Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:34:16 (799)

1996-11-05 15:34:16# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Mig grunaði ekki að það yrði hlutskipti mitt að standa í þessari pontu tvo daga í röð og ákalla hv. þingmenn af karlkyni. Hv. kynsystur mínar hafa þegar gert það og ég bæti minni rödd í þann kórinn.

Það ber að fagna framlagðri þáltill. frá hæstv. félmrh. um fjölskyldustefnu. Hér eru sett fram almenn markmið og að baki þeim liggur grunnhugsun sem ég hygg að fáir setji sig upp á móti. En markmiðin eru, eins og segir reyndar í tillögunni, mjög almenn. Í I. kafla er talað um meginforsendur fjölskyldustefnu og sagt að það þurfi að styrkja fjölskylduna án tillits til gerðar hennar. Ég vil sérstaklega taka undir þessi orð og benda á þau. Mér finnst á stundum gæta nokkuð gamaldags hugsunarháttar varðandi fjölskylduna á Íslandi. Við búum einfaldlega ekki lengur í samfélagi þar sem pabbi, mamma, börn og bíll búa saman undir einu þaki. Það vita hv. þm. allir. Við búum í samfélagi þar sem enn eru við lýði leifar stórfjölskyldunnar. Þær lýsa sér m.a. í miklu vinnuálagi á ömmur landsins sem ekki þurfa aðeins að sinna stálpuðum og fullorðnum börnum sínum heldur einnig barnabörnum sínum. Ég hygg að margir kannist við þetta heima hjá sér. Svo eru einnig fjölskyldur á Íslandi mjög samsettar. Tíðni skilnaða gerir það m.a. að verkum. Helmingi hjónabanda á Íslandi, ef ég man rétt, lýkur með skilnaði þannig að fjölskyldan er ekkert einfalt mál. Það væri vissulega fróðlegt að fá t.d. út því skorið hvort tvær aldraðar systur sem halda heimili saman og hafa gert kannski í 30 ár og eru ellilífeyrisþegar teljist fjölskylda? Þessu þarf öllu að velta fyrir sér í fullri alvöru.

Í II. kafla þar sem talað er um hin almennu markmið eru, eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu, markmið sem enginn getur svo sem sett sig upp á móti. Ég hnýt þó um eitt stjörnumerkt markmið, með leyfi forseta: ,,Að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og tryggt sé að fjölskyldur geti notið stuðnings til að annast aldraða og sjúka.`` Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þýðir það að enn eigi að halda þeirri stefnu stjórnvalda áfram að færa umönnun sjúkra af sjúkrahúsum og inn á heimilin? Og hver sinnir sjúkum inni á heimilunum? Eða á maður kannski að spyrja: Hverjar? Svona hluti þarf að athuga jafnvel í almennum markmiðum og hugsa alveg ofan í kjölinn hvað býr að baki og hvað það er sem við erum að tala um.

Hér eru einnig nefnd atriði um fjölskyldur nýbúa, þ.e. að þær fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi og það er mjög gott að það komi fram hér. Einnig um að unnið verði gegn misrétti í garð þeirra sem skera sig úr vegna kynþáttar, trúarbragða eða menningar og í garð fjölskyldna samkynhneigðra. Þessu mótmælir vonandi enginn og ég vil sérstaklega í þessu sambandi vekja athygli á hlutskipti margra erlendra kvenna sem flust hafa til Íslands og fá sumar hverjar ekki þessa tæknilegu nýbúaflokkun ef svo ósmekklega má að orði komast. Þær hafa margar hverjar í raun týnst. Þær þekkja ekki rétt sinn í samfélaginu og hafa ekki haft aðgang að fræðslu. Þó svo ég viti reyndar að staðið hafi verið fyrir kynningu og fræðslu og reynt að ná til þessara kvenna þá held ég að þetta sé verkefni sem þurfi að sinna enn um sinn og reyndar til langframa.

Aðgerðir í þágu fjölskyldunnar. Minnst er á að styðja þurfi barnafjölskyldur. Ég vil vekja sérstaka athygli á fjölskyldum einstæðra mæðra. Ég hygg að við vitum öll að einstæðar mæður sem eiga börn á skólaskyldualdri, kannski mörg, og börn í framhaldsskólum, búa margar hverjar við mikla fátækt. Unglingar í framhaldsskólum detta úr námi vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki efni á því að kaupa sér græna kortið í strætó eins og mér var sagt ekki alls fyrir löngu. Þetta eru raunveruleg dæmi um fólk eins og okkur sem tilheyrir barnafjölskyldunum sem talað er um í þingsályktunartillögum eins og þessari.

Hæstv. félmrh. minntist á það í ræðu sinni áðan að það mundi styrkja fjölskylduna að launakerfið yrði gagnsærra. Það blasir auðvitað við að afnema launaleynd í því sambandi. Ég tek fyllilega undir orð hæstv. ráðherra um það. Hér er talað um rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs. Það skal einnig upplýst að Kvennalistinn hefur í smíðum frv. um fæðingarorlof og fæðingarorlofssjóð þar sem m.a. verður gert ráð fyrir að feður eignist sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Ég treysti því að ríkisstjórnin muni styðja það frv. ekki síst þegar ég horfi á texta þessarar þáltill.

Ég vil taka undir orð sem hafa fallið áður í umræðunni um að þessa fjölskyldustefnu þarf að setja í samhengi við aðra stefnu sem kemur frá ráðuneytum ríkisstjórnarinnar. Í gær var rædd á hinu háa Alþingi staða jafnréttismála. Allt á þetta heima í sömu umræðunni. Það hlýtur að vera eina skynsamlega leiðin að skoða hverja einustu tillögu og frv. sem kemur, hvort sem það er frá stjórn eða stjórnarandstöðu, með tilliti til fjölskyldustefnunnar og jafnréttismálanna.