Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:57:34 (781)

1996-11-04 19:57:34# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:57]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu en ég vildi nefna það hér að mér finnst að hv. flutningsmaður málsins sé allt of viðkvæmur fyrir þeim mælikvarða sem verið er að leggja og þeirri aðferðafræði sem liggur að baki mati á umhverfisáhrifum. Ég get ekki tekið undir það sjónarmið sem þar kemur fram. Ég held að það væri hins vegar til bóta að fella þau ákvæði og kannski gera þau almennari, undir einmitt skipulagslöggjöf þannig að þessi viðkvæmni sem málflutningur hv. þm., virðulegur forseti, ber vott um, stingi ekki í auga eins og þingmaðurinn og kannski fleiri, ég geri ráð fyrir fleiri, vilja lesa í málin. Ég mæli með því að menn reyni að leita almennra mælikvarða sem gætu verið kannski hlutlausari en hv. þm. vill skilja þetta og að það verði athugað í sambandi við að fella þessi lög um mat á umhverfislögum að skipulagslöggjöf, sem er verkefni sem við þurfum að sinna.

Síðan vil ég koma því á framfæri vegna þess sem tekið var hér fram sérstaklega um Hólasand og þau skilyrði sem þar hafa verið sett, að ég tel að þar hafi menn tekið mjög eðlilega á máli af hálfu þeirra sem hafa farið í mat á þessum málum. Viðfangsefnið, sem er að hindra útbreiðslu lúpínu sem dæmi um innflutta tegund, er mjög stórt verkefni sem þarf að bregðast við mjög víða um land á næstunni til að halda þeirri tegund í skefjum vegna þess að hún á ekki heima hér og stofnar til mikilla vandræða og gróðurbreytinga sem ekki eru farsælar. Þar á meðal eru verkefni við að útrýma þeirri tegund á bökkum Laxár og við Mývatn þar sem hún hefur skotið rótum. Við eigum ekki að standa vörð um það heldur að beita okkur fyrir því, og jafnframt að koma í veg fyrir að þessari tegund sem og öðrum, sem kaffæra gróðurlendi sem fyrir er með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir framtíðina, sé haldið í skefjum og menn sýni þá aðgát sem skylt er. Það tel ég að sé verið að gera með þessari greiningu varðandi uppgræðsluaðgerðir á Hólasandi sem geta verið jákvæðar út af fyrir sig og eru það vafalítið, þ.e. að það sé tekið á slíkum málum í sambandi við aðhaldsaðgerðir.