Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 18:39:33 (770)

1996-11-04 18:39:33# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[18:39]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu um markmið í lífrænni og vistrænni framleiðslu íslenskra afurða. Ég byrja á því að þakka meðflutningsmönnum mínum fyrir aðild þeirra að málinu og fyrir að vilja vera með í þessu og almennt góðar undirtektir. Ég vil í upphafi máls míns benda á það að hv. varaþingmaður, Þuríður Backman, flutti um daginn mál sem heitir aðlögun að lífrænni framleiðslu og ég held að rétt sé að geta um það í upphafi að við sammæltumst um að biðja um að þessi mál væru tekin saman til umfjöllunar í landbn. Mér finnst eðlilegt að árétta það því það eru sömu flm. á báðum þessum tillögum og ég tel að þau eigi samleið.

Frumkvæði að þessum málum, að sérstöku átaki um lífræna og vistræna framleiðslu, áttu þingflokksformenn á afmælishátíð lýðveldisins á Þingvöllum 1994, með þáltill. um sérstakt átak í markaðssetningu og framleiðslu lífrænna og vistrænna afurða. Þessi tillaga er í raun framhald, og að mínu mati eðlilegt framhald af þeirri samþykkt.

Nágrannalönd okkar hafa flest sett sér markmið í þessum efnum. Þau búa þó við þann ókost að jörð er mengaðri af völdum áburðarnotkunar á mörgum svæðum en þekkist hér á landi sem skýrist af legu landsins.

Miklar breytingar eiga sér stað á aðferðum við framleiðslu matvæla. Ástæðan er aukin krafa neytenda til umhverfisþátta og siðferðisþátta í umgengni við dýr, svo og um aukin gæði framleiðslu og hollustu fæðunnar.

Mikilvægt er að koma á jafnvægi milli náttúruverndarsjónarmiða, gæða með tilliti til heilsufars og góðrar meðferðar á skepnum og þjóðhagslegra sjónarmiða sem lúta að arðbærum rekstri atvinnugreinanna.

Á Íslandi er framleiðsla lífrænt ræktaðra afurða lítil, en þó hefur í nokkurn tíma verið stunduð slík ræktun og hefur náðst mjög góður árangur. Má þar nefna bændur í Pétursey í nágrenni Víkur í Mýrdal, Skaftholti í Gnúpverjahreppi, Sólheimum í Grímsnesi, Dyrhólum, Mýrdal, Neðri-Hálsi í Kjós og Vallarnesi á Héraði sem dæmi. Afurðir þessara bænda eru mjög eftirsóttar og hafa vakið athygli fyrir hollustu, og seljast þær vel þegar þær eru í boði.

Neytendur krefjast í æ ríkari mæli meira framboðs lífrænna matvæla og gera einnig kröfu til þess að fæðuframleiðslan taki tillit til umhverfisþátta. Einnig er þung áhersla lögð á að landbúnaður valdi sem minnstu álagi á umhverfið og framleiði gæðavöru.

Traust neytenda á lífrænt ræktuðum vörum á sér stoð í þróuðu eftirlitskerfi og leyfisveitingu. Nú eru fyrirliggjandi lög nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu, og reglugerð þar að lútandi þannig að sú umgerð er til staðar og er tilgangur tillögu þessarar að fylgja þeim eftir.

Ef skyggnst er fram til þess tíma sem tillaga þessi er miðuð við má gera ráð fyrir að neytendur muni þá gera enn stífari kröfur í þessum efnum. Það markmið að árið 2002 verði hlutur lífrænna framleiðsluvara 20% af smávöruverslun á heimamarkaði má því teljast eðlilegt.

Langtímamarkmið í landbúnaði verður að snúast um sjálfbæran búskap sem er grundvöllur lífrænnar matvælaframleiðslu og að greinin standist kröfur um vörugæði, meðferð dýra og vistvæna sambúð við náttúruna. Matvælaframleiðslan verður að byggja á samstilltri hringrás lífræns efnis. Ljóst er að maturinn endurspeglar umhverfið sem hann er framleiddur í. Því verður að skerpa áherslur varðandi þessi mál til að svara kröfum tímans.

