Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 15:45:03 (749)

1996-11-04 15:45:03# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:45]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég trúði ung á afl menntunar til að breyta heiminum, trúði því að þegar konur stæðu jafnfætis körlum á því sviði og hefðu aflað sér menntunar í jafnríkum mæli og þeir mundi allt annað breytast smám saman í jafnréttisátt, á vinnumarkaði, á heimilum, í stjórnsýslu og stjórnmálum. Einstaklingar stæðu fullkomlega jafnfætis. Reynslan hefur leitt í ljós að það var mikill barnaskapur og einföldun að trúa svo mjög á mátt menntunarinnar í þessu samhengi. Hún ein og sér dugar ekki. Launamunur kynjanna er t.d. miklu flóknara fyrirbæri en svo. Gömlum hefðum í aldanna rás verður líkast til ekki breytt með einni kynslóð.

Eitt af þeim markmiðum sem núv. ríkisstjórn setti sér í upphafi starfstíma síns var að vinna að auknu jafnrétti kynjanna. Þar segir að ríkisstjórnin muni vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis auk þess sem stuðlað verði að jöfnum möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína. Að þessu markmiði og í anda þess hefur verið unnið á undanförnum missirum. Einn mikilvægasti þáttur í jafnréttisbaráttunni er hvernig staðið er að jafnréttismálum í skólakerfinu. Þar hefur verið mótuð sú stefna að skólar skuli vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar. T.d. er mikilvægt að með bæði drengjum og stúlkum sé ræktuð ábyrgðartilfinning fyrir heimili og fjölskyldu og báðum kynjum sé kennt að líta á sig sem fyrirvinnur heimila. Þannig verði þau jafnt búin undir virka þátttöku í fjölskyldulífi, atvinnulífi og mótun samfélagsins alls. Mikilvægt er að fræðsla um jafnréttismál nái til kennara, skólastjórnenda og foreldra og unnið verður að því að efla þennan þátt jafnréttisfræðslunnar. Innan skólakerfisins verður unnið að því að styrkja sjálfsmat nemenda. Það má gera á fjölmarga vegu, t.d. með því að efnilegum nemendum verði í auknum mæli umbunað fyrir árangur í námi og það tel ég að geti komið stúlkum sérstaklega til góða. Aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla skal taka mið af áherslu á jafnrétti kynjanna.

Mikilvægt er að menntakerfið ýti ekki undir launamun kynjanna, t.d. með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám. Til að ná þeim markmiðum þarf námsráðgjöf og starfsfræðsla að fléttast inn í nám í auknum mæli.

Þrátt fyrir aukna sókn kvenna í háskólanám hefur námsval þeirra haldist nokkuð hefðbundið og lítið breyst. Flestar konur stunda uppeldisfræði og kennaranám, nám í tungumálum, mannvísindum og heilbrigðisgreinum. Karlar dreifast jafnar á greinar. Árið 1980--1981 stunduðu flestir karlar nám í tungumálum og mannvísindum og viðskipta- og hagfræðigreinum, en 14 árum síðar stunduðu flestir þeirra nám í samfélagsvísindum, lögfræði- og verkfræðigreinum. Á Íslandi er sú merkilega staða að konur hafa verið í meiri hluta meðal háskólanema síðan 1985. Hæst hlutfall kvenna miðað við Evrópusambandslönd 1990--1991 var á Íslandi, Portúgal og Svíþjóð reyndar líka.

