Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:51:49 (802)

1996-11-05 15:51:49# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:51]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að það lifnaði aðeins yfir umræðunni hérna í salnum. En það er alveg greinilegt að fyrrv. ráðherrar í fyrrv. ríkisstjórn þola ekki þann árangur sem þessi ríkisstjórn er að sýna. Og það er alveg ljóst að ef sú aðhaldsstefna hefði ekki verið sett fram, sem núv. ríkisstjórn hefur gert og hefur verið að vinna eftir, þá býð ég ekki í þá vexti sem hér væru við lýði. Hverjar mundu skuldir heimilanna þá vera? (Gripið fram í.) Hverjar mundu þær verða ef við hefðum stuðlað að því að lántökur ríkissjóðs væru áfram með þeim hætti sem þær voru og hér yrði stórfelld vaxtahækkun og verðbólguskriðan færi öll af stað? Nei takk, það er ekki sú leið sem þessi ríkisstjórn ætlar að fara. Við viljum hafa stöðugt efnahagsástand, það er mjög mikilvægt fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Hvað varðar þær kannanir sem ég kom hérna inn á, hvað Íslendingar eru almennt lífsglatt og hamingjusamt fólk, þá eru það kannanir sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur sett fram óumdeildar og hefur verið fjallað talsvert um í Morgunblaðinu og ég er viss um það að margir þingmenn hafa lesið sér til um þær. Þetta eru því borðleggjandi staðreyndir og er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt að íslenskt fólk sé almennt hamingjusamt. Þess vegna er hægt að túlka það sem svo að fjölskyldur á Íslandi hafi það þokkalegt. Að sjálfsögðu getum við fundið fjölskyldur sem hafa það hræðilegt. Það er í öllum þjóðfélögum, því miður. Og okkur ber að taka á því. En almennt má segja að íslenska fjölskyldan hafi það þokkalegt.

Gagnvart því sem kom hér fram um verðtryggingu lána þá veit hv. þm. það jafn vel og ég að það stendur til að afnema hana í þrepum sem er svar við fyrirspurn hv. þm. fyrir stuttu og hefur verið lagt á borð þingmanna.