Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:33:03 (757)

1996-11-04 16:33:03# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál hér, geri engar athugasemdir við það sem kann að vera jákvæð mismunun í uppröðun ræðumanna. Aðalatriðið er að við karlarnir komumst að sem er nauðsynlegt þó ekki væri nema til þess að undirstrika þá staðreynd að jafnréttismál eru ekkert einkamál kvenna né umræða um þau.

Það er sömuleiðis rétt hjá hv. málshefjanda að það er ekki við það að sakast hér að okkar löggjöf sé ekki nógu góð, að lögin tryggi ekki fullt jafnrétti. Það gera þau samkvæmt orðanna hljóðan í 3. og 4. gr. jafnréttislaganna til að mynda, en niðurstaðan er hins vegar sú að fögur orð eru ekki nóg. Það þarf meira til. Menn geta haft háleit og göfug markmið og þau geta staðið í lögum lon og don ef hugsunarhátturinn breytist ekki og aðgerðir fylgja ekki til þess að ráða bót á því sem aflaga fer.

Ég held að við ættum ekki að missa þetta mál út í mikinn flokkslegan meting þó ég geti að sjálfsögðu óskað Sjálfstfl. hjartanlega til hamingju með að hafa uppgötvað jafnréttismálin og þó fyrr hefði verið, en ég læt mér nægja að minna á það að minn flokkur, Alþb., reið á vaðið fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka og reyndar langfyrstur, tók upp kynjakvóta í öllum stofnunum, nefndum og ráðum innan sinna vébanda og hefur með margvíslegum hætti haft þessi mál á dagskrá um áratuga skeið.

Varðandi launamisréttið, eða þann þátt mismununar kynjanna sem snýr að launahliðinni vil ég nefna og sérstaklega í tengslum við þá staðreynd að fyrir dyrum standa allsherjarkjarasamningar í landinu, að einn ljótasti bletturinn á ástandinu er auðvitað hið kynbundna launamisrétti sem liggur fyrir og fram hefur komið í úttektum á því máli. Það skýrist þannig að launamunurinn, hinn kynbundni launamunur, heldur innreið sína í vaxandi mæli eftir því sem óumsamdar launagreiðslur, yfirvinna og óumsamdar uppbætur af ýmsu tagi, leggjast ofan á laun. Það leiðir síðan til þess sem, ýmsir hafa að vísu misskilið að launamunur vex með menntun, ekki vegna þess að það sé menntunin sem slík sem sé þar að verki, heldur hitt að slíkar óumsamdar greiðslur ofan á launin fara vaxandi eftir því sem komið er ofar í launaþrepunum og menntunin er orðin meiri. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að nefna hugmyndir vinnuveitenda nú um að fara í vaxandi mæli út á þá braut að semja persónubundið og einstaklega við hvern og einn. Þær eru stórhættulegar í sambandi við það sem hér er til umræðu, þ.e. kynbundinn launamun og kynbundið launamisrétti. Ég skora á verkalýðshreyfinguna að vera sérstaklega á verði gegn þessum hugmyndum einmitt út frá launamisréttinu sem viðgengst og liggur fyrir og er að verulegu leyti kynbundið.

En auðvitað er það margt fleira, herra forseti, sem kemur við sögu og þarf að ræða ef á að taka jafnréttismálin til einhverrar tæmandi umfjöllunar. Jafnréttismálin eru nátengd stöðu fjölskyldunnar og lífskjörum og aðstæðum öllum í landinu. Ég nefni þar bæði vinnuþrælkunina og t.d. skattamálin, jaðarskattana, og ekki síst mál eins og fæðingarorlof. Það er enginn vafi á því að við erum þar langt á eftir öðrum sem við vildum helst bera okkur saman við hvað varðar stöðu beggja foreldra, hvað varðar algert réttleysi feðra í okkar kerfi sem bitnar á konunum þegar út á vinnumarkaðinn er komið í þeim skilningi að þær og þær einar hafa rétt til þess að taka fæðingarorlof. Það sem þarf að gera að mínu mati er tvennt. Það þarf að lögleiða sjálfstæðan rétt feðra til að taka orlof við fæðingu barna, sem er óyfirfæranlegur þannig að hann falli niður ef feðurnir nota hann ekki. Það mun að sjálfsögðu leiða til þess að hann verður almennt nýttur og mun bæta stöðu kvenna mjög mikið gagnvart því að barneignirnar bitni ekki á þeim á vinnustað og það þarf að innleiða miklu rýmri reglur eða í raun og veru koma því til leiðar að foreldrar geti eftir atvikum skipt fæðingarorlofinu á milli sín eins og þeim hentar best út frá aðstæðum á vinnustað. Þetta tvennt er mjög mikilvægt fyrir svo utan það að það þarf að lengja hér fæðingarorlof og það er til háborinnar skammar að við skulum vera þar ekki einu sinni hálfdrættingar á við þau Norðurlönd sem best gera í þessum efnum.

Auðvitað er það þannig að jafnrétti verður ekki komið á í reynd og á borði að öllu leyti nema á löngum tíma og með markvissum aðgerðum. Þetta er spurning um stanslausa baráttu, um stanslausa umræðu, um fræðslu, um uppeldisleg atriði sem þarf að halda vakandi ekkert síður en til að mynda forvörnum gegn reykingum eða öðrum slíkum hluti. Reynslan sýnir að ef menn sofna á verðinum, ef menn slaka á, ef umræðan fellur niður, þá fer okkur að miða aftur á bak. Þess vegna er mikilvægt að þessi mál séu jafnan höfð á dagskrá og ég þakka málshefjanda sem hefur fyrir sitt leyti m.a. stuðlað að því hér í dag.