Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 20:00:17 (782)

1996-11-04 20:00:17# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., Flm. TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[20:00]

Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nýmæli í þingsölum að flokka undir viðkvæmni deilur af því tagi sem hafa staðið milli mín og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ef það er einhver viðkvæmni fólgin í því að telja skynsemina fara svolítið aðrar leiðir en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vill fara þá er það mjög sérkennileg viðkvæmni. Ég tel bara að það sé verið að fara óskynsamlega leið þarna. Ég er ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir því ef menn vilja fara óskynsamlegar leiðir. En ég vil alla vega ekki taka þátt í því. Ég átta mig ekki alveg á þessari umfjöllun um viðkvæmni. Hitt er svo annað mál, þetta tiltekna dæmi sem hér var tekið, þ.e. að það bæri að mati hv. 4. þm. Austurlands að útrýma lúpínu við Mývatn þar sem hún hefur vaxið í áratugi eða á bökkum Laxár, án þess að valda þeim skaða, að mínu mati, að það þurfi að bregðast sérstaklega við því þá er bara um þetta ágreiningur. Sumir segja að hún valdi miklum skaða. Aðrir segja að hún geri það ekki. Það eru miklu fleiri erlendar tegundir sem vaxa við Mývatn en lúpína. Það er heill skrúðgarður þar. Það er heill skrúðgarður við Mývatn þar sem vaxa fjölmargar erlendar tegundir. Það er bara fullkomið álitamál og erfitt að kveða upp úrskurð um það hvort þessar erlendu tegundir eru þarna í trássi við einhver lögmál sem við viljum verja. Ég vil ekkert vera að útrýma þeim þó þetta séu aðrar tegundir en hafa kannski vaxið þarna frá örófi alda. Ég vil bara minna á að flóra Íslands er í sjálfu sér miklu fátæklegri en hún var áður fyrr. Hér óx áður ölur og fura eins og við vitum sennilega jafn vel, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Síðan dóu þær út þessar plöntur. Ætlum við þá að standa sífellt vörð um okkar fátækt í lífkerfinu?