Í ársbyrjun 1995 kom út skýrsla Jafnréttisráðs, Launamyndun og kynbundinn launamunur --- þættir sem hafa áhrif á laun og starfsframa. Skýrslan var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Rannsóknin tók til kjara karla og kvenna í fjórum opinberum stofnunum og fjórum einkafyrirtækjum. Þegar áhrif menntunar á laun karla og kvenna eru skoðuð koma undarlegir hlutir í ljós. Menntun leiðir til launahækkunar en eftir því sem menntun fólks eykst, því meira eykst munurinn á launum karla og kvenna. Séu borin saman laun karla og kvenna með framhaldsskólamenntun eru konur með 78% af meðaldagvinnulaunum karla að viðbættum aukagreiðslum en háskólamenntaðar konur einungis með tæplega 64%. Meðan háskólamenntaðir karlar hafa 132% hærri dagvinnulaun og aukagreiðslur á klukkustund en karlar sem eingöngu hafa grunnskólapróf leiðir sams konar samanburður meðal kvenna í ljós að munurinn er aðeins 42%. Þessi munur er til staðar hvort sem um er að ræða einkafyrirtæki eða opinbera stofnun. Þessar niðurstöður eru mjög sláandi og sannarlega mikið umhugsunarefni fyrir margar okkar sem hafa trúað því að menntun væri sterkasta vopn kvenna í jafnréttisátt.

Ýmislegt fleira og athyglisvert kom fram í þessari rannsókn, svo sem áhrif fjölskylduaðstæðna á laun og áhuga og möguleika til stöðuhækkana. Síðan er viðhorf karla og kvenna til starfs síns ólíkt. Konurnar forgangsraða á annan hátt. Þær setja fjölskylduna á undan vinnunni.

En það er alveg ljóst að jafnrétti á vinnumarkaði næst ekki nema með því að auka ábyrgð karla á börnum og heimili og til að það náist þarf að auka rétt þeirra m.a. til fæðingarorlofs. En réttur feðra til fæðingarorlofs, sveigjanlegur vinnutími, sömu tækifæri kynjanna á vinnumarkaði og sambærileg laun eru forsendur þess að jafnrétti kynjanna verði náð. Ein leið sem vonir eru bundnar við til úrbóta í kjölfar fyrrnefndrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar er kynhlutlaust starfsmat. Kynhlutlaust starfsmatskerfi hafa sömu eiginleika og hefðbundin kerfi. Sérstaða þeirra felst aftur á móti í því að sérstaklega er reynt að gera þeim þáttum sem einkenna störf kvenna jafnhátt undir höfði og þáttum sem einkenna hefðbundin karlastörf. Þess má geta að í Svíþjóð eru hafnar tilraunir með kynhlutlaust starfsmat til að ákveða laun í einstaka sveitarfélögum. Ekki eru til heildstæðar rannsóknir á því hve miklum hluta kynbundins launamunar hefur tekist að eyða með þessum hætti, en rannsóknir frá einstökum fylkjum í Kanada og Bandaríkjunum, þar sem slíku mati hefur verið beitt, sýna þó að á þennan hátt er hægt að minnka kynbundinn launamun um allt að þriðjung.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að fara út í tilraunaverkefni um starfsmat og við það er miðað að markmið þess sé fjórþætt: Í fyrsta lagi að bera saman hefðbundin kvenna- og karlastörf til að athuga hvort kynhlutlaust starfsmat dragi fram þætti í hefðbundnum kvennastörfum sem hingað til hafa verið vanmetnir. Í öðru lagi að fá reynslu af notkun kynhlutlauss starfsmatskerfis sem tækis til að raða störfum innbyrðis innan fyrirtækis eða stofnunar. Í þriðja lagi að aðlaga kynhlutlaust starfsmatskerfi íslenskum aðstæðum. Í fjórða lagi að kynna þessa aðferð hér á landi við að raða störfum innbyrðis.

Formleg réttindi kvenna til jafnréttis eru vel tryggð í íslenskum lögum. Reynslan hefur hins vegar leitt í ljós að það er ekki nægilegt. Þess vegna er brýnt að vinna markvisst að því að lagasetningin nái tilgangi sínum eins og ég hef nefnt dæmi um að verið er að gera á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði áðan: ,,Viðhorfsbreytingin er löngu hafin.`` Það má rétt vera. En henni er sannarlega ekki lokið. Þess vegna er full ástæða til að hamra það járn áfram enn um hríð.