Íslendingar, íslenskir bændur, eiga að setja sér það markmið að framleiða búvörur í heimsins hreinasta landi. Með þessu markmiði getum við mætt alþjóðasamkeppni. Við þurfum að geta sagt og staðið við þau skilaboð til umheimsins að Íslendingar rækti í hreinustu jörðinni, noti hreinasta vatnið, búi við hreinasta loftið og lúti ströngustu kröfum um meðferð matvæla.

Nágrannaþjóðir okkar hafa sett sér markmið um lífræna framleiðslu. Danir stefna t.d. að því að árið 2000 verði 15--20% landbúnaðarframleiðslu þeirra viðurkennd sem slík, þar af grænmeti u.þ.b. 50%, og stefna þeir að verulegum útflutningi lífrænt ræktaðs grænmetis ásamt auknu framboði á heimamarkaði.

Sums staðar erlendis hefur notkun áburðar og varnarefna aukist gífurlega frá árinu 1970 og því er framboðsaukningin gífurleg. Heildarframleiðsla margfaldaðist í fyrstu, dróst síðan snögglega saman til ársins 1980 en hefur aukist jöfnum skrefum síðan þá. Talið er að sjö alþjóðleg fyrirtæki ráði u.þ.b. 80% af matvælamarkaðinum í heiminum. Því er ekki að undra að fjármagnið leiti út fyrir frumframleiðsluna.

[18:45]

Lífrænn landbúnaður væri mótvægi við þessa þróun. Kostnaður af aðföngum og vélum minnkar sem vegur upp tekjutap vegna minni uppskeru. Milliliðakostnaður er miklu minni á lífrænum mörkuðum sem skilar sér í auknum tekjum til bænda. Þetta verður tvímælalaust hagur þjóðfélagsins og landbúnaðarins í heild sinni því að vistræn framleiðsla hlífir umhverfinu og gerir kröfur til þess að viðkvæm svæði séu ekki ofbeitt. Það mun draga úr kostnaði vegna efnamengunar en það stuðlar að betri ímynd landbúnaðarins.

Með þessari tillögu er fylgiskjal sem er ræða dr. Nicolas Lampkin frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins við háskólann í Wales þar sem hann lýsir sjálfbærri þróun á eftirfarandi hátt:

,,Sjálfbærni er meginatriði í lífrænum landbúnaði og ræður hún m.a. úrslitum um hvort tilteknar framleiðsluaðferðir fást viðurkenndar eða ekki. Orðið ,,sjálfbærni`` er notað í víðasta skilningi og nær ekki aðeins til verndunar óendurnýjanlegra auðlinda (jarðvegs, orku, steinefna) heldur einnig til málefna er varða umhverfislega, efnahagslega og félagslega sjálfbærni. Best er að líta svo á að orðið ,,lífrænn`` lúti ekki aðeins að þeim aðföngum sem notuð eru heldur að búinu sjálfu sem lífrænni heild þar sem allir þættir --- jarðefnin, lífræn efni, örverur, skordýr, skepnur og menn --- orka hver á annan og mynda samstæða og stöðuga heild.``

Þetta er aðeins, herra forseti, örlítil tilvitnun í þá ræðu sem er fylgiskjal með frv. en í henni er því lýst á hvern hátt aðlögun í landbúnaði við framleiðslu lífrænna og vistrænna afurða getur átt sér stað og hvað kemur til.

Segja má í lokin, herra forseti, að lífrænn og vistrænn landbúnaður sé lykillinn að bættri sambúð manns og náttúru, landbúnaðar og samfélagsins.

Ég mælist til þess, að lokinni þessari umræðu, að málinu verði vísað til hv. landbn. og ég ítreka enn að ég óska eftir að þessi tvö mál, sem ég nefndi áðan, sem hv. varaþm. Þuríður Backman flutti fyrir nokkrum dögum verði tekin sameiginlega til umfjöllunar hjá hv. landbn.