Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:51:22 (795)

1996-11-05 14:51:22# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 72 liggur fyrir till. til þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Þessi tillaga er óbreytt frá því hún var flutt í fyrra en þá gafst ekki tími til að mæla fyrir henni og var hún því ekki rædd.

Ég vil láta það koma fram strax að ég tel afar brýnt í þjóðfélagi okkar að móta markvissa fjölskyldustefnu og að margt í þjóðlífi okkar gæti færst til betri vegar ef okkur tækist að móta stefnu og framfylgja henni. En meginforsendur fjölskyldustefnunnar eru eins og segir í þskj.:

,,Fjölskyldan er hornsteinn íslensks samfélags. Ríkisstjórn á hverjum tíma ber að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar.

Opinber fjölskyldustefna hefur það markmið að efla fjölskylduna í nútímaþjóðfélagi. Verkefni hennar eru margþætt og snerta öll svið þjóðlífsins. Hún spannar því nánast öll viðfangsefni opinberrar stjórnsýslu.

Fjölskyldustefna skal einkum taka mið af eftirfarandi meginforsendum:

að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar,

að fjölskyldan er vettvangur tilfinningatengsla,

að fjölskyldulífið veiti börnum öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta.``

Það er um þessa meginpunkta að segja að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar. Við ræddum í gær nokkuð um jafnrétti þannig að ég mun ekki fjalla mjög um það í dag. En ég vil leggja áherslu á þessa sameiginlegu ábyrgð innan fjölskyldunnar. Ég held að hana skorti í þjóðfélagi okkar. Áður bjuggum við við annað fjölskylduform, þá var stórfjölskyldan við lýði og þrír ættliðir dvöldust gjarnan undir sama þaki. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir einstaklingana að þeir séu hluti af heild, skynji sig sem hluta af fjölskyldu, finni að einhverjir tilheyri þeim og að þeir tilheyri einhverjum. Þar kemur það inn á þann punkt að fjölskyldan er vettvangur tilfinningatengsla. Það er einnig mjög mikilvægt að fjölskyldulífið veiti börnum öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta. Nú geta stjórnvöld, þ.e. ríkisvaldið, ekki staðið að þessu eitt. Hér þurfa allir að hjálpast að. Sveitarfélögin gegna mjög mikilvægu hlutverki til þess að skapa börnum öryggi og tækifæri til þroska. Ég tel að á síðustu árum hafi orðið mikil framför að þessu leyti. Mönnum eru orðnar ljósari þarfir barna og hversu mikilvægt er að þau séu örugg. Ég nefni heilsdagsskóla, ég nefni samfelldan skóladag, ég nefni úrbætur í umferðarmálum.

Gott er að hafa markmið til að keppa að. En það þarf að vera mögulegt að ná þeim. Það er nauðsynlegt að skapa skilyrði til að jafnvægi verði á milli fjölskyldulífsins og atvinnu foreldra. Til þess að fjölskyldulíf geti þrifist þarf fjölskyldan að eiga sér samastað, þ.e. húsnæði til að búa í og til að dveljast í. Fólk þarf að hafa tekjur til þess að geta veitt sér a.m.k. lágmarksþarfir til lífsframfæris. Þar af leiðir að fólk þarf að búa við atvinnuöryggi. Við höfum búið við það á undanförnum árum að vinnudagurinn hefur verið mjög langur á Íslandi, lengri en í flestum nágrannalöndum. Ég tel að okkur beri að keppa að því að stytta vinnudaginn og ég hygg að sú hugsun sé að fá betri hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Ég vonast eftir að í komandi kjarasamningum takist mönnum að koma sér saman um að stytta vinnudaginn. Frá Brussel hefur borist tilskipun um hámarksvinnudag, 48 stundir á viku, þ.e. með vissum sveigjanleika og undantekningum. En mjög mikill hluti íslenskra foreldra vinnur lengri vinnuviku en 48 stundir. Þetta er atriði sem mér finnst ekki eiga að lögfesta eða að löggjafinn eigi ekki að koma að þessu máli fyrr en í fulla hnefana. Ég treysti aðilum vinnumarkaðarins til að koma sér saman og ég veit að töluverð vinna er í gangi sem menn ganga einlæglega að að stytta vinnudaginn. Ég held líka að það væri mjög mikilvægt í komandi kjarasamningum og í kjarasamningum framtíðarinnar að menn reyndu að breyta launastrúktúrnum í landinu þannig að dagvinnan gæfi meira á kostnað yfirvinnu og aukagreiðslna. Launakerfið yrði sýnilegra og það mundi bæta siðferði í launamálum einnig. Þetta vænti ég að menn hugleiði við gerð kjarasamninga.

