Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:28:03 (827)

1996-11-05 17:28:03# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Nokkur orð vegna þessara síðustu orðaskipta milli hæstv. félmrh. og hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það er mjög athyglisvert og það hefur ekki bara verið í dag heldur á umliðnum vikum að hv. þm. Guðni Ágústsson flýr alltaf úr sölum þegar verið er að ræða hvernig ríkisstjórnin hefur farið með heimilin í landinu. Hann þurfti ekkert að ræða um það í dag þegar hér var upplýst að á einu og hálfu ári hafa skuldir heimilanna í tíð Framsfl. aukist um 50 milljarða kr. Hann þurfti heldur ekkert að ræða um það þegar hér var upplýst í dag að á einu og hálfu ári hafa gjaldþrot heimilanna í landinu tvöfaldast. Hann þurfti heldur ekkert að ræða það þegar það var upplýst hér að 32.000 einstaklingar búa undir hungurmörkum. Hann þurfti heldur ekkert að ræða það þegar hér var rætt um að sívaxandi fjöldi fólks þarf að leita eftir framfærsluaðstoð. En þegar hann grípur eitthvað um húsbréfakerfi, greiðsluerfiðleika, þá telur hann sig geta farið í ræðustólinn.

Nú erum við margbúin að fara yfir það sem hér var verið að ræða um, greiðsluerfiðleikalánin frá 1990. Það er eins og það komist ekki inn fyrir þykkan skráp hv. þm. af hverju þetta var nú. (Gripið fram í.) Það var nú vegna þess að þingmenn Framsfl. komu í veg fyrir að það væri hægt að leggja af 86-kerfið fyrr heldur en við gátum gert þannig að við vorum með tvö kerfi í gangi sem jók þensluna á markaðnum. Þetta er viðurkennt í skýrslum frá Seðlabankanum, frá Húsnæðisstofnun og fleiri aðilum. Og það er viðurkennt líka í skýrslum sem hafa komið fram af hverju greiðsluerfiðleikar fólks eru. Það er fyrst og fremst vegna atvinnuleysis og lágra launa. Hér erum við einungis að tala um ákveðinn afmarkaðan hóp, sem betur fer er hann ekki stór, og einungis hluti af honum lenti í greiðsluerfiðleikum og það er verið að tala um að vanskil þeirra séu þriggja mánaða eða eldri.

[17:30]

Skýringin á því er líka sú að Húsnæðisstofnun situr oft eftir þegar fólk fer að greiða niður skuldir sínar. Húsnæðisstofnun hefur meiri biðlund gagnvart fólki, fer ekki eins fljótt með skuldir þeirra til lögfræðinga og t.d. bankarnir. Þess vegna er það oft að hún mætir afgangi þegar fólk er að greiða niður skuldirnar. Þetta er nú skýringin. Það væri auðvitað ástæða til þess að ræða frekar um húsnæðismál þó ekki sé tími til þess undir þessari umræðu t.d. það hvernig Framsfl. hefur svikið fólk, fólk í fyrirrúmi, um sitt stærsta kosningaloforð sem voru lög um greiðsluaðlögun. Ég er hér með pappíra frá nefnd sem skilaði niðurstöðu 1995, samráðsnefnd um greiðsluvanda heimilanna, og umsögn Húsnæðisstofnunar um tillögur sem ég flyt og eru hér á dagskrá, um aðgerðir til að bæta skuldastöðu heimilanna. Þar kemur fram að það sé mjög brýnt að koma á slíkri greiðsluaðlögun. En framsóknarmenn létu sér nægja einhvern kattarþvott á síðasta þingi sem litlu eða engu mun skila á móti því sem greiðsluaðlögunin hefur gert. Við getum líka rifjað upp skuldbreytinguna sem ráðherrann kom með inn á síðasta þingi. Sem betur fer var bjargaði félmn. því fyrir horn að ekki yrði öllu klúðrað þar og að skuldbreytingar yrðu miklu minni heldur en þær voru þó fyrir á árunum 1993. Hefðu þær tillögur verið í gildi sem ráðherrann var með á síðasta þingi og þær hefðu komist til framkvæmda 1993 þá hefði ekki nema hluti af því fólki fengið aðstoð. Þannig að saga Framsfl. í húsnæðismálum er ekkert til að vera að státa sig af hér í ræðustóli eða að rifja upp. Við munum það hvernig Byggingasjóður ríkisins stefndi beint í gjaldþrot, ekki að mínu mati heldur að mati Ríkisendurskoðunar og kom skýrsla um það árið 1990 og nú kemur skýrsla um slæma greiðslustöðu Byggingarsjóðs verkamanna vegna þess að það er verið að skera niður framlagið til Byggingarsjóðs verkamanna. Og í tíð hverra? Í tíð þessarar ríkisstjórnar.

