Ríkisreikningur 1995

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 13:38:15 (786)

1996-11-05 13:38:15# 121. lþ. 17.4 fundur 99. mál: #A ríkisreikningur 1995# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[13:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Frv. þetta sem er að finna á þskj. 102 og er 99. mál þingsins er samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1995, en hann var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta þingsins í ágúst 1996 og hefur honum verið dreift á hinu háa Alþingi.

Á síðasta þingi var gerð gangskör að því að afgreiða ríkisreikninga margra ára, og var það að sjálfsögðu tímabært, en með þessu frv. er fram haldið því markmiði mínu að ekki dragist á langinn að stíga lokaskrefið við að afgreiða fjárhagsárið 1995. Hugmyndin er að við upphaf hvers þings liggi fyrir ríkisreikningur og frv. um ríkisreikning á hverju ári þannig að um leið og verið er að afgreiða fjárlög og fjáraukalög geti menn haft undir ríkisreikning ársins áður. Í þessu eru fólgnar miklar framfarir frá því sem áður var.

Ríkisstjórnin samþykkti á síðasta ári stefnu um nýskipan í ríkisrekstri þar sem sagði m.a. að ríkisreikningur og fjárlög skuli sýna bæði skattgreiðendum og stjórnvöldum eins glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkisins og frekast er kostur. Framsetning ríkisreiknings fyrir árið 1995 er þáttur í framkvæmd stefnunnar um nýskipan í ríkisrekstri. Með útgáfu ríkisreiknings fyrir árið 1995 var haldið áfram á þeirri braut að gera reikninginn aðgengilegri og í meira samræmi við þær aðferðir sem tíðkast við ársreikningsgerð fyrirtækja. Ríkisreikningurinn hefur verið nær óbreyttur í þrjá áratugi en ársreikningar fyrirtækja hafa verið gerðir nútímalegri og betri sem stjórntæki í rekstri. Með myndrænni framsetningu og ítarlegri skýringum en áður tíðkaðist er lesendum ríkisreiknings þannig auðveldað að skilja hann og meta. Það er auðvitað mikilvægt til þess að veita ríkisrekstrinum nauðsynlegt aðhald.

Á undanförnum árum hefur skipulega verið unnið að breytingum í ríkisrekstrinum og smám saman hefur sú vinna skilað árangri og tekið á sig skýrari mynd. Markmiðið er að koma á hugarfarsbreytingu í ríkisrekstrinum en hún felst í því að stjórnvöld líti á sig sem kaupendur þjónustu fyrir hönd skattgreiðenda og stöðugt þarf að spyrja hvort þörf sé fyrir tiltekna starfsemi, hvort ríkið eigi að veita hana eða hvort hún sé betur komin hjá öðrum. Breytt framsetning fjárlaga og ríkisreiknings, útboðsstefna sem fylgt hefur verið, verkefnavísar sem gefnir eru út, en þeir eru eins konar kennitölur í ríkisrekstrinum, og ný starfsmannalög sem kveða m.a. á um að hverri stofnun skuli setja markmið til lengri tíma --- allt þetta á það sameiginlegt að stuðla að þessari hugarfarsbreytingu. Landsmenn eiga kröfu á að vita til hvaða verkefna fé þeirra er nýtt, hvert sé markmið með rekstri stofnana og hvernig megi mæla árangur þeirra. Það er von mín að þær breytingar sem gerðar voru á útgáfu ríkisreiknings styrki fjármálastjórn ríkisins og efli eðlilegt aðhald.

Á árinu 1995 nam tekjuhalli ríkissjóðs 15,2 milljörðum kr. eða 13,3% af tekjum ársins. Árið á undan nam hallinn 15,6 milljörðum kr. eða 14,1% af tekjum ársins. Hallinn lækkaði því lítils háttar á milli ára. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nam 18,5 milljörðum kr. á árinu 1995 sem jafngildir 4% af landsframleiðslu ársins, samanborið við 15,5 milljarða kr. árið 1994 eða um 3,6% af landsframleiðslu þess árs.

Tekjur ríkissjóðs námu alls 114,2 milljörðum kr. á árinu 1995 eða 25% af landsframleislu ársins. Frá árinu á undan hækkuðu þær um 3,8 milljarða kr. eða um 3,5%.

Hækkun tekna sundurliðast þannig að skatttekjur hækka um 6,4 milljarða kr. en vaxtatekjur og aðrar tekjur lækka um 2,6 milljarða kr. Hækkun skatttekna skiptist þannig að tekju- og eignarskattar hækka um 2,9 milljarða kr., virðisaukaskattur um 1,6 milljarða kr., tryggingagjöld um 900 millj. kr. og aðrir skattar á vöru og þjónustu um 1 milljarð kr.

Tekjur ríkissjóðs á árinu 1995 skiptust þannig að skattar á tekjur námu um 18,5%, tryggingagjöld og launaskattar um 10,2%, eignarskattar 3,5% og skattar á vöru og þjónustu um 60,8%. Þá voru fjármunatekjur 6,6% og aðrar tekjur 0,4%. Af sköttum á vöru og þjónustu er virðisaukaskattur stærstur og var sem fyrr helsti tekjustofn ríkissjóðs eða 36,2% af heildartekjunum, en skattar af framleiðslu og innflutningi námu 12,7%.

