Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:46:41 (793)

1996-11-05 14:46:41# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er ekki miklu við að bæta. Ég bendi á að í 4. gr. frv. er fjmrh. veitt heimild. Ástæðan fyrir því að þetta er gert með lögum er það að ég tel að ekki sé góð regla að verið sé að semja um lægri vexti en markaðsvexti án lagaheimildar. Ég reyndi að skýra það áðan að þetta kann að hafa áhrif á sjálft húsverðið. Það er eðlilegt að húsverðið sé hærra ef vextirnir eru lægri. Ég hygg að ástæðan fyrir því að farin er þessi leið sé sú að með þessu séu menn að líkja eftir veðsetningu á húsum sem séu á svipuðum aldri og þau hús sem þarna á að selja. Ég bendi einnig á að það sem þarna er sagt er að það skuli hvíla innlausnarskylda á þessum eignum í allt að fimm ár. Það eru skilyrði sem eru sjaldnast í kaupsamningum og síðan er vitnað til þess að í reglugerð eigi að taka fram aðra þætti sem um getur og almennir eru.

Það er auðvitað ætíð þannig að ef um er að ræða ívilnandi kjör eins og hérna er um að ræða þá er vandmeðfarið með þau fyrir ráðherra á hverjum tíma. En í ljósi þess að það kann að vera hagsmunamál, bæði fyrir ríkið og viðkomandi íbúa í viðkomandi húsi að koma á slíkum kaupsamningi, kann að þurfa að grípa til hluta eins og þessara. Að öðru leyti óska ég eftir því að nefndin --- ég hygg að hv. þm. sé í nefndinni --- líti á þetta ákvæði.