Varðandi atvinnuna er það gleðilegt að við virðumst vera að komast út úr því þjakandi atvinnuleysi sem hefur verið viðvarandi undanfarin ár. Störfum hefur stórfjölgað í landinu og samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa á milli 5.000 og 6.000 störf bæst við á undanförnum missirum og það er mjög gleðilegur árangur. Við framsóknarmenn töluðum um að það þyrfti að bæta við 12.000 störfum til aldamóta fyrir síðustu kosningar. Við vorum nokkuð sproksettir fyrir þetta eftir síðustu kosningar en nú hygg ég að þær raddir séu þagnaðar og það liggi ljóst fyrir að hér skapist jafnvel fleiri en 12.000 störf til aldamóta. Víða um land vantar starfskrafta og mikil ásókn hefur verið í að flytja inn útlendinga, þ.e. fólk bæði af Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur sama rétt til vinnu hér og við og einnig fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég gæti ímyndað mér að hér væru að störfum á milli 1.500--2.000 erlendir ríkisborgarar.

Ég tel mjög mikilvægt að reyna að varðveita atvinnustigið, líka það að menn venjist ekki atvinnuleysi. Ég held að það sé ákaflega niðurdrepandi sálarlega að vera atvinnulaus og reynslan sýnir að mönnum hættir til að lenda þar inni í vítahring og ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld og allir aðilar hjálpist að um að rjúfa þann vítahring ef mögulegt er þannig að fólk reyni að fá sér vinnu ef hana er að hafa og sem betur fer er hana að hafa eins og stendur. Að vísu hafa um 900 manns verið atvinnulausir lengur en eitt ár og ég lét kanna það fyrir skömmu.

[15:00]

Líka er lagt til að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar og leikskólar, starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldunnar, m.a. með fjölskylduráðgjöf. Ég hygg að með yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið stigið allmikið skref í þessa átt og ég fagna mjög þeirri vinnu, sem er orðin víða í skólakerfinu, þ.e. foreldrar taka sívaxandi þátt í skólastarfinu, foreldrafélög, og láta sér annara um skólann en þau gerðu á tímabili. Ég tel að kennarastéttin eigi að taka þessu fagnandi. Það er ekki kennaranna einna að ala upp börnin. Kennarar og foreldrar þurfa að hjálpast að og hlutur foreldranna má ekki liggja eftir. En stundum virðist manni að með löngum vinnudegi foreldra ætlist þau e.t.v. til þess að börnin séu alin upp í skólanum nær eingöngu.

Varðandi efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar þá þarf hún náttúrlega að búa líka við aðstæður í húsnæðismálum sem eru sæmilega öruggar. Um það mætti fara mörgum orðum. Það skortir nokkuð á að svo sé hér. Leigumarkaður er ófullkominn og ótryggur. Það er dýrt að byggja viðunandi húsnæði á Íslandi og íbúðarhúsnæði er dýrt og það hafa ekki allir burði til þess að standa undir því að eiga eigið húsnæði. Skuldir heimilanna eru mjög mikið áhyggjuefni í samfélagi okkar og þær fara vaxandi þrátt fyrir að tilburðir séu uppi við að aðstoða fólk við að greiða úr þeim eftir því sem mögulegt er, en það er eins og þjóðin sé nokkuð eyðslusöm, þ.e. menn eru fjárfestingaglaðir og hlífa sér ekkert við því að skuldsetja sig í mörgum greinum.

Talið er að kaupmáttur hafi vaxið um 10% samanlagt á undanförnum tveimur árum. En bara á þessu ári hefur innflutningur bíla og dýrra heimilistækja vaxið milli 60--70% og það er náttúrlega langt fram yfir það sem kaupmátturinn kynni að vísa okkur á. En skuldirnar vaxa líka. Þær vaxa að hluta til af óviðráðanlegum orsökum fyrir einstaklingana með vaxtahækkunum, lánskjaravísitölu eða vísitöluhækkun á lánum en einnig vegna þess að endar ná ekki saman. Menn eyða meiru en aflað er. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, sem sett var upp í fyrravetur, hefur unnið mjög gott starf og þar var tekin saman stórfróðleg skýrsla um aðstæður 317 fyrstu viðskiptamanna stofunnar. Margt fróðlegt sem kemur þar fram og ég ætla ekki að fara ítarlega í það enda hygg ég að hv. alþm. hafi fengið þessa skýrslu í hólfin sín. Mér þótti við hæfi að kynna hana þingheimi því að þar er margt sem er mjög sláandi og fróðlegt.

Skuldirnar eru ekki bundnar við einsleitan hóp. Þær eru ekki bundnar við láglaunastéttir sérstaklega eins og maður hefði getað búist við. Meðaltekjur þessara nauðleitarmanna stofnunarinnar eru 146 þús. Þessir 317 skulduðu samtals 2,1 milljarð og vanskil þeirra voru 1,5 millj.

Herra forseti. Um þetta má fara miklu fleiri orðum og ég hef reyndar ekki komist yfir nema hluta af þeim verkefnum sem tekið er á í þessari fjölskyldustefnu en tími minn er á þrotum. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. félmn.