Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:10:48 (812)

1996-11-05 16:10:48# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:10]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er lýst eftir einhverjum sérstökum tillögum mínum í aðhaldi í ríkisrekstri. Að sjálfsögðu er fjárlagafrv. okkar stefna. Okkar stefna kemur fram í fjárlagafrv. Þar eru okkar tillögur um aðhald í ríkisrekstri. Það er nýbúið að dreifa svokölluðum bandormi á borð þingmanna. Það er bara um að gera að lesa það frv. Þar kemur fram okkar stefna. (Gripið fram í.)

Varðandi það að hér var talað um að gerð sé einhver sérstök aðför að hinum og þessum hópum. Mig langar í þessu stutta andsvari að koma aðeins inn á heilbrigðismálin, þann viðkvæma málaflokk, en við höfum oft rætt um það fram og til baka hversu erfitt ástand er í þeim málaflokki. Á þessu ári fór til heilbrigðis- og tryggingamála 51 milljarður. Á næsta ári fara 52 milljarðar í þann málaflokk, það hækkar um milljarð. Hins vegar vantar inn í fjárlagafrv. miðað við núverandi ástand, það er alveg rétt, og það er vegna þess að það er meiri og dýrari tækni, lyf hækka um 10% á milli ára, sem er afar mikið, og ellilífeyrisþegum fjölgar. Þetta eru bara staðreyndir sem við verðum að sætta okkur við. Við erum að hækka framlög úr 51 milljarði upp í 52 milljarða í heilbrigðis- og tryggingamálum sem taka 40% af ríkisfjármálunum þannig að þið sjáið við hvaða vanda er að etja. Og ef við gætum ekki aðhalds þá verður þetta kerfi bara stjórnlaust, algjörlega stjórnlaust. Og maður spyr sjálfan sig: Vill einhver ríkisstjórn taka við slíku stjórnlausu kerfi eftir næstu kosningar?