Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:16:24 (797)

1996-11-05 15:16:24# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við skulum nú vera að fjalla um málefni fjölskyldunnar og tillögu sem liggur fyrir um mótun opinberrar fjölskyldustefnu. En það er jafnframt mjög dapurlegt hversu fáir þingmenn sjá ástæðu til að sitja undir umræðunni eða taka þátt í henni og ekki síst hversu fáir af karlpeningnum hér innan þings sjá ástæðu til að sitja undir umræðunni. Mér finnst það vanvirða við hana vegna þess að við erum að fjalla um mjög stórt mál. Hitt er annað mál að þó að ég lýsi ánægju minni með að við fjöllum um þetta mál, þá er sú ánægja nokkuð blendin vegna þess að ég leyfi mér að draga í efa og set fram þá spurningu hvort slík stefnumótun sem hér er sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar muni breyta einhverju fyrir hag fjölskyldna í landinu.

Það er nú einu sinni svo að umhverfi fjölskyldna á Íslandi er mjög dapurlegt, ekki síst fólks með lágar tekjur og meðaltekjur. Og jafnvel þó að við séum í góðæri og uppsveiflu sér þess ekki stað í kjörum fjölskyldunnar. Ég veit ekki hvort það er af tilviljun að á sama degi og hæstv. félmrh. er að mæla fyrir mótun opinberrar fjölskyldustefnu skuli vera heil síða um fátækt á Íslandi í málgagni hans, Degi-Tímanum. Ritstjóri blaðsins telur tilefni til þess að skrifa leiðara sem ber yfirskriftina ,,Fátækir fá ekkert`` og heil síða er frá félagsmálastjóra í Kópavogi, þar sem við stjórn er Sjálfstfl. og Framsfl. Þar talar hann um mikla fátækt á Íslandi. (Gripið fram í.) Og nýverið hefur málgagn hins stjórnarflokksins fjallað um mikla fátækt á Íslandi og þar kom fram að um 32 þúsund manns lifa undir fátæktarmörkum á Íslandi.

Auðvitað þurfum við fjölskyldustefnu en skilar hún einhverju? Ísland er sett á bekk með sjö ríkustu þjóðum heims og það endurspeglast ekki í kjörum fólksins. Launin eru með því lægsta sem við þekkjum, langur vinnutími o.s.frv. Skuldir heimilanna vaxa ört og ekki síst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég minnist þess að flokkur hæstv. félmrh. býsnaðist mjög mikið yfir skuldum heimilanna þegar hann var í stjórnarandstöðu. En bara á þessu ári er áætlað að skuldir heimilanna muni aukast um 25 milljarða kr. og hafa sjálfsagt aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar á einu og hálfi ári eða tveimur árum um 40--50 milljarða kr.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun líka að í einu dagblaðanna í dag fjallar leiðarahöfundur um heilsuspillandi ríkisstjórn. Hann talar um hvernig þessi ríkisstjórn hefur farið með heimilin í landinu. Til dæmis að ekki er notið afrakstursins af GATT-samningunum þar sem ofurtollar ríkisstjórnarinnar hafa skilað því á einu eða tveimur árum að skuldir heimilanna hafi hækkað um 1.300 millj. kr. vegna hækkunar á grænmeti. Manni finnst hálfdapurlegt og svolítil þversögn í því að vera að fjalla um opinbera stefnu ríkisstjórnarinnar þegar litið er til fjárlaga þessara tveggja ára sem ríkisstjórnin hefur setið, þ.e. fyrir næsta ár og þetta ár. Hver voru skotmörk ríkisstjórnarinnar? Það voru aldraðir, það voru öryrkjar, það voru heimilin í landinu, það voru atvinnulausir og hann er langur sá slóði sem ríkisstjórnin ber í því máli. Það er daglegt brauð að við í stjórnarandstöðunni fáum hringingar frá fólki, ekki síst öldruðum og öryrkjum, sem eru að leita vægðar hjá stjórnarandstöðunni, reyna að finna skjól þar fyrir þessum árásum ríkisstjórnarinnar á kjör aldraðra og öryrkja.

