Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:07:19 (810)

1996-11-05 16:07:19# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:07]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fleiri hér í salnum eru sammála mér um að það sé brýnt að ræða efnahagsmál undir þessum lið. Ég ræddi hér um að það væri ánægjulegt að stjórnarandstaðan ætlaði að styðja þetta mál. En það kom fram með miklum þunga hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að stjórnarandstaðan mundi gera það og það er afar ánægjulegt.

Varðandi það að þessi þáltill. sé sérstakt baráttumál flokka hérna inni, þá er ekkert annað en gott um það að segja, afar gott. En hér var komið inn á það sem ég ræddi um í sambandi við hve skattar hefðu hækkað mikið um aldamótin ef núv. ríkisstjórn hefði ekki ákveðið að fara þá leið sem hún hefur valið, að ná niður halla fjárlaga til þess að geta haldið niðri vöxtum og lágri verðbólgu. Þessi tala, það að þurfa að hækka tekjuskatt úr 42%, sem tekjuskatturinn er í dag og fólki þykir nú nóg um, að hækka hann upp í 50%, þetta er að sjálfsögðu tala sem er reiknuð út. Það er ákveðin þensla í ríkisfjármálunum vegna eftirlaunaaldursins, þ.e. ellilífeyrisþegum er að fjölga. Þessi tala hefur komið fram í bæklingi sem ríkisstjórnin gaf út og var sendur inn á hvert einasta heimili, líka inn á heimili þingmanna þannig að þar geta þingmenn kynnt sér með hvaða hætti þetta er reiknað út og á hverra ábyrgð það er gert. Þar kemur þessi tala fram. Það sýnir sig að ef við förum ekki þá leið sem við höfum kosið núna þá verðum við því miður að hækka skatta upp í 50% um aldamótin og ég trúi því ekki að nokkur flokkur hér inni vilji gera það. Það viljum við framsóknarmenn alla vega ekki gera og þess vegna tökum við þátt í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ég sem ungur þingmaður, af því að hér er búið að draga það ítrekað inn, ég sem ungur þingmaður vil ekki að komandi kynslóðir þurfi að borga hærri skatta en þær sem núna lifa.