Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:26:10 (816)

1996-11-05 16:26:10# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta erum við þingmaðurinn sammála, nákvæmlega um það. Af því að það var nefnt hérna hvernig Alþfl. stóð að lánasjóðnum, þá vil ég líka minna á það hversu mikið það frv. breyttist frá því að það kom inn í þingið og þar til það var afgreitt þannig að í ýmsu var tekið á þar þó að e.t.v. væri niðurstaðan ekki sú sem hver einasti hefði viljað sjá og t.d. breyttust vaxtatölur mjög í því frv. bara svo að því sé haldið til haga.

En þegar við erum að búa til ýmsar aðgerðir og tillögur, stjórnvaldstillögur, erum við að gera það stundum í ákveðnu umhverfi og á skömmum tíma og takandi tillit til þess að tillögurnar hafi þessi áhrif inni í fjölskyldu af ákveðinni stærð og ákveðnu tekjumarki o.s.frv. Síðan er þessu breytt, síðan breytast tekjur hjá fjölskyldunni, síðan breytist atvinnustigið og staða fjölskyldunnar verður allt allt önnur án þess að það sé brugðist við og breytt þeim fyrri stjórnvaldsaðgerðum sem gerðar voru við allt aðrar aðstæður. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að mjög mikilvægt er að stjórnvöld setji sér fjölskyldustefnu, hafi tæki til að gera úttekt á stöðu fjölskyldunnar og hvernig hinar ýmsu stjórnvaldsaðgerðir bitna á henni.

Ég tek líka alveg undir það að þetta er eingöngu þáltill. sem greinir frá því í 16 liðum, ef ég man rétt, til hvaða atriða þessi stjórnarstefna skuli taka. Þess vegna brýndi ég ráðherrann með það í upphafi umræðunnar að eitt er það að við munum fljótlega samþykkja þessa tillögu en í framhaldinu ber ríkisstjórn að útfæra þá stefnu sem Alþingi felur henni og það er það sem verður mjög mikilvægt meðan þessi ríkisstjórn er við stjórnvölinn, meðan ríkisstjórn sem ég á aðild að verður við stjórnvölinn og þingmannsins sömuleiðis.