En ég vil eyða þessum síðustu mínútum sem ég hef til að ræða um fjölskyldustefnuna. Það hefur margt borið á góma og verið farið vítt og breitt yfir sviðið. Það er alveg ljóst og hefur komið fram hjá mörgum hér að það vantar alla heildaryfirsýn, alla samræmingu um áhrif einstakra aðgerða ríkisstjórna, ekki bara þessarar heldur annarra, hvaða áhrif það hefur á kjör heimilanna og einstakra fjölskyldna. Maður verður að vona það í lengstu lög þangað til annað kemur í ljós að þetta fjölskylduráð hafi þetta hlutverk á hendi og að ríkisstjórnin taki þá mark á því. Ég vil spyrja ráðherrann af því að hann svaraði því ekki: Hvað á þetta fjölskylduráð að sitja lengi, af því að eru engin tímamörk? Á þetta fjölskylduráð sem verður sett á laggirnar samkvæmt þessari tillögu að sitja til eilífðarnóns? Til hve langs tíma er hún? Hvernig harmónerar saman framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og framkvæmdaáætlanir sem á að setja af stað samkvæmt þessari tillögu um málefni fjölskyldunnar. Eins og ég sagði þá lúta mörg atriði í framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna almennt að málefnum fjölskyldunnar. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um atriði sem fram kemur í þessari stefnumörkun þar sem sagt er að efnahagslegt grundvallaröryggi fjölskyldunnar sé tryggt. Hvernig hefur ráðherrann hugsað sér útfærslu í þessu efni? Við ræddum það í gær að kjarasamningar væru fram undan. Þar kom náttúrlega fram að fjmrh. er einn af stærstu atvinnurekendum í landinu. Þar vorum við að ræða um það misrétti sem er milli karla og kvenna og ekki síður hjá hinu opinbera heldur en öðrum. Þar er verið að tala um 11--16% kynbundinn launamun. Mun ríkisstjórnin, af því að ráðherrann svaraði því nú ekki í gær, beita sér eitthvað fyrir því að í næstu kjarasamningum verði tekið sérstaklega á þessum málum? Mun ríkisstjórnin hafa eitthvert frumkvæði að því er varðar það að stíga eitthvert skref til þess að jafna þennan launamun sem er milli kynjanna, og hvernig hefur ráðherrann hugsað sér að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldna eins og segir í þessari tillögu? Er þetta stafurinn einn? Það er það sem býður í grun miðað við reynsluna.

Varðandi yfirferð ráðherrans á hvað væri í vændum og hvað hann hefði nú gert. Það voru húsnæðismálin sem ég hef farið yfir. Það voru málefni fatlaðra. Hann talaði enn og aftur um aukningu upp á 190 millj. kr. Þroskahjálp hefur farið yfir það, Öryrkjabandalagið hefur farið yfir það hvernig er verið að skerða Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ráðherrann talar bara um aukningu. Hérna höfum við af því að fjmrh. virðist skilja hvað er á ferðinni ---- það var verið að dreifa hér í dag frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er tekin saman tafla um sparnaðinn í útgjöldum sem áætluð eru samkvæmt frv. Það er talað um sparnað í útgjöldum samkvæmt frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hann er 1.600 millj., þar af 268 millj. í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er verið að tala um að 268 millj. kr. niðurskurðurinn í málefnum fatlaðra sé sparnaður. Það var forsenda þess að taka þessa peninga að einhverju leyti inn í rekstur í þessum málaflokki að ríkisstjórnin léti það vera að taka í ríkissjóð hluta af erfðafjárskatti. Það er eins og ráðherrann skilji það ekki.

Það mætti auðvitað margt annað um þetta segja sem ráðherrann kom með í lokin og hann var raunverulega, virðulegur forseti, að endurvekja hér aðra umræðu um málefni fjölskyldunnar sem við þurfum að taka í annan tíma. Varðandi fíkniefnavandamálið, sem vissulega er ástæða til að taka á, jú, jú, það er hægt að ræða það og gera tillögur í ríkisstjórninni en á meðan það er ekki ein króna til viðbótar í fjárlögum næsta árs frá því sem er núna í átaki gegn fíkniefnum þá tek ég lítið mark á því.