Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:10:59 (776)

1996-11-04 19:10:59# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:10]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þess er náttúrlega að gæta í sambandi við alþjóðaviðskipti með landbúnaðarafurðir að þar er allt með mjög skrýtnum formerkjum. Gífurlegur ríkisstuðningur er innan Evrópusambandsins við þetta. Það er svo óralangt frá því að sú vörudreifing lúti einhverjum samkeppnislögmálum í reynd þannig að það er ekki hægt að taka undir það, miðað við þær aðstæður sem nú eru, að nokkur glóra sé í því og einnig að teknu tilliti til samkeppnisaðstæðna. Þó að þær væru jafnaðar þá verða menn að veita umhverfissjónarmiðunum forgang í þessu efni.

Það er alveg rétt sem hv. ræðumaður sagði um sauðfjárafurðirnar. Það finnast svæði á Íslandi þar sem hægt er að auka álag á gróðurlendið. En kerfið er á engan hátt í stakk búið til þess að beina aukningu framleiðslu á tiltekin svæði á landinu. Við búum við þær hörmulegu aðstæður. Það hefur ekki tekist að breyta búskaparháttum með tilliti til landgæða svo að neinu nemi og það er eitt brýnasta verkefnið að gera það og veita þeim aðilum sem búa við aðstæður sem leyfa í raun eðlileg sauðfjárbú, aðstöðu til framleiðslu en takmarka hana annars staðar en opna fyrir aðra möguleika þar. Þetta pólitíska verkefni blasir við. Það er ekkert auðvelt. En ef menn meina eitthvað með sjálfbærri þróun og að skjóta eðlilegum stoðum undir okkar búskaparhætti, þá verða menn að gera þetta.