Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 18:48:19 (771)

1996-11-04 18:48:19# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[18:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú till. til þál. sem hefur verið mælt fyrir er mikilvægt mál sem ég styð eindregið að fái þinglega meðferð og vandaða athugun í viðkomandi þingnefnd. Áður er fram komin og rædd í þinginu önnur till. til þál., um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem hv. varaþm. Þuríður Backman, sem sat á þingi fyrir skömmu, flutti og vísað hefur verið, að ég best veit, til hv. landbn. Ég styð það sjónarmið frá 1. flm. þessa máls að bæði málin fái sameiginlega meðferð þar sem þau eru nátengd og lúta að sama markmiði þó að þar sé um tvennt að ræða í þessum þingmálum. Ég þakka hv. þm. frumkvæðið að því að flytja þetta mál inn í þingið og skapa umræðu um það og styðja það með fylgiskjali sem hér er að finna með þingmálinu.

Það eru fáeinar ábendingar af minni hálfu. Auðvitað er það óvissu háð hversu langt menn geta náð á þeim tíma, sem er til ársins 2003, en ekki ætla ég að draga úr því markmiði sem þar er sett fram. Það er alveg ljóst að margt þarf til að koma til að menn geti vænst þess að því markmiði verði náð. Þess vegna er mjög brýnt að stjórnvöld marki stefnu um þessi efni og hér er gert ráð fyrir að starfshópur skili mótaðri áætlun um markmið í lífrænni og vistrænni framleiðslu íslenskra afurða. Ég tel í rauninni að slíkur starfshópur þyrfti að leggja til og fjalla um hvernig líklegt sé að það megi ná því markmiði sem hér er sett og skili um það tillögum til stjórnvalda. Ekki sem sagt aðeins varðandi markmiðin í lífrænni og vistrænni framleiðslu. Það má að vísu skilja það á ýmsan veg en ég vænti þess að hv. flm. hafi í huga aðgerðir, stuðningsaðgerðir, af stjórnvalda hálfu til að ná því markmiði að um 20% framleiðslu hefðbundinna landbúnaðarafurða verði lífrænar árið 2003. Þetta kann bara að vera spurning um skilning á orðalagi sjálfrar tillögunnar. Væntanlega erum við sammála um það, hv. flm. og ég, að marka þarf þessa stefnu sem skýrast og það fyrr en seinna.

Ég vil einnig nefna það í þessu samhengi þar sem vikið er að ekki aðeins lífrænni framleiðslu, heldur að viðurkenningu íslenskra matvælaafurða sem vistvænna. Inn í þetta samhengi koma samræður sem ég átti við hæstv. umhvrh. seint á síðasta þingi um þá reglugerð sem sett var, ég held á grunni búvörusamnings, um skilyrði fyrir vistvænni framleiðslu og ég vakti athygli á með fyrirspurnum að þyrfti í rauninni að fá traustari undirstöðu til þess að alls væri gætt í því sambandi. Þar hafði ég sérstaklega í huga að tryggja það að framleiðsla á kjöti, sauðfjárafurða ekki síst, væri á beitilandi sem þyldi það álag, þyldi beitina, þannig að um sjálfbæran búskap væri að ræða varðandi undirstöðuauðlindina undir slíkri framleiðslu. Ég held að því máli verði að halda vakandi þannig að þessu verði gefin traust undirstaða og í rauninni getur tæpast verið ágreiningur um að þannig verðum við að haga okkar búskap. Við megum ekki fara að stimpla eitthvað sem vistvænt sem ekki lýtur eðlilegum kröfum, sjálfbærni, eins og það er kallað í sambandi við framleiðsluna í heild sinni.

Inn í þetta mál mætti auðvitað taka spurninguna um matvælaframleiðslu og landbúnað almennt. Ég get, virðulegur forseti, ekki á mér setið eftir að hafa farið svo vinsamlegum orðum um sjálft þingmálið að nefna það við hv. 1. flm. málsins að sú stefna sem flokkur hans hefur staðið fyrir í sambandi við innflutning landbúnaðarafurða og að byggja þær inn í GATT-kerfið út frá ýtrustu neytendasjónarmiðum fellur afskaplega illa, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að þeirri hugsun sem í raun kemur fram í þessu máli. Það má því segja að hér rekist dálítið hvað á annars horn hjá talsmanni Alþfl. sem 1. flm. og áherslum hans flokks í sambandi við matvælaframleiðslu í heiminum og dreifingu matvæla sem ég tel að byggi á afskaplega, ekki bara veikum heldur röngum grunni hugmyndalega séð, og fái langt frá því staðist kröfur um sjálfbæra þróun. Hér er um að ræða eitt af þeim djúpstæðu ágreiningsefnum sem ég og margir minna flokksmanna eiga við Alþfl. í sambandi við landbúnaðarmál. Ekki það að ég sé einhver verndari harðsvíraðs kerfis, sem stundum er um talað, í sambandi við búvöruframleiðslu þar sem verið sé að hafa að ástæðulausu af kaupendum vörunnar í landinu. Það er auðvitað enginn sem í rauninni tekur undir slíkt og margt þarf þar endurskoðunar við. En við þurfum að fara af fyllstu alvöru yfir þá spurningu: Er rétt að láta markaðinn og ýtrustu hagkvæmnissjónarmið ráða hvað lifir í sambandi við landbúnaðarframleiðslu í heiminum?

Þá spái ég að þeir váboðar sem eru uppi varðandi hungurvofuna gerist áleitnari en þeir eru nú fyrir vaxandi fjölda fólks á jörðinni þegar farið er að reyna að pína með ýtrustu framleiðsluaðferðum upp uppskeru af æ minna landi til landbúnaðarframleiðslu þar sem aflögð yrði svokölluð óhagkvæm landbúnaðarframleiðsla víða í heiminum, þar á meðal á Íslandi, sem og víða annars staðar á norðurslóðum þar sem margt er vegna umhverfisþátta kannski dýrara og kostnaðarmeira í raun. En spurningin um öryggi, um jarðveginn, um möguleikann á að nýta jörðina er undirstöðuþáttur í þessu máli. Við þurfum að gæta þess að ganga ekki fram gegn eðlilegum lögmálum náttúrunnar og ég vara Alþfl. sterklega við að halda áfram að keyra, eins og hann hefur gert í þessum efnum, sem og aðra sem undir það taka, að mínu mati í hugsunarleysi, kannski í góðri meiningu en í raun hugsunarleysi.