Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:01:23 (807)

1996-11-05 16:01:23# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki að mér að hægt sé að slíta efnahagsmál úr tengslum við fjölskylduna og það er umræða sem er ekki hægt að eyða tíma í hér og það var alls ekki það sem ég gagnrýndi við þingmanninn. Ég sagði að einn yngsti þingmaðurinn kæmi hér upp í umræðunni um fjölskyldumál, sem er sérstök tillaga um að stjórnvöld setji sér opinbera fjölskyldustefnu, og hún er útfærð og hún er um sérstaka þætti sem við erum yfirleitt ekki að ræða í þessum þingsal, að þá skyldi þessi þingmaður falla í þá gryfju að fara í hefðbundna efnahagsmálaumræðu. Það var það sem ég var að segja, ekki að umræðan tengdist ekki fjölskyldumálum. Ég vil hafa það skýrt þannig að menn ræði hlutina á réttum nótum. Það hvarflar ekki að mér annað en að þessi mál, eins og öll önnur sem snerta aðbúnað og stöðu fjölskyldnanna í landinu, tengist öll. En það vantar að litið sé á mál samræmt frá sjónarhóli fjölskyldunnar, að það sé skoðað hvernig stjórnvaldsaðgerðir, mismunandi á hverjum tíma, mismunandi úr ráðuneytum, kannski gjörbreyta umhverfi fjölskyldu sem hefur gert sínar áætlanir og hefur treyst á sína stöðu. Það hefur ekki verið gerð tilraun til þess og það er eitt af því sem felst í tillögunni. Það sem ég var að hvetja til var að við reyndum að halda okkur svolítið við það sem snýr að tillögunni, en falla ekki í hefðbundna efnahagsumræðu sem fer fram hér næstum því hvern einasta þingdag árið um kring.