Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:21:58 (790)

1996-11-05 14:21:58# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu við að bæta það sem hefur þegar komið fram í umræðunni af hálfu tveggja síðustu ræðumanna. Ég vil sérstaklega draga athyglina að einum þætti málsins sem snýr að því að manna embætti í hinni opinberu þjónustu úti í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt, samtímis því sem þarft og rétt getur verið að endurskoða meðferð þessara mála, að hafa eftir sem áður í huga að embættisbústaðir, að tryggt húsnæði er í mörgum tilvikum verulegur hluti af því að tryggja að unnt sé að manna mikilvæga opinbera þjónustu í fjölmörgum byggðarlögum.

Það kemur inn á það sem hv. síðasti ræðumaður, Kristín Ástgeirsdóttir, nefndi vissulega að þar er húsnæði hluti af kjörum viðkomandi starfsmanna en það kemur einnig inn á þær aðstæður sem þar er við að glíma, svo sem í þeim tilvikum þegar menn koma tímabundið til þess að gegna störfum í afskekktum byggðarlögum eða annars staðar þar sem svo háttar til að búast má við því að nokkur hreyfing sé á mönnum í hinum einstöku embættum.

Staðreyndin er auðvitað sú, og því þýðir ekkert að neita, að það er verulega á brattann að sækja varðandi það að manna ýmsar stöður og halda úti þjónustu. Sem dæmi má taka í heilbrigðiskerfinu. Við getum tekið héraðslækna, við getum tekið dýralækna og fleiri slíka embættismenn jafnvel þó um sé að ræða þokkaleg launakjör og starfsaðstæður að öðru leyti.

Það liggur algerlega í hlutarins eðli að við þær aðstæður að menn eru að koma tímabundið til starfa, þá er hvorki raunhæft né praktískt að viðkomandi húsnæði skipti jafnan um eiganda. Það liggur í hlutarins eðli að mínu mati að það er í þágu þeirrar þjónustu og allra málsaðila að fyrir hendi sé tryggt húsnæði og frambærilegt sem unnt sé að vísa þeim embættismönnunum á sem þarna eiga í hlut.

Þessar aðstæður kosta oft og tíðum óumflýjanlega ákveðin útgjöld. Það er þekkt og um það er vonandi ekki deilt að í vissum tilvikum er óhjákvæmilegt að samfélagið taki á sig viss útgjöld umfram það sem eru samfara því að veita sömu þjónustu við hagstæðustu skilyrði í þéttbýlinu. Þetta er viðurkennt í reynd. Loksins eftir langa mæðu fékkst það viðurkennt að nauðsynlegt væri að hafa tilteknar staðaruppbætur sem hluta af kjörum t.d. héraðslækna sem störfuðu við þær sérstöku og erfiðu aðstæður að vera í einmenningshéruðum, vera á vakt allan sólarhringinn og taka á sig það vinnuálag og það erfiði og þá einangrun sem því er samfara. Oftast er það svo að slíkum erfiðum störfum gegna menn ekki nema tímabundið og hluta úr starfsævinni og þá liggur í hlutarins eðli að ekki er við því að búast að slíkir menn kaupi það húsnæði sem þeir tímabundið búa í vegna þannig starfa. Ríkið er með útgjöld t.d. í gegnum staðaruppbæturnar sem eru viðurkenning á þeirri staðreynd að það mun kosta eitthvað meira að veita þessa þjónustu við þannig aðstæður. Þar af leiðandi er það að mínu mati jafneðlilegur hlutur í raun og veru að þáttur eins og húsnæði sé tekið inn í þá mynd. Spurningin er sú ef menn færu út í óraunhæfar æfingar í þeim efnum að selja embættisbústaði í slíkum héruðum, hvort það gæti ekki komið ríkinu í koll og jafnvel kostað meiri útgjöld þegar frá líði í formi þess að menn yrðu þá að bæta það upp með hærri staðaruppbótum og öðrum slíkum hlutum.

