfir rankað við sér og farið að hyggja að sinni stöðu. Til er orðin karlanefnd Jafnréttisráðs sem lætur að sér kveða, nú síðast með viðhorfskönnun sem kynnt var á nýafstöðnu jafnréttisþingi. Karlar í þinginu eru farnir að bera fram tillögur um fæðingarorlofsrétt karla og við sjáum æ oftar skrifað um rétt karla eða öllu heldur réttleysi varðandi forræði yfir börnum þar sem konum er miklu oftar dæmt forræðið, líklega í anda þeirrar menningar sem ég vitnaði til áðan.

Í tímaritinu The Economist var fyrir skömmu ögrandi grein um stöðu karla í vestrænum samfélögum, þar sem konur hafa um árabil unnið með sjálfa sig, stöðu sína og möguleika og eru orðnar mjög meðvitaðar og tilbúnar til breytinga á sinni stöðu á meðan karlar hafa almennt séð haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Stundum hefur því verið haldið fram að sumir þeirra hafi jafnvel orðið enn meiri karlrembur sem jafnréttismál voru meira á dagskrá, að þeir hafi hvorki kunnað né getað fótað sig í því nýja hlutverki sem óhjákvæmilega hlaut að leiða af nýjum viðhorfum og aðgerðum kvenna og hafi forherst í ímyndaðri karlmennsku. En nefnd grein dregur upp ófagra mynd af körlum og stöðu þeirra í dag og gerir því jafnvel skóna að ef þeir sjái sig ekki um hönd og bæti ráð sitt, þá muni konur komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu svona almennt frekar til óþurftar og gera viðeigandi ráðstafanir. Alltént er ljóst að það stoðar lítt að banna afleiðingar tiltekins ástands, jafnvel með lögum. Það er ástandið sem við verðum að breyta og eins og ég gat um, herra forseti, tel ég að þær ráðstafanir séu að við komum á opinberri fjölskyldustefnu þar sem markvisst sé unnið með þau málefni fjölskyldunnar sem lúta að jafnrétti kynjanna og að staðan á vinnumarkaði sé þar sem menn þurfa að ráðast til aðgerða.

Ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, í þessari umræðu svona í lokin að geta eins af því sem sérstaklega hefur truflað mig og fleiri í jafnréttisumræðu undanfarinna ára, en það er orðanotkunin. Aukin áhersla hefur verið á að nota alltaf orðið ,,kona`` um okkur konur, ekki orðið maður, ekki einu sinni í samsettum orðum, samanber þingkona, starfskona o.s.frv., og hefur tegundarheitið maður smám saman verið að breiða sig yfir karlkynið sérstaklega og ekki óalgengt að heyra talað um konur og menn í stað þess að segja konur og karlar eða kvenmenn og karlmenn ef út í það er farið. Eða hvernig finnst ykkur þetta ávarp hljóma: Karlar og menn? Það er sama rökleysan og konur og menn.

Þegar ég var ung rauðsokka var slagorð okkar ,,konan er maður`` og vísaði þá til þess að kvenréttindi væru mannréttindi. Þannig er það enn og í guðanna bænum, munið að maður er tegundarheiti og á við bæði kynin í íslensku, ekki bara karla. Við konur erum helmingur mannkyns.