Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 17:23:11 (764)

1996-11-04 17:23:11# 121. lþ. 16.2 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er komið enn aftur til umfjöllunar mjög mikilsvert mál, frv. til skipulags- og byggingarlaga sem, eins og hefur komið fram áður í máli hæstv. ráðherra, er að koma hér til umfjöllunar í þriðja sinn. Ég tel mjög mikilsvert að þetta mál nái fram að ganga núna í vetur. Mér er ljóst að það er mjög mikið fram undan, það eru flókin mál og ekki einfalt að koma þessu máli í gegn. Það þarf mikla vinnu við það en ég heiti því að ég mun leggja mitt af mörkum til þess að málið fái þann framgang sem til þarf.

Það sem verið er að vinna að, og kemur greinilega fram í markmiðssetningunni, er að þróun byggðar og landnotkun á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafa efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi sem segir ekkert smáræði um það sem fram undan er við vinnuna. Í öðru lagi að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í þriðja lagi að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinar sé hafður að leiðarljósi. Og í fjórða lagi að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt, svo farið sé yfir markmiðssetninguna. Um er að ræða geysivíðfeðman málaflokk og margt sem þarf að taka til.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að sveitarfélögum með færri íbúa en 1.000 skuli skylt að mynda sameiginlega byggingarnefnd með nágrannasveitarfélagi eða nágrannasveitarfélögum. Ég tel að þarna sé ákvæði sem er hárrétt og á rétt á sér, en það getur vel verið að í fjölmennum sveitarfélögum og þegar mikið er um framkvæmdir, þá þurfi að vera sér byggingarnefnd og sér skipulagsnefnd. Það er ekki óeðlilegt en ég held að það sé farsælast ef unnt er að láta þessa tvo málaflokka falla í einn. Ég held líka að það sé nauðsyn að binda skipan nefnda við lágmarksíbúafjölda. Þetta segir auðvitað það, sem oft og tíðum á rétt á sér, að dreifbýli og þéttbýli eigi að vinna saman að þessum málum og ég tek undir það.

Í 6. gr. frv. er getið um nauðsyn þess að heilbrigðisfulltrúar sitji fundi byggingar- og skipulagsnefnda. Það held ég að sé ákvæði sem á virkilega rétt á sér. Þetta er nýmæli. Þessir málaflokkar sem heilbrigðisfulltrúar fara með og fjalla um samtvinnast ærið oft því sem byggingar- og skipulagsnefnd hafa verið að fjalla um þannig að ég tek undir þetta.

Í 9. gr. er fjallað um að allt landið sé skipulagsskylt. Það er mikil nauðsyn og ég tek undir þetta og fagna því í raun hvernig þetta er sett fram í frv.

Ég ætla ekki að flytja langt mál en mig langar að fjalla örlítið um 51. gr. og kannski 52. gr. frv. Þær eru nátengdar og fjalla að nokkru leyti um löggildingu hönnuða. Hér er kveðið á um, og er í rauninni nýmæli, hvaða skilyrði hönnuðir þurfa að uppfylla til þess að geta unnið sem slíkir. Hönnuðir þurfa að hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis. Þeir þurfa að hafa sérhæft sig á viðkomandi sviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum aðila. Meginreglan er sú að umsækjendur hafi þriggja ára starfsreynslu, þar af minnst eins árs reynslu hér á landi. Í vottorði um starfsreynslu skal gera grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hefur unnið á starfsreynslutímanum. Það er eðlilegt að þetta sé sett fram, en það sem þarf að gá að er að við hönnun hér á landi hafa iðnmeistarar unnið um áratuga skeið. Ég held að það þurfi að gæta að réttindum þeirra aðila sem hafa verið að vinna þessi störf, bæði iðnfræðingar, rafvirkjameistarar, pípulagningameistarar o.s.frv. Ég vil sérstaklega taka á þessum greinum og mun reyna að sjá til þess í umfjöllun umhvn. að gætt verði að réttindum þeirra manna sem hafa unnið þessi störf og að þeim sem nú eru að hefja iðnnám eða tækninám verði fullkomlega ljóst hvað til þarf til þess að þeir geti öðlast rétt til að hanna kerfi og fá löggildingu sem slíkir.

Það hlýtur að vera eðlilegt að tryggja þeim aðilum rétt sem hafa unnið á þessum sviðum undanfarin ár og ég treysti því að hv. umhvn. tryggi þeim sem hafa unnið og hannað teikningar áframhaldandi rétt til þess.

Ég ætla, herra forseti, ekki að setja fram neinar sérstakar spurningar. Ég vildi aðeins taka á þeim atriðum sem eru í lagagreinunum frá 50 til 53. Ég hef aðeins komið inn á þessi mál. Það verður mikið og margt til umræðu í umhvn. í vetur og þetta mál eitt og sér mun taka gífurlegan tíma þó svo ég sé ekki að boða neina ósátt í málaflokknum, ég er alls ekki að gera það, heldur til þess að ná yfir það sem þarf að gera.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en að sjálfsögðu þegar það kemur til umræðu aftur, hvenær sem það verður.