Þetta held ég, herra forseti, að sé óhjákvæmilegt að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd og vissulega gerir frv. út af fyrir sig ráð fyrir því að hægt sé að bregðast við að einhverju leyti með einhverjum sveigjanlegum hætti í þessum efnum. Ég tel reyndar að tónninn í þessu máli hafi skánað allverulega síðan í fyrra. Bæði voru breytingartillögur meiri hluta efh.- og viðskn. flestar í rétta átt og sá andi sem yfir vötnunum sveif í kringum frv. eins og það var lagt fram í fyrra hefur heldur skánað. Þá var helst að heyra að það stæði til að selja þetta allt saman og það væri bara markmið í sjálfu sér án tillits til annarra hluta og afleiðinganna. Þá var svona meira einkavæðingar- eða einkavinavæðingarofstæki í málinu. Þetta var pínulítill angi, að vísu mjög lítill angi, af einkavæðingarfárinu öllu saman og maður eiginlega þakkaði fyrir að ekki stæði til að stofna hlutafélög um alla embættisbústaðina. Það hefði verið alveg í takt og síðan skipaði hæstv. ráðherra fimm manna stjórnir flokksbræðra sinna til að fara með hvert einstakt hús. Það hefði verið í stíl við annað sem kallað er á fínu máli einkavæðing og hlutafélagavæðing en felst í því að þrengja mjög og auka miðstýringuna í efnahagsmálum með því að í stað t.d. þingkjörinna stjórna sem farið hafa með nokkrar af stærstu stofnunum landsins, þá á nú að koma það fyrirkomulag að viðkomandi ráðherrar skipi með handafli einir stjórnirnar og það er kallað lýðræði, valddreifing, hlutafélagavæðing og guð má vita hvað. En það stendur ekki til, ekki enn sem komið er svo vitað sé, að stofna hlutafélög um alla embættibústaðina.

En að öllu gamni slepptu, herra forseti, þá dreg ég ekkert úr því að það hafi verið full þörf á því að fara yfir þessi mál og endurskoða þau, m.a vegna þess að stefna ríkisins í þessum efnum var afar brotakennd. Það er vissulega rétt að það var ekki alltaf samræmi í því hvar var boðið upp á embættisbústaði og hvar ekki þannig að ég er með þessum orðum síður en svo að gera lítið úr því að það hafi verið þörf á því að fara yfir þá hluti og hluti eins og upphæð á húsaleigu og annað því um líkt. Auðvitað ber að leitast við að hafa þarna eitthvert samræmi eftir því sem kostur er og þau mál hafa víða verið í ólestri hjá ríkinu. Það hafa verið hlægilegir hlutir í gangi, svo sem varðandi leigu á húsum og afgjöld af jörðum o.s.frv. sem vissulega er ástæða til að taka á, en það þarf að gera það fordómalaust, kreddulaust, með raunsæi í huga gagnvart þeim aðstæðum sem við er að glíma í þessum efnum. Og ég endurtek það að ég er þá sérstaklega með í huga þær aðstæður sem eru uppi hvað varðar það að veita mikilvæga, opinbera þjónustu á tilteknum svæðum landsins. Það er þannig að því fólki sem þar býr finnst afar miklu máli skipta að á þeirra aðstæðum sé sýndur skilningur og það sé ekki flokkað sem annars flokks þegnar í landinu gagnvart því að njóta mikilvægustu undirstöðuþjónustu sem auðvitað á að sjá öllum landsmönnum fyrir án tillits til búsetu. Og það verður að takast að hafa sátt um það í þjóðfélaginu að menn séu tilbúnir til að axla í vissum tilvikum meiri kostnað vegna sérstakra aðstæðna þegar svo ber undir. Og þetta með húsnæðið og allar aðrar aðstæður sem eru því samfara að veita t.d. heilbrigðisþjónustu á öllu landinu á sama grundvelli að breyttu breytanda eftir því sem slíkt er hægt, flokkast tvímælalaust þar undir. Ég vona því að hæstv. ráðherra taki þessi orð eins og þau eru meint, þ.e. vel og sem vinsamlegar ábendingar í þessu efni þannig að unnið verði að þessum málum tiltölulega kreddulaust eftir því sem hægt er að búast við slíku nú á þessum síðustu tímum.