Í bókinni Barnafjölskyldur er úttekt á stöðu fjölskyldna hér á landi og talað um að fjölskyldan sé orðin afgangsstærð í íslensku þjóðfélagi. Þess vegna skil ég ekki að í þessari þáltill. er eina handfasta aðgerðin sú, að gera eigi úttekt á stöðu og afkomu barnafjölskyldna í nútímasamfélagi. Sú úttekt liggur fyrir. Það er það eina sem er raunverulega handfast í tillögunni. Hvaða mat er lagt á það af hálfu stjórnvalda þegar verið er að meta hvar áherslur og forgangur á að liggja? Hvar liggur þjóðarauðurinn hjá þessari ríkisstjórn? Og reyndar fleirum. Það er fyrst og fremst verið að tala um hagvöxt, viðskiptahalla og ríkisfjárlagahalla og sjálfsagt væru fleiri hér inni í salnum ef verið væri að tala um það. En þegar við erum að tala um mannauðinn, hvernig hlúð er að fjölskyldunum, þá eru fáir hér. Og fáir setja það í forgang þegar verið er að leggja áherslur t.d. í ríkisfjármálum. Það vantar alla heildaryfirsýn þegar verið er að forgangsraða í ríkisfjármálum. Ég þekki það líka frá tíð minni sem ráðherra að alla heildaryfirsýn vantar yfir hvaða áhrif einstakar aðgerðir í heilbrigðismálum, í skattamálum, í félagsmálum og í menntamálum o.s.frv., þegar þær eru allar komnar saman, hafa á afkomu einstakra fjölskyldna í landinu. Og ég vona, af því að ég veit að þetta er af góðum hug gert hjá hæstv. félmrh. að setja fram þessa tillögu og hann hefur góðar meiningar í þessu efni, að þetta fjölskylduráð sem á að stofna fái það hlutverk að skoða áhrif og afleiðingar einstakra stjórnvaldsaðgerða á heimilin og afkomu þeirra, ekki síst við fjárlagagerðina. Þá vaknar auðvitað spurning í mínum huga: Hve mikið mark verður tekið á því?

Við þekkjum það líka, fyrir utan það sem ég hef nefnt um stöðu fjölskyldna og afkomu, hvernig hún hefur þróast. Við vitum að ýmis mein eru í þjóðfélaginu, fíkniefnaneysla, áfengisneysla, afbrot barna og unglinga og aukin sjálfsvíg. Allt hefur þetta aukist á tiltölulega skömmum tíma. Þess vegna er nauðsynlegt að móta opinbera fjölskyldustefnu. En það skiptir máli hvort fara á eftir henni. Ég spyr: Hvaða hugur fylgir hér máli? Hér er talað um að þetta fjölskylduráð eigi að annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldna og í greinargerð er sagt að þetta séu sambærilegar áætlanir sem á að gera varðandi framkvæmdaáætlun um jafnréttismál kynjanna. Við fjölluðum um hana í gær. Við fjölluðum um það lið fyrir lið, hvernig einstök ráðuneyti hafa hunsað þá framkvæmdaáætlun og hvernig ástæða er til að félmn. þingsins taki ráðherrana, hvern og einn, inn á teppið til að fara yfir hvað þeir hafa gert í þessum málum frá því að sú áætlun tók gildi en eitt ár lifir af henni. Eru það sambærilegar áætlanir sem hér á að gera? Mér sýnist að ýmsar áætlanir í framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna snerti málefni fjölskyldunnar þannig að þær áætlanir munu þá skarast.

Ég spyr: Til hve langs tíma á að skipa þetta fjölskylduráð? Það kemur ekkert fram um það. Ég hef efasemdir um hvernig það er skipað, fimm manna fjölskylduráð, þrír frá þinginu, einn frá háskólanum og ráðherra skipar einn. Þetta þarf sérstaklega að skoða af hálfu þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að það hefur frekar dregið úr því biti, sem þó var á áætluninni, sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir mælti fyrir á síðasta þingi, með því að sjóðurinn sem á að styrkja og stuðla að þróun fjölskyldumála er felldur brott.

Ég spyr í lokin: Af hverju sést ekki einn einasti sjálfstæðismaður í salnum við þessa umræðu? Ég skora á þá sjálfstæðismenn, sem eru einhvers staðar í húsinu eða á sínum skrifstofum og hlýða á mitt mál, að koma og vera við þessa umræðu og segja sitt álit á þessari fjölskyldustefnu vegna þess að þeir hafa að mínu mati fyrst og fremst verið þrándur í götu þess að opinber fjölskyldustefna hafi náð fram að ganga.