Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 20:04:58 (784)

1996-11-04 20:04:58# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., Flm. TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[20:04]

Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Virðulegi foreti. Það er að sjálfsögðu þannig að ég er ekkert á móti því að stofnunum á borð við Landgræðslu og Skógrækt sé ekki gefið sjálfdæmi í svona málum. Það hefur mér aldrei dottið í hug að segja. Það er ekkert því til fyrirstöðu, ef menn vildu styrkja þennan þátt í áætlanagerðinni innan þessara stofnana, að þar kæmu að verki ráðgefandi nefndir sem væru utan stofnunarinnar og kæmu með álit þannig að stofnunin væri ekki gerð sjálfráð um sín mál í þessum efnum. Það hefur bara ekki hvarflað að mér.

Hitt er annað mál að ég hef á tilfinningunni að menn líti almennt til of skamms tíma þegar verið er að meta árangurinn og áhrifin af uppgræðslu. Þar á meðal af uppgræðslu með lúpínu. Það er alveg ljóst mál að ef við friðum land, t.d. í Eyjafirði --- ég hef sjálfur af því persónulega reynslu --- þá verða verulegar breytingar á gróðurlendinu þar. Heilu tegundirnar hverfa. En þær hverfa ekki af landinu, hv. þm. Þær hverfa af þessu svæði vegna þess að þar eru skilyrðin þannig að þær eru áberandi í gróðurríkinu á meðan beitin er mikil en þegar beitin minnkar hverfa þessar plöntur vegna þess að aðrar plöntur nýta sér þær aðstæður sem fyrir hendi eru. Þannig að þær hverfa (HG: ... ákveðin gróðurlendi.) Nákvæmlega, nákvæmlega hv. þm., um þetta erum við sammála. Með tíð og tíma skapar friðunin gjörbreytingu á gróðurlendinu en friðunin útrýmir að sjálfsögðu ekki plöntum. Eins er það með lúpínuna að ég held að ekkert hafi bent til þess sérstaklega að lúpínan sé að útrýma neinu gróðurríki á Íslandi.