Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:38:16 (758)

1996-11-04 16:38:16# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, fyrir þetta mál, þetta er brýnt mál. Nú er það svo að það er ekkert misjafnt í lögum nema fæðingarorlof á milli kynja þannig að ekki er við þau að sakast nema fæðingarorlofið.

Herra forseti. Það er umhugsunarefni að lítið sem ekkert hefur áunnist í jafnréttismálum kynjanna í 20 ára baráttu. Það er mjög sorglegt og ég held að menn ættu að huga að því hvort þeir séu að horfa á afleiðingar einhvers eða orsök. Það að einblína á mismun karla og kvenna getur leitt menn frá vandanum sem er misrétti fólks. Nú er svo að ríkustu Íslendingarnir og tekjuhæstu eru konur. En það lagar ekki stöðu konunnar í frystihúsinu á Ísafirði. Ég vil fullyrða að rík, ættstór kona í réttum flokki er miklu betur sett heldur en fátækur, ættlaus karlmaður í röngum flokki. (Gripið fram í: Hvað er réttur flokkur?) Ég ætla að eftirláta þingmanninum hvað sé réttur flokkur hverju sinni.

Ég held nefnilega ekki að við séum að tala um misrétti kynjanna. Við erum að tala um misrétti fólks og vegna þess að menn hafa einblínt á misrétti kynjanna, þá næst enginn árangur. (Gripið fram í: Enginn árangur náðst?) Mjög lítill árangur hefur náðst, hv. þm.

Herra forseti. Ég hef velt því fyrir mér: Hvernig hefur fyrirtæki efni á því að ráða lakari karl en hæfari konu eða að borga jafnhæfum karlmanni hærri laun heldur en jafnhæfri konu? Hvernig hefur það efni á því? Það er vegna þess að það er ekki gerð krafa til arðsemi í fyrirtækjunum, alls ekki í opinberum fyrirtækjum og jafnvel ekki í einkafyrirtækjum. Það þykir ljótt að græða. Vegna þess arna hafa menn leyft sér að borga karlmönnum hærri laun heldur en konum sem er efnahagslega ekki rökrétt.

Herra forseti. Það eru fjöldamörg önnur atriði sem koma inn í þetta mál, t.d. fæðingarorlofið. Ég hef lýst yfir stuðningi við það að karlmönnum verði gert að taka hluta af fæðingarorlofinu til þess að konur séu ekki verr settar gagnvart fyrirtækinu þegar á að fara að ráða þær því að það er heilmikill kostnaður fólginn í því fyrir fyrirtæki þegar fólk hverfur úr vinnu eins og konur gera þegar þær taka fæðingarorlof.

Herra forseti. Afstaða og jafnvel fordómar karla jafnt sem kvenna til kvenna eru mjög afdrifaríkir og hafa mikið að segja um launamisréttið. Karlar trúa því ekki margir hverjir að konur geti verið góðir stjórnendur sem dæmi og konur ekki heldur. Þær trúa því ekki heldur sjálfar að þær geti verið góðir stjórnendur. Þessu þarf að breyta. Það er þessi afstaða fólks til kvenna, bæði karla og kvenna til kvenna, sem þarf að breyta. Það er nefnilega spurningin að við horfum hvert okkar í eigin barm. Erum við kannski að stunda kynbundið uppeldi? Getur verið að strákarnir fái annað uppeldi en stelpurnar? Getur verið að við segjum við strákinn: Strákar gráta ekki, en segjum við stúlkuna: Stelpur slást ekki. Getur verið að við gefum mismunandi gjafir í afmælisveislum. Ég var í afmælisveislu um daginn, afmælisveislu fimm ára barns og það var gefin greiða og dúkka og dúkkuhús. Þið getið ímyndað ykkur hvers kyns barnið var. Það þarf ekki að segja mér það tvisvar. Það var enginn bolti, ekki bíll. Getur verið að við séum að búa til afstöðu þarna, segja börnunum: Þú átt að gera þetta. Þetta er þitt hlutverk í lífinu.

Það tekur áratugi að breyta slíkum viðhorfum en það verður að gera það. Og ég held að það sé langbest að snúa sér að skólakerfinu því að þar höfum við áhrif og hvetja það til þess að hvetja einstaklinginn, ekki pilta eða stúlkur, heldur hvern einstakling til dáða.

Herra forseti. Við höfum ekki efni á misrétti, hvorki með tilliti til réttlætis né hagkvæmni. Það er sárt að horfa upp á það að óhæfari einstaklingur fær stöðu og það er dýrt fyrir þjóðina að óhæfari einstaklingar reka stærstu fyrirtæki landsins heldur en einhverjir hæfari sem gætu rekið þau miklu betur.