Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:09:16 (775)

1996-11-04 19:09:16# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:09]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Við erum á svipuðu róli, ég og hv. síðasti ræðumaður. Þegar verið er að velta fyrir sér til hvers það gæti leitt að við næðum auknum mörkuðum fyrir íslenskt lambakjöt, verðum við vissulega að hafa það í huga að við verðum að vernda landið. En þannig háttar til á okkar landi núna að stór svæði á landinu þola gífurlega aukna beit. Ég minni á ákveðin svæði á Vesturlandi svo sem Dalabyggð þar sem að mati hæfustu manna er mikið land sem þyldi miklu meiri beit. Ég minni á Vestfirði þar sem að mati hæfustu manna segi ég, og þá er ég að vitna í þá menn sem að því starfa, er töluvert af landi vannýtt. En við þurfum auðvitað að nýta þá staði sem gefa færi til þess.

Ég ætla ekki, herra forseti, að ræða mikið um GATT, verndaraðgerðir eða neytendamálin. Þau verða í umræðu á miðvikudaginn eftir því sem ég best veit í utandagskrárumræðu og ég ætla ekkert að fara út í það frekar. Ég held fast við mína skoðun um að það megi ekki ofgera með skattlagningu eða verndaraðgerðum því að það leiðir ekki til góðs til lengri tíma litið.