Gjöld ríkissjóðs námu alls 129,4 milljörðum kr. á árinu 1995 eða 28,4% af landsframleiðslu ársins. Gjöld ríkissjóðs hækkuðu um 3,4 milljarða kr. eða um 2,7% á milli ára. Af einstökum liðum sem hækka á milli ára má nefna lífeyris- og sjúkratryggingar, en þær hækkuðu um 1,4 milljarða kr., fjármagnskostnaður ríkissjóðs um 1,6 milljarða kr., útgjöld til heilbrigðismála um 0,9 milljarða kr. og framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 0,8 milljarða kr.

Á þessu sést að útgjöld ríkissjóðs hafa fyrst og fremst aukist í svokölluðum velferðarmálum en markmið ríkisstjórnarinnar hefur verið að reyna að halda útgjöldunum niðri en þrátt fyrir þá viðleitni hefur það gerst sem eðlilegt má teljast að útgjöld til þessa málaflokks hafa hækkað og langsamlega stærsta ástæðan fyrir því er auðvitað sú að aldur þjóðarinnar er að hækka og veldur að sjálfsögðu útgjaldaauka á þessu sviði. Þetta segi ég hér til þess að undirstrika það að ekki hefur verið um niðurskurð að ræða í velferðarmálum þjóðarinnar heldur hefur verið reynt að halda útgjaldaaukningunni í skefjum.

[13:45]

Árið 1995 námu rekstrar- og viðhaldsgjöld um 39,9% af gjöldum ríkissjóðs, lífeyrisskuldbindingar 2,9%, fjármagnskostnaður 12,4%, stofnkostnaður 5,5% og tilfærslur 39,3%. Af einstökum gjaldaflokkum voru tryggingamál fjárfrekust eða um 22,3% af heildinni, heilbrigðismál 15,9% og mennta- og menningarmál 13,2%. Gjöld til þessara málaflokka að viðbættum vaxtagjöldum af lánum námu 63,8% af gjöldum ríkissjóðs á árinu 1995. Er það ívið hærra hlutfall en árið á undan en þá nam það 62,2%.

Vaxtagjöld og lántökukostnaður ríkissjóðs námu alls 16,0 milljörðum króna á árinu 1995 samanborið við 14,3 milljarða króna árið á undan. Með stöðugum hallarekstri ríkissjóðs undanfarin ár hafa vaxtagjöld orðið sífellt fyrirferðarmeiri útgjaldaliður hjá ríkissjóði. Þannig námu vaxtagjöldin 12,4% af útgjöldum ríkissjóðs árið 1995 samanborið við 10,2% árið 1990.

Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 1995 námu 233 milljörðum kr., en að teknu tilliti til lánveitinga voru þær rúmlega 155 milljarðar kr. eða rúm 34% af landsframleiðslu ársins. Af lántökum ríkissjóðs árið 1995 var um fimmtungs aflað á innlendum markaði. Ákveðið var að selja ekki húsnæðisbréf til fjáröflunar Húsnæðisstofnunar á árinu og tók ríkissjóður að sér að hafa milligöngu um öflun lánsfjár til að brúa fjárþörf byggingarsjóðanna. Í reikningsskilunum kemur þetta fram sem lántaka ríkissjóðs og jafnframt sem lánveiting hans til sjóðanna. Á árinu 1995 veitti ríkissjóður Byggingarsjóði ríkisins rösklega 8,1 milljarð kr. í langtímalán. Samkvæmt greiðsluuppgjöri ársins 1995 nam tekjuhalli ríkissjóðs 8,9 milljörðum kr. og hækkar hann í 15,2 milljarða kr. við uppgör á ríkisreikningi eða um 6,3 milljarða kr. Í stuttu máli skýrast þessi frávik af því að við lokauppgjör þarf ávallt að taka tillit til ýmissa þátta sem hafa ekki greiðsluhreyfingar í för með sér en fela í sér skuldbindingar eða kröfur fyrir ríkissjóð. Stærstu liðir af þessu tagi í uppgjöri ársins 1995 eru 3,0 milljarðar kr. vegna lífeyrisskuldbindingar ársins og áfallnir ógjaldfallnir vextir jukust um 3,1 milljarð kr. á milli ára.

Hér er með öðrum orðum, virðulegi forseti, verið að skýra það hvers vegna halli á rekstrargrunni er yfir 6 milljörðum meiri en á greiðslugrunni. Ástæðan er fyrst og fremst af tvennum toga. Annars vegar vegna áfallinna en ógoldinna vaxta og hins vegar vegna lífeyrisskuldbindinga sem ekki koma til útgreiðslu fyrr en eftir mörg ár. Þetta veldur mismuninum á ríkisreikningnum annars vegar og fjárlögunum hins vegar. En eins og fram hefur komið er stefnt að því að breyta þessu innan tíðar og það verður gert verði frv. um fjárreiður ríkisins að lögum, en það hefur þegar verið lagt öðru sinni fyrir Alþingu. Á síðasta þingi tókst góð samstaða um það mál og vonast ég til þess að það geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi. Þar er m.a. gert ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að setja fjárlögin fram á reikningsgrunni eins og ríkisreikninginn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. heldur vísa til ítarlegra greinargerða og skýringa í ríkisreikningnum og með þessu frv.

Að þessari umræðu lokinni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.