Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:48:47 (794)

1996-11-05 14:48:47# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:48]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi vaxtakjörin sem hér er verið að ræða um þá er þetta prinsippmál. Vitaskuld hafa þessir einstaklingar möguleika á því að fá lán og nýta m.a. húsbréfakerfið ef svo ber undir eins og aðrir þegnar í landinu. Vitaskuld hafa þeir líka tök á því að yfirtaka lán á þessum eignum á hvaða vaxtakjörum sem þau svo sem eru, það er bara eins og gildir fyrir hvern annan þegn í þessu landi. Ég lýsti mig hins vegar reiðubúinn til að veita þeim sérstaka lánafyrirgreiðslu með hærra lánshlutfalli til lengri tíma. En það á ekki að lögfesta niðurgreidda vexti eins og hér er gert. Mér skilst að það hafi verið rætt í ríkisstjórn að breyta fyrirkomulagi Stofnlánadeildar þar sem m.a. er tekist á um að hve miklu leyti eiga að vera niðurgreiddir vextir í þeim málaflokki. Ég veit vel að hæstv. fjmrh. kann það vel á þá aðferð og þá umræðu að það á ekki að stuðla að því að niðurgreiddir vextir séu í þjóðfélagi okkar. Það er alveg sama hvar maður ber niður. Það er við sérstakar aðstæður eins og í félagslega íbúðakerfinu, og sem er mun umdeildara inni í lánakerfi í landbúnaðinum. Menn geta tekist á um það, en það er algjörlega rangt, herra forseti, að það sé verið að lögbinda það með þessum hætti hér eða heimila. Það ætti miklu frekar að búa til ívilnandi lán með hærra lánshlutfalli og lengri lánstíma. Það væri eðlileg aðstoð við þá embættismenn sem væru að kaupa íbúðina frekar en sú nálgun sem hér er lögð til.